Spil

Birt þann 18. júlí, 2016 | Höfundur: Þóra Ingvarsdóttir

Spilarýni: Carcassonne

Spilarýni: Carcassonne Þóra Ingvarsdóttir

Samantekt: Vinsældir Carcassonne eru mjög skiljanlegar, það er einfalt spil sem skilar því þó mjög vel af hendi sem það ætlar sér.

4.5

Gott


Einkunn lesenda: 4.8 (3 atkvæði)

Carcassonne er Spiel des Jahres verðlaunað spil fyrir 2-5 spilara frá Rio Grande Games sem flestir ættu að kannast við. Það kom fyrst út
fyrir um 15 árum og hefur lítið dalað í vinsældum síðan þá.

Spilarar skiptast á að draga reiti (e. tiles) og úr þeim mynda þeir saman nokkurskonar landakort með borgum, vegum, klaustrum og engjum. Sigurvegarinn er síðan sá sem nær að ljúka sem flestum af þessum hlutum á kortinu á gefinn hátt.

Umferðin hefst á því að spilari dregur reit af handahófi. Reitirnir eru næstum allir mismunandi, en innihalda allir hluta af a.m.k. einu landfræðilegu fyrirbæri (t.d. borg og engi, eða klaustri og vegi, eða bara engi). Spilarinn verður síðan að leggja þennan reit í landakortið – reiturinn verður að vera við hliðina á öðrum sem hefur áður verið settur niður, og verður að tengjast honum (sjá mynd), en annars ræður spilarinn hvert hann setur reitinn. Síðan má spilarinn að auki setja út fígúru (e. meeple) sem er nauðsynlegt til að slá eign sinni á fyrirbæri á kortinu, og þar með stigin sem eru gefin þegar fyrirbærinu er lokið á kortinu. Spilarar skiptast síðan á að draga flísar og leggja þær út með eða án fígúra þangað til flísarnar eru allar komnar út og spilinu er lokið. Stigin eru síðan talin og sigurvegarinn þannig fundinn.

Carcassonn_01

Carcassonne_01Carcassonne er fallegt og stílhreint spil útlitslega séð – það er greinilegt að mikið hefur verið lagt í hönnun reitanna, eins og áður sagði eru þeir flestir mismunandi en allir mjög fallega gerðir og fullir af pínulitlum smáatriðum eins og húsum í borgunum eða dýrum á engjunum. Borgirnar líkjast merkilega vel frönsku virkisborginni Carcassonne sem spilið er byggt á. Einna flottast er þó að mínu mati hversu vel þeir passa saman útlitslega þegar maður er kominn með stór kort af þeim – landakortið lítur yfirleitt að mestu leyti út eins og ein heild frekar en að kubbunum hafi bara verið hent saman af handahófi. Reitirnir eru líka úr mjög endingargóðum pappa og eru ólíklegir til að bogna eða eyðileggjast við endurteknar spilarnir.

Spilunin sjálf er líka góð, tiltölulega einföld, auðlærð og auðskilin. Ef ætti að nefna einhvern galla mætti það kannski helst vera að erfiðleikastig spilsins er miðað við að fjölskyldur geti spilað það saman – sem er auðvitað ekki galli í sjálfu sér, en hörðustu strategíuspilararnir gætu farið að ókyrrast eftir nokkrar spilanir. Það gæti samt glatt þá að vita að til eru margar viðbætur við Carcassonne sem bæta við það nýjum og flóknari reglum, og jafnvel valslöngvu þar sem maður fær að henda fígúrunum þvers og kruss um borðið. Vinsældir Carcassonne eru því skiljanlegar, það er einfalt en skilar því mjög vel af hendi sem það ætlar sér.

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑