Spil

Birt þann 9. júní, 2016 | Höfundur: Magnús Gunnlaugsson

Spilarýni: Lords of Waterdeep – „tilvalið fyrir þá sem ekki hafa prófað verkstjórnunarspil“

Lords_of_Waterdeep_01Lords of Waterdeep er líklega eitt mest spilaða spilið í spilasafninu mínu og því fannst mér tilvalið að skrifa smá umfjöllum um það. Lords of Waterdeep er verkstjórnunar (e.Worker Placement) spil. Í verkstjórnunar spilum keppast leikmenn um að leggja vinnumenn á reiti sem gefa af sér einhvern ágóða eða framkvæma einhverskonar aðgerð, einnig getur sú aðgerð lagt stein í götu andstæðinga með því að loka fyrir reiti sem þeir gætu haft not af.

Waterdeep, borg allsnægtar og stórfengleika en einnig slóttugra leiðtoga og vafasamra viðskiptahátta er sviðið. Í Lords of Waterdeep bregða leikmenn sér í hlutverk umræddra leiðtoga og leggja á ráð um að ná sem mestum völdum í borginni. Gnægt er af fjársjóðum og verðmætum byrgðum sem leikmenn keppast um að ná, og það sem ekki verður hægt að festa hönd á með útsjónarsemi eða leynimakki skal vera tekið með valdi.

Spilið er fyrir tvo til fimm leikmenn og tekur um tvær klukkustundir í spilun. Í upphafi spils draga leikmenn um hvaða leiðtoga þeir spila, hver leiðtogi leggur svo áherslu á tvær tegundir verkefna sem hann fær aukastig fyrir í lok leiks. Þessum upplýsingum heldur hver og einn fyrir sig. Leikmenn nýta umboðsmenn (e.Agents) og staðsetja á hina ýmsu reiti borðsins til að ráða til sín ævintýramenn (e.Adventurers) sem leysa verkefni fyrir hönd leikmanna og fá í staðinn verðlaun í formi stiga. Þessi verkefni geta verið af ýmsum toga svo sem góðgerðarstarfsemi, hernaður, sviksemi, eða galdrar.

Til að leysa þessi verkefni þarf að uppfylla ákveðin skilyrði; sem dæmi gæti þurft tvo hermenn, tvo þjófa, einn galdramann og fjóra peninga. Fyrir þetta fá leikmenn 10 stig og einn prest í verðlaun. Þessir ævintýramenn eru táknaðir í formi kubba sem litaðir eru á fjóra mismunandi vegu. Appelsínugulir hermenn, svartir þjófar, fjólubláir Galdramenn og hvítir prestar.

Hægt er að byggja nýjar byggingar sem bjóða uppá fleiri valmöguleika til að ráða til sín ævintýramenn eða safna peningum. Þessar byggingar hafa þann kost að kjósi andstæðingur að nýta sér bygginu í eigu annars leikmanns fær eigandinn alltaf hagnað af þeirri notkun ýmist í formi ævintýramanna, peninga eða leynimakks spila

Lords_of_Waterdeep_02

Leynimakks spil geta leikmenn notfært sér ýmist til þess að hjálpa sjálfum sér eða hafa hamlandi áhrif á andstæðinginn. T.d er hægt að stela ævintýramönnum eða pening frá öðrum leikmönnum, nýta sér umboðsmenn annara leikmenn og nýta þannig reiti sem eru nú þegar uppteknir á borðinu.

Að átta umferðum loknum er komið að því að telja lokastiginn. Leikmenn eru þá að öllum líkindum með mis mörg stig og einhver virðist vera búinn að sigra en ekki er allt sem sýnist. Leikmenn fá eitt stig fyrir hvern og einn ævintýramann sem þeir hafa aukalega í lokin og eitt stig fyrir hverja tvo peninga sem þeir hafa. Auk þess sýna þeir hvaða leiðtoga þeir voru að spila og fá fjögur stig fyrir hvert verkefni sem sá leiðtogi lagði áherslu á. Þarna getur bæst við urmull af stigum og menn hreinlega stolið sigri frá því er virtist augljósum sigurvegara. Spilið er því þrælspennandi þar til að síðasta stigið hefur verið talið.

Ekki er nokkur þörf á að hafa þekkingu eða reynslu af D&D spilun til að hafa gaman af en þeir sem hafa reynslu af D&D munu kannast við ýmsar tilvísanir í þekktar persónur eða staðsetningar úr heimi Faerûn.

Lords of Waterdeep er tilvalið fyrir þá sem ekki hafa prófað verkstjórnunarspil áður og vita ekki hvar skal byrja.

Spilið er auðlært og auðvelt að útskýra fyrir óreyndari spilurum. Þetta er t.d uppáhaldsspil kærustu minnar og hafa vinkonur hennar einnig mjög mikið dálæti á þessu spili. Þemað er því alls engin fyrirstaða. Lords of Waterdeep er tilvalið fyrir þá sem ekki hafa prófað verkstjórnunarspil áður og vita ekki hvar skal byrja.

Deila efni

Tögg:


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑