Spil

Birt þann 9. ágúst, 2018 | Höfundur: Guðjón T. Sigurðarson

Spilarýni: Ra – „fljótspilað og skemmtilegt uppboðsspil“

Spilarýni: Ra – „fljótspilað og skemmtilegt uppboðsspil“ Guðjón T. Sigurðarson

Samantekt: Fljótspilað og skemmtilegt uppboðsspil. Vegna breytilegrar uppröðunar takast leikmenn á við nýja áskorun við hverja spilun.

4.5

Skemmtilegt!


Ra er uppboðsspil þar sem leikmenn keppast við að skapa sér völd, frægð og frama í Egyptalandi til forna.

Spilið er hannað af Reiner Knizia, einni af gömlu kempunum í borðspilabransanum, og kom fyrst út árið 1999, þegar hann var á hátindi ferils síns. Ra er ætlað 2-5 leikmönnum og tekur tæpan klukkutíma að spila.

Ra var endurútgefið nýlega og á jafn vel við borðspilaáhugafólk núna og á útgáfudeginum fyrir nítján árum síðan.

Uppsetning, reglur og gangur leiksins

Uppsetning spilsins er afar einföld. Leikborðið er lagt á milli spilara og íhlutir eru lagðir innan seilingar. Peningaplötum með tölum á milli 1 og 16 er skipt bróðurlega á milli leikmanna, fyrir utan plötuna með lægsta gildið, sem er lögð á mitt leikborðið.

Leikborðið í miðju spili.
Uppboðsrásin er í forgrunni og Ra-rásin í bakgrunni.
Í miðjunni er peningaplata og Ra-líkneskið.

Ra er spilað í þremur lotum, sem fylgja allar sama mynstrinu. Í hverri umferð geta leikmenn valið á milli þess að draga flís úr poka og leggja hana á uppboðsrásina eða þess að ákalla sólguðinn Ra, en þá hefst uppboð á flísunum á uppboðsrásinni.

Ra er spilað í þremur lotum, sem fylgja allar sama mynstrinu. Í hverri umferð geta leikmenn valið á milli þess að draga flís úr poka og leggja hana á uppboðsrásina eða þess að ákalla sólguðinn Ra, en þá hefst uppboð á flísunum á uppboðsrásinni. Flísarnar eru af ýmsum toga, en flestar gefa þær leikmönnum stig. Svo nokkur dæmi séu nefnd, þá fær sá leikmaður sem á flestar faraóflísar eftir hverja lotu 5 stig, en sá sem á fæstar missir 2 stig. Eigi leikmaður allar fimm tegundirnar af iðnaðarflísum í lok lotu fær hann 15 stig, en eigi hann enga iðnaðarflís missir hann 5 stig. Nílarflísarnar gefa 1 stig hver, en til þess að fá stigin þurfa leikmenn að eiga flóðflís. Byggingaflísarnar gefa einungis stig í lok spilsins, en þá borgar sig að eiga margar mismunandi byggingar eða margar byggingar af sömu tegund.

Nokkrar flísar hafa þó önnur áhrif. Guðaflísarnar gefa leikmönnum 2 stig í lok lotu, en auk þess er hægt að nýta þær til þess að kaupa flís að eigin vali af uppboðsrásinni. Fái leikmaður hamfaraflís verður hann að losa sig við tvær flísar af sömu tegund. Ef Ra-flís er dregin úr pokanum fer uppboð sjálfkrafa í gang.

Uppboðin í Ra eru þungamiðja spilsins. Í hverju uppboði fær hver leikmaður eitt tækifæri til þess að bjóða eina af peningaplötum sínum í flísarnar á uppboðsrásinni. Leikmaðurinn sem efndi til uppboðsins, ýmist með því að draga Ra-flís eða ákalla Ra, er síðastur til þess að bjóða í góssið og því í vænlegri stöðu til þess að yfirbjóða andstæðinga sína. Sigurvegari uppboðsins fær allar flísarnar á uppboðsrásinni. Auk þess skiptir hann peningaplötunni á miðju borðsins út fyrir plötuna sem hann notaði til að vinna uppboðið. Nýja peningaplatan er lögð til hliðar og leikmaðurinn getur notað hana í næstu lotu.

Ef allir leikmenn hafa nýtt peningaplötur sínar lýkur lotunni, en lotunni getur einnig lokið ef Ra-rásin fyllist. Í hvert skipti sem leikmenn draga Ra-flís úr pokanum er hún lögð á Ra-rásina, og lotan færist einu skrefi nær endalokum sínum.

Við lok hverrar lotu eru gefin stig fyrir flísarnar sem leikmenn hafa safnað og flestar þeirra eru svo fjarlægðar úr spilinu. Sumum flísunum fá leikmenn þó að halda og skora stig fyrir þær í seinni umferðum eða í lok spilsins. Stigafjöldi leikmanna er falinn þangað til eftir lokastigagjöf, svo spennan heldur áfram uns yfir lýkur. Stigahæsti leikmaðurinn vinnur svo spilið.

Upplifun

Að segja að í Ra keppist leikmenn við að safna völdum, frægð og frama í Egyptalandi til forna teygir sannleikann nokkuð, þar sem þema spilsins er afar þurrt. Þemað tengist gangverki spilsins ekki að nokkru leyti, fyrir utan virkni Nílarflísanna (auðvitað græðir maður ekkert á ökrum nálægt Níl ef hún flæðir ekki yfir bakka sína). Að því sögðu sinnir þemað hlutverki sínu sem hækja fyrir sniðugt gangverk nokkuð vel og er ólíklegt til þess að fara í taugarnar á mörgum.

Staðreyndin er sú að þegar spilið hefst gleymast áhyggjur af veiku þema fljótt og við tekur blóðug barátta um bestu bitana á markaðnum.

Staðreyndin er sú að þegar spilið hefst gleymast áhyggjur af veiku þema fljótt og við tekur blóðug barátta um bestu bitana á markaðnum. Til að byrja með fylgir spilið föstu formi, leikmenn skiptast á að draga flísar og bæta þannig stöðuna á uppboðsrásinni. Á einhverjum tímapunkti verður potturinn nógu gómsætur til þess að einhver taki af skarið og ákalli Ra.

Þar sem allar peningaplöturnar í spilinu hafa mismunandi verðgildi getur sá sem á verðmætustu plötuna verið viss um að geta unnið hvaða uppboð sem er, en ef flísarnar sem standa honum til boða eru ekki nógu spennandi fyrir hans smekk er líklegt að hann sitji hjá eða bjóði lægri upphæð, sem gefur öðrum leikmönnum tækifæri á því að vinna pottinn.

Þetta veldur því að leikmenn með lágar peningaplötur geta takmarkað yfirburði ríkari leikmanna með því að koma uppboðum af stað áður en innihald uppboðsrásarinnar verður nógu gott. Þá neyðast þeir ríkari annað hvort til þess að sitja hjá eða eyða verðmætum peningaplötum í lélegan pott. Með því að nýta þetta bragð leika leikmenn sér þó að eldinum, því sá sem ákallar Ra verður að bjóða í pottinn ef enginn annar gerir það. Því geta leikmenn setið uppi með lélegar flísar ef andstæðingar þeirra sjá í gegnum blekkinguna.

Þar sem sigurvegari uppboðs fær líka peningaplötuna sem notuð var til þess að vinna síðasta uppboð getur óspennandi uppboðsrás orðið freistandi ef rétta peningaplatan er í borðinu. Nýja peningaplatan mun ekki hjálpa sigurvegaranum seinna í lotunni, en gæti gefið honum gott veganesti fyrir næstu lotu.

Ra-flísarnar virka eins og eins konar niðurtalning í spilinu, þar sem aðeins ákveðinn fjöldi þeirra getur verið dreginn í hverri lotu áður en lotan klárast. Þar sem leikmenn geta í mesta lagi unnið þrjú til fjögur uppboð í hverri lotu gæti það orðið þeim dýrkeypt að fullnýta ekki peningaplöturnar sem þeir eiga á hendi. Leikmenn eiga það því til að fara á taugum ef of margar Ra-flísar birtast snemma í lotu og keppast um að vinna ómerkilegar flísar til þess að fá einhver stig í lok lotunnar.

Ra-flísar í miðri lotu.

Ef leikmenn eyða peningaplötum sínum of hratt getur það leitt til þess að flestir þeirra klári þær of snemma svo einn leikmaður sitji einn að kjötkötlunum í lok lotu. Þá heldur hann áfram að draga flísar þangað til að potturinn er orðinn nógu góður fyrir hans smekk og hirðir innihaldið.

Þar sem framboð á flísum á markaðnum er tilviljunum háð er erfitt að hefja spilið með fyrirframákveðna áætlun.

Þar sem framboð á flísum á markaðnum er tilviljunum háð er erfitt að hefja spilið með fyrirframákveðna áætlun. Þegar leikmenn hafa náð nokkrum flísum fara áætlanir þó smám saman að myndast. Þar sem leikmenn geta tapað á því að eiga fæstar eða engar flísar af ákveðinni tegund en græða mikið á því að eiga flestar eða margar flísar af sömu tegund vilja þeir oftast eiga einhverjar flísar af flestum tegundum en margar af einni eða tveimur tegundum. Þá berjast sumir leikmanna um ákveðnar flísar sem eru verðmætar í þeirra augum, en eru næsta verðlausar í augum annarra leikmanna.

Oft er hart barist um flóðflísarnar, þar sem ein flóðflís getur virkjað stórt safn af Nílarflísum og gefið mikið af stigum. Þetta á sérstaklega við í síðari lotum spilsins, því leikmenn losa sig ekki við Nílarflísarnar sem þeir hafa aflað sér þegar lotu lýkur. Hamfaraflísar spila einnig inn í, þar sem leikmaður sem byggir stigaafkomu sína á einni tegund af flísum gæti lent í miklum vandræðum ef hann neyðist til að taka hamfaraflís af sömu tegund. Hópur af flísum getur því verið misverðmætur fyrir mismunandi leikmenn. Galdurinn að góðu gengi í spilinu er að meta virði flísa rétt og vita hvenær væri sniðugt að spreða góðu peningaplötunni sinni í pottinn. Þar sem óvissa ríkir um hvaða flísar koma út á leikborðið og hvenær getur þetta gildismat þó verið erfitt.

Þessi óvissa er hjarta spilsins og því munu leikmenn sem eru ekki hrifnir af tilviljanakenndum þáttum í spilum líklega aldrei sætta sig fyllilega við Ra. Í mörgum tilfellum væri ég sammála því, en í Ra hafa tilviljanakenndir þættir áhrif á alla leikmenn. Því hygla tilviljanir sjaldan einum leikmanni langt umfram aðra og það er verkefni leikmanna að spila á þann hátt að tilviljanir geti ekki gert út um sigurmöguleika þeirra. Það getur alltaf komið fyrir að ákveðin flís sem allir vilja fá komi bara alls ekki út á borðið, og það er vissulega svekkjandi, en þá er þeim mun líklegra að flísar af þeirri tegund verði algengari í næstu lotu og leikmenn geta hagað spilun sinni samkvæmt því.

Mín skoðun

Það er tiltölulega stutt síðan ég eignaðist Ra og prófaði í fyrsta skipti, en það hefur fljótt orðið að einu af uppáhaldsspilum mínum. Það er einfalt að læra og kenna, en það er erfitt að ná fullkomnum tökum á því, þar sem handahófskennd uppröðun á flísum býður upp á nýja þraut við hverja spilun. Leikmenn þurfa að taka erfiðar og áhugaverðar ákvarðanir nánast í hverri einustu umferð en þessar ákvarðanir verða þó aldrei yfirþyrmandi og umferðir líða fljótt hjá.

Reglurnar eru fáar og skýrar, svo það ætti ekki að taka langan tíma að læra á spilið. Auk þess fylgja spilinu hjálplegir svindlmiðar fyrir hvern leikmann, sem koma sér vel við stigatalningu.

Ég hef einungis spilað nýjustu útgáfuna af Ra, sem sjá má á meðfylgjandi myndum, svo ég get ekki borið saman við aðrar útgáfur, en ég er nokkuð sáttur við útlitið á mínu eintaki. Peningaplöturnar og flísarnar eru úr góðum pappa, borðið er fallegt með upphleyptum myndum og líkneskið sem leikmenn hefja á loft þegar þeir ákalla Ra er vandað. Flísarnar eru fallega myndskreyttar, en myndirnar eru það litlar að stundum er erfitt að greina tvær svipaðar myndir í sundur. Helsti gallinn við íhlutina er sá að pokinn sem flísarnar eru geymdar í er einum of lítill, svo það getur verið erfitt að rugla flísunum þegar þær eru allar komnar í pokann. Reglurnar eru fáar og skýrar, svo það ætti ekki að taka langan tíma að læra á spilið. Auk þess fylgja spilinu hjálplegir svindlmiðar fyrir hvern leikmann, sem koma sér vel við stigatalningu.

Flísarnar eru fallega myndskreyttar,
en það getur verið erfitt að greina á milli tveggja svipaðra mynda.

Spilið er sagt henta 2-5 leikmönnum, en ég hugsa að það sé best að spila það með 3-4 leikmönnum, þá sérstaklega fjórum. Tveggja manna útgáfan er alltaf eins konar núllsummuleikur, þar sem leikmenn gætu viljað kaupa safn af flísum sem gefur þeim ekki mikið af stigum til þess að koma í veg fyrir að andstæðingurinn fái þær, því það kemur út á það sama hvort maður fái sjálfur fullt af stigum eða hindrar það að andstæðingurinn fái þau. Sú hegðun hentar vel í mörgum öðrum spilum, þar sem leikmenn geta glaðst yfir útsjónarsemi sinni þegar þeir ná að hindra andstæðinginn í að ná því sem hann sækist eftir, en í tveggja manna útgáfunni af Ra finna leikmenn sjaldan fyrir þessari tilfinningu því verðlaunin eru yfirleitt þau að sitja uppi með flísar sem mann langaði ekkert sérstaklega mikið í til að byrja með.

Það heillar mig mikið við fjölmennari útgáfurnar af Ra að leikmann þurfa alltaf að keppa á mörgum vígstöðum. Í tveggja manna leik er yfirleitt nokkuð fyrirsjáanlegt hvað leikmaður er tilbúinn að bjóða í pottinn, en í fjölmennari leik hafa allir leikmenn mismunandi hvata fyrir því að ná flísunum í borðinu og það verður erfiðara að sjá fyrir sér hvað andstæðingarnir munu gera. Því bjóða fjölmennari útgáfurnar upp á mikil samskipti og marga árekstra á milli leikmanna, svo í góðum hópi verður spilið stórkostleg skemmtun.

Samantekt

Ra býður upp á áhugaverða þraut sem flestir ættu að hafa gaman af.

Ra er tiltölulega fljótspilað og skemmtilegt uppboðsspil. Vegna breytilegrar uppröðunar takast leikmenn á við nýja áskorun við hverja spilun. Spilaáhugafólk sem er ekki hrifið af tilviljanakenndri framvindu eða vill sökkva sér inn í framandi heim í spilinu ætti að leita annað, en Ra býður upp á áhugaverða þraut sem flestir ættu að hafa gaman af.

Að lokum

Hafi lesendur áhuga á að kynna sér önnur svipuð spil má nefna nokkur eftir sama höfund, Reiner Knizia, sem hafa öll verið endurútgefin nýlega. Þessi spil byggjast öll á uppboðsgangverki að miklu leyti, en á mismunandi hátt.

Í Modern Art sjá leikmenn um listasöfn og reyna að safna verkum eftir vinsælasta listafólkið, en þar sem leikmenn ráða því sjálfir hvaða verk fara á uppboð geta þeir stjórnað vinsældum listafólksins og verðmæti listaverka þeirra. Uppboðin í spilinu eru margbrotnari en uppboðin í Ra, þar sem leikmenn geta boðið hvaða upphæð sem er í verkin auk þess að verkin geta verið boðin upp á nokkra mismunandi vegu. Ennfremur er virði hvers verks óþekkt þegar það er keypt, svo spákaupmennska ræður ríkjum.

Í High Society taka leikmenn sér hlutverk hefðarfólks sem vill eignast fallegustu skartgripina, borða gómsætasta matinn og fara í flottustu fríin, en án þess að eyða öllum peningunum sínum í vitleysu. Allir leikmenn hefja spilið með jafnmikinn pening, en fátækasti leikmaðurinn í lok spilsins tapar, jafnvel þó hann eigi flottasta dótið. Spilið er í styttri kantinum, aðeins um 20 mínútur, og er fullkomið til þess að grípa í ef leikmenn eiga ekki mikinn tíma aflögu.

Í Amun-Re bjóða leikmenn í landsvæði í Egyptalandi til forna og byggja þau svo upp með pýramídum og bóndabæjum. Í miðju spilinu flæðir áin Níl yfir bakka sína og fleytir öllu lauslegu á brott, svo aðeins pýramídarnir standa eftir, og leikmenn þurfa aftur að ná yfirráðum yfir landsvæðunum. Á meðan hin spilin sem ég nefni byggjast nær eingöngu á uppboðum er Amun-Re talsvert margbrotnara, en án þess að vera mjög flókið í spilun.

Myndir: Z-Man Games og GTS

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑