Spil

Birt þann 30. september, 2020 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

VAHÚÚ! Lego Super Mario grunnpakkinn prófaður

Lego Super Mario er ný lína frá Lego þar sem tölvuleikurinn Super Mario mætir Lego-kubbunum klassísku. Við nördarnir fengum grunnsettið hjá Legobúðinni í Smáralind og skoðuðum innihaldið og hvað nýja Lego-línan hefur upp á að bjóða.

Í kassanum

Grunnsettið kostar í dag 12.999 kr. í Legobúðinni. Í kassanum er að finna gagnvirkan Lego Super Mario kall sem gengur fyrir batteríum (fylgja ekki með), kubbar til að búa til borð (level), Bowser Jr. óvinur, einn Goomba-sveppur, grænt rör, fánastöng, ský, blóm og nokkrir minni smáhlutir. Einnig fylgja með nokkrir kubbar sem innihalda strikamerki sem gagnvirki Mario kallinn getur lesið af og gefur í kjölfarið frá sér hljóð, breytir um hegðun eða fær aukahluti.

Ég fékk dætur mínar, Úlfrúnu alveg-að-verða 5 ára og Ninju 12 ára, til að skoða pakkann með mér þar sem Lego er í miklu uppáhaldi hjá fjölskyldunni. Samkvæmt leiðbeiningum er pakkinn ekki ætlaður börnum yngri en 6 ára og það er að líkindum vegna þess að pakkinn inniheldur nokkuð marga smáhluti.

Möguleikarnir

Með grunnsettinu er hægt að búa til eitt stutt borð í Lego Super Mario. Hægt er að búa til mismunandi borð þar sem ímyndunaraflið ræður för.

Með grunnsettinu er hægt að búa til eitt stutt borð í Lego Super Mario. Hægt er að búa til mismunandi borð þar sem ímyndunaraflið ræður för. Gagnvirki Mario öðlast líf þegar kveikt er á honum og inniheldur sérstaka skynjara sem skynja liti og strikamerki og hefur þannig áhrif á viðbrögð Marios. Til dæmis er einn kubbur með strikamerki sem stendur á Start sem lætur Mario spila þemalag Mario ásamt því að birta þann tíma sem spilarinn hefur til að klára allt Lego-borðið.

Á bringunni er Mario með lítinn skjá sem gefur til kynna hvað er að gerast í leiknum auk þess sem augun í honum eru með skjá og getur hann því blikkað og undirstrikað þær tilfinningar sem eru í gangi þegar Mario missir líf eða er þreyttur og vill fá að leggja sig. Einnig er að finna strikamerki fyrir gula spurningarkassa þar sem Mario getur meðal annars nælt sér í aukapeninga, svepp eða stjörnu. Óvinirnir Goomba og Bowser Jr innihalda einnig sérstök strikamerki og gefa frá sér skemmtileg hljóð. Mario skynjar sömuleiðis litina á kubbunum og táknar grænn gras, rauður er eldur, gulur eyðimörk svo eitthvað sé nefnt.

Hægt er að sækja sérstakt Lego Super Mario app þar sem notendur geta fundið leiðbeiningar og byggt borð sem aðrir notendur hafa búið til og spilað í gegnum þau í raunveruleikanum.

Skemmtileg upplifun

Við þrjú skemmtum okkur konunglega við að búa til nokkur borð og bræddi Mario hjörtu okkar allra með kunnuglegum hljóðum og líflegum viðbrögðum. Það kom okkur á óvart að enginn leiðbeiningarbæklingur skyldi fylgja með sem sýnir skref fyrir skref hvernig á að setja suma kalla saman eða hvernig grunnborðið er byggt, en þá er kubbendum bent á að sækja appið.

Hægt er að nota eldri Lego-kubba og nota þannig enn fleiri kubba til að búa til Mario-borð. Þegar búið er að setja saman borð hefst leikurinn og felst leikurinn í því að koma Mario yfir allt borðið áður en tíminn klárast. Í þessu felst að sá sem leikur Mario fylgir þeim reglum sem honum þóknast sem gerir leikinn í raun skemmtilegri og fyrir alla aldurshópa.

Viðbætur

Grunnpakkinn dugar í góða kvöldstund eða tvær en fljótlega fer mann að þyrsta í einhverjar viðbætur og myndi ég klárlega mæla með að kaupa eina til tvær viðbætur með grunnpakkanum til að auka möguleikana þegar verið er að búa til borð. Til eru fjölmargar viðbætur við grunnpakkann sem hægt er að skoða nánar á Legobudin.is.

Fjallað er nánar um grunnpakkann í fjórtánda þætti Leikjavarpsins.

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑