Bíó og TV

Birt þann 6. maí, 2016 | Höfundur: Steinar Logi

Kvikmyndarýni: Captain America: Civil War

Kvikmyndarýni: Captain America: Civil War Steinar Logi

Samantekt: Civil War er stórmynd sem stendur undir væntingum

4.5

Pottþétt skemmtun


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Í einu af verkefnum sínum þá lenda Hefnendurnir (Avengers) í óhappi sem leiðir til dauða saklauss fólks. Yfirvöld hafa fengið nóg og krefjast þess að ofurhetjurnar sæti eftirliti og geri ekki neitt nema í samráði við sérskipað yfirvald. Steve Rogers hefur brennt sig á slíku áður og neitar en Tony Stark, bugaður af samviskubiti vegna fortíðar sinnar, ákveður að skrifa undir og þannig tvístrast Hefnendurnir í tvær fylkingar. Í framhaldi af þessu gerast atburðir sem breikka gjánna á milli þeirra. Bucky, einnig þekktur sem Vetrarhermaðurinn, og gamall vinur Kafteinsins poppar upp og einnig dularfullur einstaklingur sem veit ýmislegt um fortíð Starks og hefur harma að hefna. Þrátt fyrir að það sé mikið að gerast nær þessi mynd að gera samskonar hlutum og í Batman v Superman mun betur skil og þá helst þessum ágreiningi milli aðalhetjanna. Söguþræðirnir eru reyndar merkilega líkir nema að Civil War er betri mynd, ekki bara að þessu leyti, heldur í alla staði.

Civil War er nokkurs konar sambland af Avengers og Captain America mynd. Við erum með stóran og breiðan hóp ofurhetja með tilheyrandi rassaspörkum en þetta hefur líka gæðastimpil Captain America myndanna og eins og áður standa bræðurnir Anthony og Joe Russo sig vel í leikstjórastólunum. Chris Evans er frábær og hugsanlega vanmetinn leikari. Ef ég ætti að nefna þrjá leikara sem blása lífi í klassískar ofurhetjur og maður á erfitt með að ímynda sér annan leikara þá myndi ég nefna Hugh Jackman, Chris Evans og að sjálfsögðu Robert Downey Jr. sem er líka í myndinni. Þannig að þessi mynd er mjög vel leikin. Eftir næstu málsgrein mun ég fjalla aðeins um nýliðana, einn þeirra hefði ég viljað sleppa við að sjá í síðustu stiklunni (trailer) þannig að ef þú telur það spilli þá ekki lesa eftir næstu málsgrein.

Civil War er nokkurs konar sambland af Avengers og Captain America mynd. Við erum með stóran og breiðan hóp ofurhetja með tilheyrandi rassaspörkum en þetta hefur líka gæðastimpil Captain America myndanna og eins og áður standa bræðurnir Anthony og Joe Russo sig vel í leikstjórastólunum.

Bardagaatriðin eru það besta við myndina en ég tek fram að ég sá myndina ekki í 3D því að ég hafði lesið að það væri svo mikið um hraðar bardagasenur að það gæti verið erfitt fyrir suma. Það sem gekk svo vel upp er að það var alltaf eitthvað sem kom manni á óvart, þetta var eins og Jackie Chan hafi verið ráðgjafi. Kafteinninn heldur áfram að nota skjöldinn sinn hugvitsamlega og Bucky gerði ótrúlega hluti með sinn Vibraníum-handlegg. Sérstaklega eftirminnilegur er stórbardaginn eftir hlé og síðan lokaatriðið sem eru einir af þeim bestu sem undirritaður hefur séð í sögu Marvel myndanna.

Captain_America_Civil_War_01

Gamla Avengers gengið stendur sig allt vel en leikarar Black Panther (Chadwick Boseman) og Spiderman (Tom Holland) eru með mjög sterka innkomu. Chadwick er fantagóður leikari og ofurhetjan Black Panther virkar mjög sannfærandi. Þetta lofar góðu fyrir Black Panther myndina sem kemur út 2018. Aðdáendur Spiderman ættu að vera mjög ánægðir núna því að þetta er eins nálægt teiknimyndasögum sem hefur sést á hvíta tjaldinu. Maður fann alltaf fyrir því í fyrri Spiderman myndum að leikararnir væru eldri en persónan átti að vera en núna er þetta krakki að leika krakka og það virkar (reyndar er leikarinn 19 ára en lítur út fyrir að vera yngri), sérstaklega í bardagaatriðum þar sem hann talar mikið rétt eins og í teiknimyndasögunum. Allar hetjurnar fá eftirminnileg atriði í þessari mynd sem er einstakt afrek miðað við fjöldann og þessi tveir og hálfur tími nýtist vel. Í sérstöku uppáhaldi hjá mér er Bucky, gamli vinur kafteinsins úr seinni heimsstyrjöldinni, sem var breytt í heilaþvegna drápsvél. Þó að Sebastian Stan fái ekki mikið að leika þá er hann svo sannfærandi og svalur í bardagaatriðum að það hálfa væri nóg. Hann átti mörg góð augnablik í Captain America: Winter Soldier og hann á nokkur flott augnablik hér.

Captain America: Civil War er frábær bíóupplifun og hefur allan pakkann; fínn söguþráður, vel útfærð bardagaatriði, góður leikur og húmor.

Captain America: Civil War er frábær bíóupplifun og hefur allan pakkann; fínn söguþráður, vel útfærð bardagaatriði, góður leikur og húmor. Ein smá ábending til foreldra; það er mikið um tal og uppbyggingu í fyrri hluta myndarinnar og fyrir tveggja og hálfs tíma mynd gæti þetta verið of mikill pakki fyrir þau yngstu. Mæli líka með að koma inn eftir bíóauglýsingar, það var mjög vandræðalegt að horfa á Seth Rogen og konuna hans gera smá heimaleikfimi í trailernum fyrir Bad Neighbors 2.

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑