Leikjarýni

Birt þann 9. apríl, 2022 | Höfundur: Steinar Logi

0

Gran Turismo 7 – „Litlar breytingar en svíkur ekki“

Gran Turismo 7 – „Litlar breytingar en svíkur ekki“ Steinar Logi

Samantekt: Litlar breytingar en svíkur ekki

4

Fyrir bílaáhugafólk


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Mikið hefur breyst í heiminum síðustu ár en ekki hvað varðar Gran Turismo seríuna. Það væri nánast hægt að afrita rýnina fyrir GT Sport frá árinu 2017 og bæta við örfáum nýjungum. Þar með er ekki sagt að þetta sé slæmur leikur. Hann lítur auðvitað betur út, sérstaklega á PS5 og spilunin er að mörgu, en ekki öllu, leyti sú sama.

Til að aflæsa allt þarf að spila í gegnum söguna ef sögu skyldi kalla. Hann Luka, eigandi kaffihússins í hverfinu, er með mikið af verkefnum fyrir þig sem þú leysir eitt í einu. Yfirleitt er þetta að safna þremur bílum frá sama framleiðanda eða að vinna einhver stórmót fyrir möguleika á góðum vinningi (í formi nokkurs konar lukkuhjóls). Smátt og smátt aflæsirðu fleiri brautir, möguleika á að uppfæra bílinn, aðgengi að betri bílum, fleiri netspilunarmöguleika o.s.frv. Sumir sem vilja bara byrja að keppa á netinu eru kannski ekki ánægðir með að þurfa að ganga í gegnum þetta en fyrir einhvern sem spilar ekki bílaleiki það oft þá var þetta fínt flæði.

Eins og áður þá verður maður að vera sítengdur netinu til að geta spilað flest þ.á.m. söguna sjálfa sem er furðuleg áframhaldandi ákvörðun. Þannig að þegar leikurinn er niðri vegna tæknilegra vandamála, eins og gerðist um daginn, þá getur fólk ekki spilað leikinn sem það er nýbúið að kaupa. Fyrir þá (og undirritaður var í þeim hópi) sem lentu í vandræðum þennan tíma þá greiddu Polyphony Digital eina milljón leikja-credits sem er dágóður skildingur þannig að ég fyrirgef þeim. Þeir hafa líka verið að bregðast við gagnrýni á græðgi (það er dýrara nú en áður að kaupa sjaldgæfa bíla) og munu hækka aftur verðlaun í næstu uppfærslu svo að eitthvað er Kazunori Yamauchi og hans lið að hlusta. En ef þú ert einn af þeim sem þurfa að fá sjaldgæfa bílana vertu viðbúinn að þurfa “grinda” í langan, langan tíma eða létta á veskinu þínu.

Það er gaman að spila leikinn og það er ákveðin kósí og nánast virðuleg stemmning að spila þennan leik. Manni finnst eins og maður þurfi að vera drekka fínt rauðvín og góða franska osta til að njóta hans til fulls. Það er líka reynt að gera hann meira lifandi með því að láta fólk tala við þig á ýmsum stöðum eins og á kaffihúsinu eða fyrir kepnni og þau gefa þér ýmsar upplýsingar (það er mjög mikið af bílaupplýsingum sem maður getur sökkt sér í). Tónlistarvalið hefur verið betra en er samt yfirleitt þægilegur bakgrunnur. Það er líka auðvelt að stilla erfiðleikastig sem hentar manni, ef maður vill gera hlutina auðvelda fyrir sig þá er það lítið mál og þú missir ekki af verðlaunum þannig.

Það er meiri áhersla lögð á að safna bílum og maður level-ar upp “Collector Level” út frá því hvað maður á marga bíla en sjaldgæfari bílar gefa fleiri reynslustig. Það er áfram “herramannseinkunn” í nethlutanum og mér fannst þeir gera það mun betur hér en í GT Sport. Ef maður ýtir eða keyrir á andstæðing þá fær maður refsingu talda í sekúndum sem allir sjá. Þegar þú kemur að ákveðnum stað á hringnum þá hægist sjálfkrafa á þér og margir komast þá framhjá. Það var mun skemmtilegra að spila við aðra spilara núna en var í GT Sport.

Gran Turismo™ 7_20220404215153

Yfir heildina litið þá hafði ég meira gaman af honum en GT Sport og bæti því við hann hálfri stjörnu síðan þá. Ekki skemmir að maður getur núna tekið myndir af bílnum sínum við Jökulsárlón og fleiri íslenska staði í “Scapes” hlutanum. Önnur viðbót eru “Missions” þar sem eru styttri verðlaunaðar áskoranir. Leikurinn er enn í þróun að því leyti að þau reyna að halda spilurum við efnið með litlum uppfærslum en tæknilega séð þá er hann fullslípaður og undirritaður lendi í engum vandamálum. Það gildir áfram með Gran Turismo að því meiri bílaáhugamaður sem þú ert því meira færðu úr honum.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:



Comments are closed.

Efst upp ↑