Bækur og blöð

Birt þann 27. apríl, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

Ofurhetjur 101: The Avengers

Föstudagurinn 27. apríl mun lifa lengi í minnum nörda hér á landi, en þá mun stórmyndin The Avengers verða frumsýnd. Hér er á ferðinni einhver stærsta mynd sumarsins, en í henni munum við í fyrsta sinn sjá Iron Man, Captain America, Thor, Hulk, Black Widow og Hawkeye saman í einni kvikmynd. Allar þessar hetjur, að Hawkeye undanskildum, hafa heillað áhorfendur á undanförnum árum í nokkrum vinsælustu ofurhetju-bíómyndum sögunnar. Það ríkir því vægast sagt mikil eftirvænting eftir The Avengers, en okkur hjá Nörd Norðursins datt ekki annað í hug en að taka ykkur, kæru lesendur, í Avengers-skyndikúrs svo þið séuð algjörlega tilbúin fyrir herlegheitin!

 

The Avengers

The Avengers voru fyrst kynntir til leiks árið 1963, en Marvel Comics skipaði meistaranum Stan Lee að búa til ofurhetjulið sem gæti náð sömu vinsældum og the Justice League frá DC Comics. Í fyrstu samanstóð hópurinn af milljarðamæringnum Tony Stark (Iron Man), þrumuguðnum Thor, vísindamönnunum Hank Pym (Giant Man) og Janet Van Dyne (The Wasp), auk hins úrilla Hulk. Rétt eins og í væntanlegri kvikmynd, er það illum bróður Thor, Loka, að þakka að hetjurnar fræknu koma saman. Með göldrum sínum, lét hinn illi guð, Hulk líta út fyrir að  hafa gengið af göflunum og söfnuðust ofurhetjurnar saman til þess að stöðva græna risann. Þegar í ljós kom að brögð voru í tafli  tókst þeim að stöðva Loka, en í framhaldinu ákváðu þau að stofna The Avengers.

And there came a day, a day unlike any other, when Earth‘s mightiest heroes found themselves united against a common threat no single hero could withstand. On that day, the Avengers were born!

Það var ekki fyrr en í fjórða blaði The Avengers sem Steve Rogers, Captain America, gekk til liðs við hetjurnar. Í lok Seinni Heimsstyrjaldarinnar hafði ofurhermaðurinn Rogers fórnað sér til að koma í veg fyrir algera tortímingu Bandaríkjanna, og hafði legið í dái síðan. The Avengers uppgötva Captain America, lífga hann við og leggja þar með lokahönd á hópinn. Ótalmargar persónar, bæði hetjur og skúrkar, hafi gengið til liðs við The Avengers í skemmri og lengri tíma, en Iron Man, Thor, Hulk, Captain America, Giant Man og the Wasp eiga þann heiður að vera fyrstu meðlimir hópsins.

The Avengers

Captain America

Það sem þú þarft að vita: Hinn ungi Steve Rogers vildi ólmur ganga til liðs við Bandamenn í Seinni Heimsstyrjöldinni, en vegna veikinda og slæms líkamsburðar var honum neituð aðganga. Hann lét það þó ekki stöðva sig heldur gekkst undir aðgerð sem umturnaði honum gjörsamlega. Sem Captain America, hinn fullkomni hermaður, hjálpaði hann Bandamönnum að sigrast á öflum Hitlers, sem og hinum illa Red Skull. Captain America færði sína stærstu fórn í lok stríðsins og féll í mitt Atlantshafið. Þar lá hann í mörg ár, þar til hann var svo lífgaður við í nútímanum. Captain America er leiðtogi The Avengers, og sannar það fljótt að hann er jafn ómissandi í dag og hann var fyrir 70 árum.

Það besta: Það eru margir sem gera þau mistök að telja Captain America vera lítið annað en skátadreng, eða heilalaust handbendi ríkisstjórnarinnar. Þegar ríkisstjórnin gerir mistök, eða eitthvað sem hann er ósammála, er Steve Rogers fyrstur til að gagnrýna hana. Hann er Ameríski Draumurinn holdi klæddur – hann er réttlæti fyrir alla í lifandi mynd. Hann er líka meira en frábær hermaður með skotheldan skjöld. Hann er gangandi, andandi goðsögn. Hann er maðurinn sem allar aðrar ofurhetjur innan Marvel-heimsins líta til þegar þá vantar innblástur. Þetta sannaði sig í The Amazing Spider-Man #537. Spider-Man veit manna best hvernig það er þegar allur heimurinn virðist vera á móti manni. Þegar hin unga ofurhetja fellur á hnén og getur ekki meira mætir Captain America til að rífa hann á lappir.

The Avengers

Doesn’t matter what the press says. Doesn’t matter what the politicians or the mobs say. Doesn’t matter if the whole country declares that something wrong is something right. This nation was founded on one principle above all else: The requirement that we stand up for what we believe, no matter the odds or the consequences. When the mob and the whole world tells you to move, your job is to plant yourself like a tree beside the river of truth and tell the whole world – ‘No, you move.’

Iron Man

Það sem þú þarft að vita: Það þekkja flestir til milljarðamæringsins hégómafulla Tony Stark, sem Robert Downey Jr. leikur af einstakri snilligáfu. Vopnaframleiðandinn Tony Stark lifði lífinu lifandi, ef svo má að orði komast, en lét líf annarra sig ekki varða. Það er, þangað til að hann var handsamaður af hryðjuverkamönnum og þvingaður til að hanna öfluga sprengju fyrir þá. Þess í stað notaði hann þau tæki og tól sem honum voru gefin til að búa til gríðarlega öflugan búning, sem hann svo notaði til að sleppa úr haldi. Atvikið hafði djúpstæð áhrif á Tony og hann sá í fyrsta sinn afleiðingarnar sem líf hans gat haft fyrir heiminn. Hann yfirgaf vopnaframleiðslu og einbeitt sér þess í stað að því að bæta heiminn. Hann fullkomnaði búninginn sem hafði bjargað lífi hans og hóf feril sinn sem ofurhetjan tæknivædda, Iron Man.

Iron Man

Það besta: Fyrsta kvikmyndin um Iron Man hóf hina ótrúlegu byltingu á ofurhetjumyndum sem hefur leitt okkur að The Avengers. En það má með sanni segja að það sé ekki fyrr en í lok myndarinnar sem við nördarnir gerðum okkur grein fyrir þeim breytingum sem voru væntanlegar.

I am Iron Man.

Það má enginn vita hverjar ofurhetjurnar eru í raun og veru. Þetta er ein allra stærsta klisja iðnaðarins og með þessum fjórum orðum sýnir Robert Downey Jr. okkur að það sé eitthvað svakalegt að byrja. Með þessum fjórum orðum tekur Tony Stark ábyrgð á öllu því sem hann hefur gert, bæði því góða og því slæma. Með þessum fjórum orðum gerði hann allt vitlaust. Og með þessum fjórum orðum varð Iron Man vinsælasta ofurhetja heims.

Thor

Það sem þú þarft að vita: Thor er sú hetja sem við Íslendingar eigum hvað mest í, en margt úr sögu persónunnar er hægt að rekja beint til Snorra Eddu. Þrumuguðinn Thor er sonur Óðins, og allra öflugasti stríðsmaður Asgard. Hann er ekki einungis sterkastur, því hann er sömuleiðis allra mesti hrokagikkur sem sögur fara af. Eftir að stolt Thor kemur guðunum í klípu ákveður Óðinn að senda hann í útlegð til jarðarinnar. Þar kynnist hinn skapstóri Thor mannkyninu, sem hann hefur lengi vel litið á sem pöddur undir fótum sér, og lærir smám saman að auðmýkt og góðmennska eru öflugri vopn en ofbeldi. Vopnaður hamrinum Mjölni verndar Thor mannkynið gegn hinum ýmsu vættum, þar á meðal bróður sínum Loka.

Það besta: Rithöfundurinn Walt Simonson er talinn einn sá allra besti sem starfað hefur hjá Marvel, og serían sem hann skein hvað mest í var Thor. Simonson skapaði einhverja svakalegustu epík sem þekkist í ofurhetjubransanum, en hann sótti mikinn innblástur í persónur og atburði goðafræðinnar. Rétt undir lok seríunnar gengu Ragnarök í garð, og rétt eins og um var spáð mætti Thor Miðgarðsormi í bardaga. Það vildi ekki betur til en svo að nokkrum blöðum áður hafði Thor barist harkalega við Hel, dóttur Loka. Þrátt fyrir að lúta í lægra haldi fyrir Thor náði Hel samt sem áður að eitra fyrir honum. Hægt og rólega varð Thor veikburða, þar til bein hans urðu veik og gátu brotnað við minnsta álag, á meðan engin sár sem hann hlaut gátu gróið. Þrumuguðinn lét þetta ekki stöðva sig og hélt af stað í bardaga gegn Miðgarðsorminum, og sýndi að hann var sú ofurhetja sem myndi síðust allra gefast upp.

The Avengers

Hulk

Það sem þú þarft að vita: Vísindamaðurinn Dr. Bruce Banner var sérfræðingur í rannsóknum á sviði Gamma-geislunar. Einn dag varð Bruce fyrir gífurlegu magni Gamma-geislunnar, sem hafði hingað til verið talin lífshættuleg. Ekki lést læknirinn góði, heldur umturnaðist hann í hinn ógurlega Hulk. Allt sitt líf hafði Bruce kæft niður neikvæðar tilfinningar, en við slysið losnuðu þær allar úr læðingi. Í framhaldinu þjáðist Bruce af þeim leiðinlega kvilla að í hvert sinn sem hann varð reiður breyttist hann í ristastórann, ofursterkann þurs. Þrátt fyrir að vera í fyrstu talinn heilalaust skrímsli tókst Bruce hægt og rólega að ná tökum á sjálfum sér þegar Hulk tók við stýrinu. Sem einn af upprunalegu meðlimum The Avengers heldur Bruce áfram að hjálpa þeim sem eru í vanda staddir, en leitar ákaflega að lækningu við veikindum sínum.

Það besta: Hulk hefur lengi þurft að eiga við fordóma umheimsins, en það eru ekki allir sáttir með að grænn, reiður risi þrammi um götur borgarinnar. Einn dag, eftir að Hulk olli slysi þar sem margir létu lífið, ákváðu nokkrir gáfuðustu menn Marvel heimsins að losa jörðina við jötuninn. Þar sem Hulk hafði alltaf viljað vera í friði, ákváðu þeir að senda hann til plánetu þar sem hann yrði eina lífveran. Hlutirnir fara sjaldan eftir áætlun í Marvel-heiminum, og sogaðist geimfar Hulks í gegnum svarthol og brotlenti á plánetu þar sem illur keisari réði völdum. Ólíkt því sem hann hafði vanist var Hulk langt frá því að vera sterkastur á þessari nýju plánetu, og var honum því hneppt í þrældóm. Seinna meir var hann gerður að skylmingarþræl sem leiddi uppreisn gegn keisaranum miskunnlausa. Sagan, sem heitir Planet Hulk og skrifuð var af Hulk-sérfræðingnum Greg Pak, er ekki aðeins ein allra besta Hulk-saga sem skrifuð hefur verið heldur með betri ofurhetjusögum síðari ára. Í henni fengum við í fyrsta sinn að sjá að Hulk er hættulegastur þegar hann er ekki sá sterkasti í herberginu.

The Avengers

Hawkeye

Það sem þú þarft að vita: Við fyrstu sýn virðist Hawkeye, eða Clint Barton, vera tilgangslausasti meðlimur liðsins. Hann býr ekki yfir neinum ofurkröftum, né er hann ofurhermaður. Hann er einfaldlega maður með boga og örvar. En það er mjög góð ástæða fyrir því að Hawkeye er talinn vera hjarta hópsins. Í byrjun ferils síns sem Hawkeye var Clint Barton glæpamaður. Hann notaði hæfileika sína til að ræna, en aldrei var hann talinn nógu hættulegur til að meðlimir Avengers sýndu honum nokkra athygli. Það fór vægast sagt í taugarnar á Clint, en hann ákvað að sýna hetjunum í tvo heimana. Hann braust inn í bækistöðvar þeirra og sigraði þau öll. Þessi „venjulegi“ náungi með bogann sigraði Captain America, Thor, Iron Man og Hulk. Hann særði þó ekkert nema stolt þeirra, en aðspurður sagðist hann ekki hafa ætlað að meiða þá, einfaldlega sýna þeim að hann gæti spilað á þeirra plani. Stuttu seinna var honum boðin staða í liðinu og hefur síðan þá sýnt það og sannað að þótt hann standi við hlið þrumuguðs, ofurhermanns og græns risa, ættir þú að hafa áhyggjur af því hvað hann muni gera þér.

Það besta: Ein allra öflugasta vera Marvel-heimsins er hinn svokallaði Grandmaster. Hann er einn af Öldungum veraldarinnar – fyrsti kynþátturinn sem skapaðist í kjölfar Stóra Hvellsins. Grandmaster er ódauðlegur og forfallinn spilafíkill, en hann notar hetjur og skúrka miskunnarlaust sem peð í leikjum sínum og veðmálum við aðra Öldunga. Einn slíkur Öldungur, Dauðinn sjálfur, ákvað að veðja við Grandmaster um að hetjurnar í Avengers gætu unnið hvaða her sem er. Grandmaster bjó þá til herinn Legion the Unliving sem aldrei gat fallið í bardaga. Það fór ekki betur en svo að allir meðlimir The Avengers, fyrrverandi og núverandi, voru myrtir af hinum ódauðlega her. Aðeins Hawkeye og Captain America stóðu eftir, en rétt áður en þeir voru látnir halda baráttunni áfram stakk Clint Barton upp á veðmáli. Hann átti tvær örvar eftir en aðeins ein þeirra var með örvarodd. Hann skyldi halda á þeim fyrir aftan bak og Grandmaster skyldi reyna að velja þá réttu. Ef Hawkeye sigraði þyrfti Grandmaster að lífga hetjurnar við – ef Grandmaster sigraði myndi hann eyða öllu lífi á jörðinni. Eins og gefur að skilja bar Hawkeye sigur úr býtum, en þegar Captain America skammaði hann fyrir að taka slíka áhættu útskýrði Barton að Grandmaster hafði valið rétta ör – hann hefði bara brotið oddinn af og logið.

Eins og þið sjáið er Hawkeye því ekkert síðri en félagar hans í The Avengers og getur sigrað hvern þann sem hann berst við. Ef ekki svindlar hann bara.

The Avengers

Black Widow

Það sem þú þarft að vita: Natasha Romanoff var kynnt til sögunnar í Iron Man-sögu frá árinu 1964, en hún var ein af tveimur skúrkum sem reyndu að ráða niðurlögum Tony Stark. Hin útsmogna Black Widow notaði síðar meir kynþokka sinn til að sannfæra Hawkeye um að snúast gegn liðsfélögum sínum, og var tíður gestur í sögum ýmissra hetja hjá Marvel. En á síðari árum kom í ljós að hún var í raun heilaþvegin af rússnesku leyniþjónustunni og þráði ekkert heitar en sleppa til Bandaríkjanna. Með hjálpa Avengers-manna tókst það og gekk hún til liðs við þá. Þrátt fyrir að mikilvægur hluti af liðsheildinni var ofurhetjulífið ekki fyrir Natöshu, en hún gekk þá til liðs við leyniþjónustunna S.H.I.E.L.D, þar sem hún varð mikilvægasta vopn Nick Fury. Natasha hefur síðan þá skotið upp kollinum í langflestum seríum frá Marvel, en hún er alveg jafn hættuleg bak við tjöldin og hún er í návígi.

Það besta: Black Widow er njósnari af bestu gerð – þú sérð hana ekki fyrr en það er orðið of seint. Aðeins hún veit hvar hún stendur hverju sinni, hvora hliðina hún vinnur í raun fyrir og hvora hún er að svíkja. Vopnin sem hún notar eru ekki aðeins byssur og bardagalistir heldur eru traust og leyndarmál gífurlega hættuleg í hennar höndum. Þegar þú ert handviss um að þú hafir náð yfirhöndinni, þá þarftu helst að passa þig. Þetta sjáum við í þessari klippu úr The Avengers, en Black Widow sýnir aulabárðunum í myndbandinu að hún er aldrei hættulegri en þegar þú hættir að hafa áhyggjur af henni.

 

Þar hafið þið það. Allt sem þið þurfið að vita um hetjurnar sem safnast saman núna á föstudaginn 27. apríl í The Avengers. Farið nú og lesið sögur eða skoðið myndir af Iron Man, Captain America, Thor, Hulk, Black Widow og Hawkeye, og við sjáumst hress í bíó um helgina!

The Avengers

Bjarki D. Svanþórsson

Deila efni

Tögg: , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑