Fréttir

Birt þann 19. maí, 2016 | Höfundur: Nörd Norðursins

Íslenskir tölvuleikir verðlaunaðir á Nordic Game Awards

Norrænu tölvuleikjaverðlaunin Nordic Game Awards fóru fram í kvöld á Nordic Game ráðstefnunni í Malmö. Viðburðurinn er einn af hápunktum ráðstefnunnar þar sem tölvuleikir frá Norðurlöndum eru verðlaunaðir í nokkrum flokkum. Fjórir íslenskir tölvuleikir voru tilnefndir til verðlauna í ár; EVE Gunjack, Box Island, Kingdom og Aaru‘s Awakening. Við fjölluðum nánar um leikina fjóra hér í nýlegri grein.

Box Island frá íslenska tölvuleikjafyrirtækinu Radiant Games sigraði í flokknum besta skemmtunin fyrir alla.

Box Island frá íslenska tölvuleikjafyrirtækinu Radiant Games sigraði í flokknum besta skemmtunin fyrir alla. Box Island er þrautaleikur sem kennir beitingu grunngilda forritunar og eflir rökfræðilegan hugsunarhátt. Aðrir leiki sem voru tilnefndir í sama flokki voru SteamWorld Heist, Zombie Vikings, Angry Birds 2, AG Drive, Shiftlings og Sofus & Månemaskinen.

EVE Gunjack frá CCP hlaut sérstaka viðurkenningu frá dómnefnd fyrir að vera framarlega á sviði VR tækni.

EVE Gunjack frá CCP hlaut sérstaka viðurkenningu frá dómnefnd fyrir að vera framarlega á sviði VR tækni. EVE Gunjack er hraður VR geim-skotleikur þar sem spilarinn hreyfir höfuðið til að miða á óvini sína. Nýlega tilkynnti CCP að leikurinn væri mest seldi leikurinn fyrir Samsung Gear VR. Auk þess hefur fyrirtækið verið að gera aðra áhugaverða hluti sem tengjast VR, þar á meðal með EVE Valkyrie og Project Arena.

Það var Cities: Skylines frá finnska leikjafyrirtækinu Colossal Order sem hreppti stóru verðlaun kvöldsins þar sem hann sigraði flokkinn besti norræni tölvuleikur ársins (2015). Aðrir leikir sem fengu verðlaun voru Badland 2 frá finnska fyrirtækinu Frogmind Games sem besti norræni tölvuleikurinn á litlum skjá, Star Wars: Battlefront frá DICE í Svíþjóð hreppti tvenn verðlaun, fyrir listræna nálgun og bestu tæknina, Affordable Space Adventures frá danska fyrirtækinu Knapnok Games sigraði í flokknum besta leikjahönnun og hryllingsleikurinn Soma frá Frictional Games í Svíþjóð hlaut verðlaun fyrir besta hljóðið.

Hér er hægt að sjá lista yfir alla þá leiki sem tilnefndir voru til verðlauna í ár.

Nordic Game Awards er hluti af The Nordic Game Institute sem samanstendur af leikjasamtökum á Norðurlöndunum; Dataspelsbranschen í Svíþjóð, Icelandic Gaming Industry á Íslandi, Neogames í Finnlandi, Spillprodusentforeningen í Noregi and Producentforeningen í Danmörku.

Í dómnefnd voru: Bjarki Þór Jónsson frá Íslandi, Juho Kuorikoski frá Finnlandi, Rune Fjell Olsen frá Noregi, Kajsa Lundquist frá Svíþjóð og Søren Staal Balslev frá Danmörku.

Mannstu hverjir unnu í fyrra? Hér er hægt að sjá sigurvegara Nordic Game Awards 2015.

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑