Birt þann 30. apríl, 2016 | Höfundur: dan
Þrír góðir sófa-leikir
Þar sem aðgengi að interneti er nánast orðinn sjálfsagður hlutur fyrir tölvuleikjaspilara þá eru flestir leikir í dag komnir með þann möguleika á að spila við aðra í gegnum internetið. Þetta er frábær þróun sem gerir mörgum kleift að spila með öðrum spilurum hvar svo sem þeir eiga heima.
Fjölspilun í gegnum tölvuleiki er oft frábær upplifun en það er oft þar sem það vantar eitthvað. Stundum vantar að hafa meðspilarann sér við hlið til að geta gefið gott klapp á bakið þegar vel tekst til, eða hafa andstæðinginn nálægt sér til að sýna virkilega hversu yfirvegaður maður getur verið þegar búið er að sópa gólfið með manni í mörg skipti í röð.
Við ætlum að byrja að fjalla um leiki sem hægt er að flokka sem sófa-leiki, en það eru leikir þar sem vinir, óvinir og ættingjar geta spilað á sama tíma.
Margir nýlegir tölvuleikir styðja ekki möguleikann á að margir geti spilað á sama tíma í sömu tölvu, og þar með er ekki lengur sjálfsagt að það sé hægt að heimsækja vin sinn og hoppa með honum í leik. Við ætlum að byrja að fjalla um leiki sem hægt er að flokka sem sófa-leiki, en það eru leikir þar sem vinir, óvinir og ættingjar geta spilað á sama tíma.
Hvort sem verið sé að spila að sameiginlegu markmiði eða keppa innbyrðis skiptir ekki. Þessi leikir eiga það allir sameiginlegt að það er hægt að spila þá á einum skjá. Þetta er ekki tæmandi listi, heldur munum við reglulega koma með lista sem þennan og fjalla um nýja leiki í hvert skipti.
ROCKET LEAGUE
Það er ekki annað hægt en að byrja að fjalla um leikinn Rocket League, en gagnrýni um leikinn má lesa hér. Stýra bílum til að keyra á bolta til að koma honum í mark eða körfu andstæðingana. Hvað getur klikkað? Frábær leikur til að spila með öllum.
Þetta er hraður leikur og því gott að hafa einbeitinguna í lagi. Leikurinn skiptir skjánum niður á fjölda spilara, því getur verið að hver og einn spilari hafi lítinn skjá. Bara ennþá betri afsökun til að fá sér stóra sjónvarpið.
Það geta 1-4 spilarar spilað leikinn. Þennan er hægt að nálgast á PC, PlayStation 4 og Xbox One.
CHARIOT
Chariot er þrautaleikur þar sem spilarinn stjórnar prinsessu sem er með jarðneskar leifar föður síns, kóngsins, og leitar að hvíldarstað fyrir þær. Vandamálið er að kóngurinn hefur mjög sterkar skoðanir um hvar hann eigi að vera grafinn, því þarf spilarinn að draga, ýta, lyfta og toga í vagn til að finna verðugan stað fyrir kónginn.
Tveir spilarar geta spilað leikinn saman, en annar spilarinn stýrir þá unnusta prinsessunnar og kóngurinn hikar ekki við að kasta fram fyndnum ummælum um hann.
Þetta er stórskemmtilegur þrautaleikur. Ég mæli eindregið með honum, og þá sérstaklega í samspili.
Þennan er hægt að nálgast á PC, PlayStation 3, PlayStation 4, Xbox One og Wii U.
STARWHAL
STARWHAL er mjög sérstakur leikur þar sem spilarar stjórna dýri sem líkist náhvali en er samt í geimnum. Markmiðið er að ná að stinga oddinum þínum í hjartað á andstæðingnum. Hljómar einfalt, ekki satt? Rangt. Það getur verið erfitt að stýra þessum dýrum og sérstaklega þegar það eru fjórir spilarar í gangi þá þarf virkilega að pæla í vörn og árás.
Þetta er ekki leikur sem maður á eftir að spila samfleytt í langan tíma, en gaman að hoppa í hann til að brjóta upp spilakvöldið.
Allt að fjórir geta verið að spila leikinn.
Þennan er hægt að nálgast á PC, Mac, Linux, PlayStation 3, PlayStation 4, Xbox One og Wii U.