Allt annað

Birt þann 25. október, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Tölvuleikjanörd Íslands fundinn!

Í lok september hóf Nörd Norðursins leitina að tölvuleikjanörd Íslands. Við fengum mikið af góðum umsóknum í hendurnar og greinilega nóg til af efnilegum leikjanördum á Íslandi! Á endanum þurftum við þó að taka ákvörðun og stendur Páll Grétar Bjarnason uppi sem sigurvegari og hlýtur titilinn Tölvuleikjanörd Íslands auk þess sem hann fær veglegan leikjapakka frá Gamestöðinni í verðlaun! Til hamingju Páll!

Sagan af Páli er heillandi og skemmtilegt dæmi um hvernig áhugamál getur þróast út í atvinnu og haft jákvæð áhrif á persónulegt líf fólks. Páll átti um tíma erfitt með að kynnast fólki en eignaðist marga vini í gegnum tölvuleikjaspilun sína. Hann hefur spilað EVE Online hálfa ævi sína, eða í tæp níu ár, og í dag starfar hann hjá CCP, leikjafyrirtækinu sem bjó til leikinn.

MegamanPáll byrjaði snemma að spila tölvuleiki og kynntist mörgum af sínum fyrstu tölvuleikjum í gegnum pabba sinn. Páll byrjaði að spila leiki á borð við Privateer 2, Dune 2000, Super Mario, Megaman, TMNT og fleiri klassíska leiki og var fljótur að detta inn í Pokémon Blue. Á sínum yngri árum flutti Páll erlendis og tók tíma að læra nýtt tungumál og aðlagast nýju umhverfi og nýrri menningu. Páll og bróðir hans fengu PlayStation 2 í jólagjöf það ár og spiluðu leiki á borð við LOTR: Two Towers og SSX Tricky, sem Páll segist stundum spila enn þann dag í dag.

Árið 2005 kynntist Páll fjölspilunarleiknum EVE Online í gegnum pabba sinn. Páll féll fyrir leiknum og var fljótt farinn að spila hann með íslenskum og skoskum vinum. Í gegnum árin kynntist Páll nýjum EVE spilurum sem urðu að lokum góðir vinir hans.

Með árunum varð Páll betri og betri í EVE Online og ákvað hann að skella sér á EVE Fanfest árið 2009. Hann lofaði sjálfum sér að gera sem mest úr viðburðinum og vann meðal annars EVE Online PvP keppnina og Royal Rumble það árið. Einnig náði lið Páls að sigra CCP Dev liðið í EVE Online PvP keppni eins og má sjá á myndbandinu hér fyrir neðan.

Leikjanord_Pall_01og2

T.v: Páll tekur á móti verðlaunum eftir að hafa sigrað CCP Dev í PvP. | T.h: Liðið Muffin Munchers, Páll er lengst til vinstri.

Árið 2012, eftir að hafa spilað EVE Online í átta ár, ákvað Páll að endurtaka leikinn og fara aftur á EVE Fanfest. Að þessu sinni vann hann EVE Fanfest Scavenger Hunt (in-game) og EVE/DUST 514 Tournament. Þarna kynntist hann hópi af nýju fólki, þar á meðal nokkrum af sínum bestu vinum. Eftir sæta sigra og nýjan vinskap hélt hann að toppnum væri náð, en svo var ekki. Einhver sendi tíst til Hilmars Veigars, framkvæmdastjóra CCP, á Twitter þar sem sagt var að Páll hafi verið framúrskarandi í EVE Trivia og unnið alla. Eitt leiddi að öðru og endaði Páll í atvinnuviðtali í kjölfarið hjá CCP og í dag starfar hann hjá leikjafyrirtækinu sem Game Master.

Við þetta er að bæta að Páll á yfir 100 leiki á Steam, Origin, PC, PS2, Nintendo, Wii, PS3 og Game Boy. Hann hefur spilað Battlefield 3 í a.m.k. 450 klukkutíma, elskar Pokémon leikina, og stefnir á að fá sér EVE húðflúr á næstunni.

Leikjanord_Pall_setup

Leikjasvæði Páls

 

Við óskum Páli enn og aftur til hamingju og þökkum öllum fyrir þátttökuna!

 

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑