Bíó og TV

Birt þann 20. september, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: The World’s End

Fyrir sumarið sá ég kitluna fyrir The World’s End og var staðráðinn í að sjá hana í bíó enda mikill aðdáandi þríeykisins sem samanstendur af leikstjóranum Edgar Wright, leikurunum Simon Pegg og Nick Frost. Ég hef fylgst með þeim síðan ég uppgötvaði bresku grínþættina Spaced fyrir tilviljun á Stöð 2 og kolféll fyrir þeim. Þeir stóðu á bakvið myndirnar The Shaun of the Dead og Hot Fuzz en hafa einnig unnið að öðrum verkefnum með góðum árangri; Edgar Wright leikstýrði og meðskrifaði Scott Pilgrim vs. the World og þeir Simon Pegg og Nick Frost skrifuðu og léku í Paul. Það hlaut að koma að því að þeir kláruðu myndaþrennuna sem þeir kölluðu „blóð og ís þrennuna“ eða „Cornetto-þrennuna“ eftir ísnum sem birtist í öllum myndunum. Ég fór á myndina í síðustu viku með félögum mínum og það var mikið hlegið.

Bíóvefurinn hefur staðið að sérstökum sýningum á myndinni í samvinnu við Myndform vegna fjölda áskorana í ljósi þess að myndin færi ekki í almenna sýningu. Það varð uppselt á fyrstu tvær sýningarnar og var þriðja sýningin í þessari viku.

Kvikmyndin fjallar um Gary King (Simon Pegg) sem hóar saman fjórum æskufélögum sínum 20 árum síðar til þess að klára „gylltu míluna“, einn bjór á öllum tólf börunum í gamla bænum þeirra. Allir félagar hans eru vel settir og hafa talsvert breyst, eitthvað sem hann Gary hefur ekki gert. Samband Gary við félaga sína er ansi stirt og Andy (Nick Frost), besti vinur Gary, er allt annað en sáttur við hann. Gary nær þó að koma þeim öllum saman á pöbbaröltið og smám saman taka þeir eftir því að ekki er allt sem sýnist í gamla bænum þeirra. Þeir komast fljótlega að því að bærinn hefur verið yfirtekinn af vélmennum og í því yfirskini að láta lítið á þeim bera ákveða þeir að klára pöbbaröltið. Það gengur ekki eins vel og fljótlega er allur bærinn á eftir þeim.

Worlds End

Það vantar ekki húmorinn í þessa mynd og allur salurinn hafði mjög gaman af myndinni. Þau sem hafa séð hinar tvær í svokölluðu Cornetto-þrennunni munu sjá sömu stílbrigðin sem einkenna myndirnar eins og hraðar klippingar, endurtekningar á línum og margar vísanir í frægar myndir og þeirra eigin verk. Allt er alveg til fyrirmyndar, leikararnir standa fyrir sínu, tónlistarvalið er fullkomið og maður fylltist af nostalgíu við það að heyra sum lögin sem réðu lögum og lofum á tíunda áratugnum. Það var mjög gaman að sjá þá Simon Pegg og Nick Frost skiptast á hlutverkum; alltaf hefur Pegg verið venjulegi gaurinn á meðan Frost hefur verið sá skrítni. Slagsmálasenurnar voru vel útfærðar og það skín í gegn ást þeirra á austurlenskum slagsmálamyndum í þessum senum. Fullt af vísunum voru að finna í myndinni, allt frá frægum stórmyndum til Buster Keaton.

Samt sem áður er ég ekki alveg sáttur við myndina, flæði myndarinnar er ekki nógu gott; það tekur þónokkurn tíma að kynnast persónunum og komast á fyrsta pöbbinn. En þegar allt fer í háaloft tekur myndin á flug og sleppir ekki tökunum á áhorfendunum fyrr en í lokin. Endirinn fannst mér skemma svolítið fyrir skemmtilegri bíóferð, maður sá þetta ekki koma fyrir þótt ég vissi að endirinn yrði frekar óhefðbundinn. Þeir mega eiga það að standa á sínu og gera myndina sem þeir vildu. Mig grunar samt að myndin vinni meira á eftir því sem maður sér hana oftar og ég á eftir að kaupa hana þegar hún kemur út á mynddiski.

Ég las einhvers staðar að þessari Cornetto-þrennu væri líkt við Evil Dead þrennuna og finnst það passa ágætlega við. Evil Dead væri Shaun of the Dead, mynd sem tekur sig alvarlega; Evil Dead 2 væri Hot Fuzz, mynd sem er mun meiri gamanmynd heldur en fyrirrennarinn og Army of Darkness væri The World’s End, mynd sem fer í allt aðra átt en hinar og langt frá því að sé hægt að taka hana alvarlega. Miðað við hinar tvær, sem ég horfði aftur á til þess að bera saman, þá fannst mér þessi klárlega veiki hlekkurinn í þrennunni. Hún er samt þrælskemmtileg en mér fannst hún ekki eins heilsteypt og hinar. Ætli einstefnan í sögunni hafi eitthvað að gera við myndina, því þetta snýst bara um pöbbaröltið og sögusviðið því minna en í hinum myndunum. Ég vil samt hvetja alla til þess að sjá hana í bíó ef þeir geta og það veltur á fjölda áhorfenda hvort það verður önnur sýning. Skál!

 

Höfundur er Jósef Karl Gunnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑