Bíó og TV

Birt þann 10. apríl, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Nördismi í sjónvarpi

Það er aldeilis ekki skortur á sjónvarpsefni fyrir nörda í dag og þó að niðurhal á sjónvarpsefni aukist sífellt þá virðist bransinn enn vera sterkur. Sjónvarpsstöðvar víðs vegar um heiminn bjóða upp á breitt úrval þátta svo að allir ættu að finna eitthvað fyrir sig. Þó að sumir þættir hafi í gegnum tímann haft ákveðinn nördastimpil á sér er það fyrst nú á síðustu árum sem að þættir um nörda njóta mikilla vinsælda.

Undanfarinn áratug hefur nördamenning blandast töluvert mikið við poppmenningu og það sem þótti nördalegt áður hefur öðlast sess í meginstraumstísku nútímans, t.d. gleraugu með þykkri umgjörð (sem nú eru kennd við hipstera). Alls konar fólk á öllum aldri spilar tölvuleiki, dýrkar Star Wars og hittir jafnvel vini sína til að spila hlutverkaspil. Að vera kallaður nörd er ekki lengur neikvætt skammaryrði og getur jafnvel talist sem hrós. Ég er að minnsta kosti nörd og flestir vinir mínir líka. Ég fæ jafnvel minnimáttarkennd fyrir að vera ekki nógu mikið nörd þegar kemur að sumum greinum svo að ég tel orðið vera virðingarvert.

Að vera kallaður nörd er ekki lengur neikvætt skammaryrði og getur jafnvel talist sem hrós.

Þessi þróun hefur haft í för með sér aukna birtingu á nördum í sjónvarpi og þá ekki bara sem frávik eða andstæða við vinsælu krakkana í menntaskóladramaþáttum, heldur í eigin umhverfi og á eigin forsendum. Auðvitað er birting á slíku fólki eins mismunandi og fólk er almennt, sem er mjög jákvætt, en margar staðalímyndir leynast einnig í þáttunum og minnka þar af leiðandi trúverðugleika og stundum skemmtanagildi þeirra í leiðinni. Ég get kannski ekki nefnt alla sjónvarpsþætti sem fjalla um líf nörda og vísa í nördamenningu en hér eru nokkrir sem hafa vakið athygli mína.

Freaks and Geeks

Þetta byrjaði kannski með hinum frábæru Freaks and Geeks gaman-dramaþáttum sem fengu aðeins eina þáttaröð um aldamótin síðustu. Þar komu margar af stærstu stjörnum nútímans fyrst fram, t.d. James Franco, Seth Rogen, Martin Starr og Jason Segel. Handritshöfundurinn og leikstjórinn Paul Feig, sem leikstýrt hefur þáttum á borð við bandarísku gerðinni af The Office og Arrested Development er maðurinn á bak við þættina, en Judd Apatow kom einnig að framleiðslu þeirra. Þættirnir fjalla um systkinin Sam og Lindsey og vinahópa þeirra á níunda áratugnum. Vinir Lindsey eru rokkarar sem slæpast í skólanum á meðan vinir Sam eru ungir nördar og nokkuð lúðalegir í þokkabót. Margt nördalegt kemur fyrir í þáttunum, t.d. er farið á myndasöguráðstefnu, einn þeirra fær Atari leikjatölvu að gjöf, Dungeons & Dragons er spilað (og ekki aðeins af nördunum), skotið er upp litlum geimflaugum og nördarnir klæða sig upp á hrekkjavöku sem persónur úr þáttum sem fæstir þekkja. Þrátt fyrir stuttan tíma á skjánum hafa þættirnir safnað að sér stórum aðdáendahópi í gegnum árin, en eins og flestir nördar hafa kynnst segir líftími þátta í sjónvarpi alls ekki til um gæði þeirra. Handritið er virkilega vandað og flestir sem hafa upplifað sig utangarðs á unglingsárum ættu að geta tengt sig við þættina. Þeir eru líka mjög fyndnir og Bill Haverchuck, nördinn sem Martin Starr leikur, er svo innilega lúðalegur að það er ekki annað hægt en að elska persónuna. Ef mig minnir rétt þá voru þættirnir sýndir hérlendis á PoppTíví.

Spaced

Á sama tíma í Bretlandi varð tvíeykið Simon Pegg og Nick Frost fyrst áberandi í gamanþáttunum Spaced sem fjalla um Tim og Daisy, vini um þrítugt sem búa saman. Tim, sem er leikinn af Pegg, vinnur í myndasögubúð og reynir að koma sér á framfæri sem myndasöguteiknari. Nokkuð er um vísanir í kvikmyndir, tölvuleiki og myndasögur, t.d. eyðir persóna Pegg hálfum þætti í að spila Resident Evil og auðvitað koma fyrir samtöl þar sem rýnt er í Star Wars. Hins vegar er nördisminn aðallega háður einni persónu svo að hér er í raun um að ræða minni háttar dæmi nördamenningu í sjónvarpi. Þátturinn fékk aðeins tvær stuttar þáttaraðir en er samt bráðfyndinn og mjög í stíl við húmorinn sem birtist í Shaun of the Dead (2004). Ég veit ekki til þess að þátturinn hafi verið sýndur í sjónvarpi hérlendis.

The IT Crowd

Annar breskur gamanþáttur fór ennþá lengra með að skyggnast inn í líf nörda og hér eru tölvunördarnir teknir sérstaklega fyrir. The IT Crowd segir frá tveimur fullorðnum mönnum, Moss og Roy, sem vinna í upplýsingatæknideild stórs fyrirtækis, nánar til tekið við uppihald á tölvum starfsmanna… eða eiginlega bara að segja þeim að endurræsa tölvurnar daginn inn og út. Þeim er haldið í dimmum kjallara risastórs skýjakljúfurs og eru sjaldan heimsóttir af öðru starfsfólki. Þeir vinna með Jen, nokkuð venjulegri manneskju sem veit ekkert um tölvur og gerir lítið annað en að reyna að vera eins og aðrir. Í gegnum samskipti þeirra getum við bæði hlegið með og að nördunum og þó að þeir falli svolítið undir staðalímyndir nörda og lúða þá vinna persónur þeirra sig inn í hjörtu áhorfenda. Moss er virkilega gáfaður en algjörlega ófær í mannlegum samskiptum og mikill lúði. Roy er venjulegri en mjög bitur út í samfélagið og þá sérstaklega fólkið á vinnustaðnum. Þátturinn fékk 4 stuttar þáttaraðir og var sýndur á Skjá Einum.

The Big Bang Theory

Sá þáttur sem hefur haft mestu áhrif á sýn nútímafólk á nörda er án efa The Big Bang Theory, en hann hefur notið gríðarlegra vinsælda meðal almennings. Nú er í gangi sjötta þáttaröðin og hún verður ekki sú seinasta. Þátturinn fjallar um lítinn vinahóp nörda um þrítugt, en strákarnir fjórir vinna saman við mismunandi vísindarannsóknir fyrir sama háskóla. Leonard er eins konar leiðtogi hópsins þó að herbergisfélagi hans, hinn sérvitri Sheldon haldi öðru fram. Mömmustrákurinn Howard og hinn stelpufælni Raj eiga í eins konar „bromance“ sambandi. Allir nema Raj eiga kærustu og þær hafa undanfarnar þáttaraðir öðlast aukinn sess í þáttunum. Tvær þeirra, Bernadette og Amy, eru einnig vísindamenn, en Penny er misheppnuð leikkona sem vinnur á veitingastað. Hún er frávikið í vinahópnum og sú eina sem telst ekki vera nörd. Mikið er vísað í ofurhetjusögur, Star Trek og ýmislegt nördasjónvarpsefni ásamt einhverju vísindatengdu til að tengja við störf persónanna. Þó að þátturinn teljist sannarlega nördalegur þá er söguþráðurinn frekar hefbundinn og grínið frekar grunnt. Það virðist eins og horft sé á nördana með augum almennings eða út frá sjónarhorni kvennanna. Grínið er því aðallega á kostnað þeirra á meðan dósahláturinn er mataður í áhorfendur. En það er víst hefðin í vinsælasta sjónvarpsefni Bandaríkjanna og þátturinn ágætur fyrir heilalaust gláp. Reyndar hentar hann sérstaklega vel með kvöldmatinum þar sem 99% þáttanna byrja á máltíð. Stöð 2 sýnir þáttinn hérlendis.

Community

Community er annað skemmtilegt dæmi um nördisma í sjónvarpsefni, en þátturinn fjallar um lærdómshóp í framhaldsskóla sem gerir allt saman, nema kannski að læra. Tveir strákar í hópnum, Troy og Abed, eru töluvert nánari en restin og hafa mikinn áhuga á sjónvarpsefni og þá sérstaklega á þætti sem fjallar um mann sem stundar tímaflakk og hlýtur að vera byggður á Doctor Who. Abed er af indverskum uppruna og hefur mikinn áhuga á kvikmyndagerð. Hann tekur oft upp heimildarþætti og tengir í rauninni líf sitt stöðugt við sjónvarp. Hann er að vissu leyti félagslega heftur og minnir þannig svolítið á blöndu af Sheldon og Raj úr The Big Bang Theory. Hann hefur gaman að hlutverkaspili og tekur hlutverk sín stundum of alvarlega til þess að geta snúið aftur til raunveruleikans. Í einum þætti er hann t.d. fastur í leir-teiknimynd og verða vinir hans að fara inn í hana til að bjarga honum. Á einhverjum tímapunkti er hann sannfærður um að hann sé Batman og í öðrum þætti birtist hann sem „Hinn illi Abed“. Þættirnir hafa oft skemmtileg þemu sem vísa í nördamenningu og til dæmis er heill þáttur útlítandi eins og gamall tölvuleikur. Annar kostur við þáttinn er að lærdómshópurinn er samansettur af mismunandi fólki á öllum aldri og er t.d. Chevy Chase í hlutverki elsta meðlimarins sem er fordómafullur og virðist aldrei fatta neitt. Þátturinn er sýndur hérlendis á Stöð 2.

King of the Nerds

Nýjasta dæmið um nördamenningu í nútímasjónvarpi er raunveruleikaþátturinn King of the Nerds. Þar koma saman ellefu keppendur, fimm konur og sex karlar, allir með sína hæfileika og sérþekkingu. Þeir búa saman í stórhýsinu Nerdvana og leysa ýmsar nördalegar þrautir til að komast áfram í keppni um 100 þúsund dollara ásamt því að hljóta titilinn „Konungur nördanna“. En sigurvegarinn fær líka að sitja í hásæti nördanna, The Throne of Games, sem kitlar svolítið hláturtaugarnar. Þættirnir hafa auðvitað nördalega stjórnendur, en það eru þeir Robert Carradine og Curtis Armstrong sem léku í The Revenge of the Nerds (1984). Einnig koma fram margir frægir nördar sem gestadómarar, t.d. Kevin Smith, Jason Mewes og George Takei. Fyrstu þáttaröðinni lauk nýlega og hefur önnur verið staðfest. Þó að mér líki sjaldan raunveruleikaþættir þá kom þessi mér á óvart. Lýsingin hljómar alls ekki vel og minnir pínu á Beauty and the Geek, sem að voru skelfilegir. Hér er hins vegar á ferðinni fín skemmtun með alvöru fólki sem maður gæti þess vegna þekkt, a.m.k. fannst mér ég kannast við ýmsar týpur úr hópi keppenda. Smá drama kemur auðvitað fyrir en það virðist ekki vera jafn mikil áhersla á það og í hefðbundum raunveruleikaþáttum. Í staðinn fáum við að njóta þess að fylgjast með bráðgáfuðu fólki leysa þrautir sem að flestir nördar ættu að kannast við. Þær eru úr öllum hornum nördismans og til dæmis má nefna stjórnun á fjarstýrðum farartækjum, lausn á eðlisfræðiverkefnum, minnisleikir og þekkingu á myndasögum, tölvuleikjum og kvikmyndum. Slíkt er bæði skemmtilegt og örvandi, en þátturinn mætti jafnvel gera meira úr þrautunum og fá áhorfendur svolítið með í því að leysa þær, þó það sé engin nauðsyn. King of the Nerds er ekki kominn í sýningu hérlendis en fyrstu þáttaröð lauk nýlega á TBS í Bandaríkjunum.

Comic Book Men

Comic Book Men er góð skemmtun fyrir flesta nörda og þá sérstaklega áhugamenn um myndasögur, en hér er á ferðinni raunveruleikaþáttur um starfsmenn í myndasögubúð sem er í eigu Kevin Smith. Hann kemur fyrir í hverjum þætti og spjallar við starfsmennina, sem eru allir góðir vinir hans. Þeir spjalla mikið um ofurhetjur og taka oft á móti sjaldgæfum vörum sem þeir selja svo. Þátturinn er mjög fræðandi og virkar á köflum sem eins konar antíkþáttur. Starfsmennirnir eru þrír, en að auki er atvinnulaus vinur þeirra yfirleitt á staðnum til að fíflast með þeim, en hann var innblásturinn að persónu Randals í Clerks (1994). Þeir leita stundum til vinar síns til að verðmeta einstaka hluti og hann virðist vita allt um allt. Jason Mewes kemur líka a.m.k. einu sinni í heimsókn til að hrista upp í liðinu og Brian O‘Halloran sem lék búðarstarfsmanninn Dante í Clerks er fenginn til að vinna þar einn daginn. Kevin Smith er auðvitað snillingur í að blaðra um nördalega hluti og hann stjórnar svolítið umræðunum sem fara fram, án þess að gera lítið úr snilli hinna. Umræðurnar ramma svolítið inn það sem hefur gerst í búðinni innan einhvers tímaramma og formið virkar vel til að laða fram það fyndnasta og áhugaverðasta í myndasöguheiminum. Þátturinn er ekki kominn í sýningu hérlendis en nú er önnur þáttaröð sýnd á bandarísku stöðinni AMC.

Þó ég mæli þannig séð með öllum þeim þáttum sem ég nefndi, þá er klárt mál að þeir fari misvel í aðra. The Big Bang Theory er t.d. þáttur sem er yfirleitt fínn en ekkert frábær og er eiginlega stimplaður inn á almenning frekar en endilega nörda.

Þó ég mæli þannig séð með öllum þeim þáttum sem ég nefndi, þá er klárt mál að þeir fari misvel í aðra. The Big Bang Theory er t.d. þáttur sem er yfirleitt fínn en ekkert frábær og er eiginlega stimplaður inn á almenning frekar en endilega nörda. Það sama má segja um Spaced og Community, en hins vegar tókst þeim síðastnefnda furðuvel að vísa í nördamenningu í fyrstu þáttaröðunum. Nú eru þættirnir reyndar farnir að þynnast og ég er alls ekki eins spenntur fyrir þeim og áður. The IT Crowd eru með þeim fyndnustu þáttum sem ég hef horft á. Þar sést breskur húmor eins og hann gerist bestur og þó að nördavísanir séu aðallega tölvutengdar er það nóg til að slökkva þorstann á milli hláturskasta. Freaks and Geeks eru einnig algjör snilld og þættir sem hægt er að horfa á aftur og aftur. Þó að þeir séu gaman-drama um unglinga þá eru þeir vel skrifaðir og henta sérstaklega vel fyrir þá nörda sem kunna að meta rokktónlist áttunda og níunda áratugarins. Ég var fljótur að renna í gegnum fyrstu þáttaröðina af King of the Nerds, ekki bara vegna þess að hún er nokkuð stutt, heldur líka því að hún er svo fjandi skemmtileg. Þó að formúlan að raunveruleikaþætti með hópi sem býr saman og neyðist til að sýna fram á sínar lævísustu hliðar sé notuð, þá virkar þátturinn því að fólkið og þrautirnar eru nógu áhugaverðar og maður tengir miklu frekar við þær frekar en í öðrum slíkum þáttum. Það sama má segja um Comic Book Men, þ.e.a.s. að raunveruleikaþátturinn virkar því að það sem er á seyði er bara það áhugavert að maður gleymir stað og stund. Hann er tilvalinn fyrir myndasögunördana og þá sem vilja fræðast meira um slíkt.

Nú þegar nánast allir spila tölvuleiki og horfa á kvikmyndir og þætti byggða á nördalegum skáldverkum er hugmyndin um nörd töluvert flóknari.

Nördar nútímans eru ekki eins auðþekkjanlegir og áður fyrr og með áhrifum internetsins hefur almenningur betra aðgengi að margs konar upplýsingum og afþreyingu svo að fleiri hafa tækifæri á að rækta nördinn í sér. Nú þegar nánast allir spila tölvuleiki og horfa á kvikmyndir og þætti byggða á nördalegum skáldverkum er hugmyndin um nörd töluvert flóknari. Hún hefur þróast yfir í lýsingu á fólki með ástríðu fyrir ákveðnum áhugamálum frekar en meinyrði gagnvart þeim sem sem eru djúpt sokknir í áhugamál sem fáir aðrir kæra sig um. Hefðbundinn nördismi verður stöðugt stærri hluti af hversdagslegu hliðum lífsins á meðan tölvunotkun eykst. Nú þykir venjulegt að fólk eyði miklum tíma í tölvunni en áður var það talið nördalegt. Því má velta fyrir sér framtíðarmerkingu orðsins, en í nördalegri heimi er kannski minna um eiginlegan nördisma þar sem að hann er orðinn algengari. Kannski verðum við öll nördar í framtíðinni eða þá að skilgreiningin verði þrengri. Hverju sem því líður er klárlega málið að sökkva sér í smá nördagláp og kíkja á þá sjónvarpsþætti sem ég nefndi. Ég er a.m.k. farinn að horfa á Comic Book Men.

Góðar stundir, nördar nær og fjær.

 

Höfundur er  Andri Þór Jóhannsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑