Bíó og TV

Birt þann 31. október, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

5 bestu uppvakningamyndir allra tíma

Uppvakningamyndir eru einn af áhugaverðustu undirflokkum hryllingsmynda. Á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar, þegar kvikmyndagerðamenn voru að stíga sín fyrstu skref í gerð uppvakningamynda, var mikið af efni sótt í vúdú galdra sem voru (og eru) meðal annars stunduð á Haítí og víðar. Í fyrstu uppvakningamyndunum voru uppvakningarnir mjög fáir, jafnvel bara einn í hverri mynd, og lutu þeir skipunum vúdú galdramanna sem notuðu mátt sinn gjarnan til að framkvæma einhverskonar illverk.

Á sjöunda og áttunda áratugnum þróuðust hugmyndir um uppvakninga í kvikmyndum í sjálfstæða átt og nær því sem við þekkjum í dag. Þeir ráfuðu um jörðina líkt og heilalausar skepnur sem hvorki hlustuðu né hlýddu nokkrum manni. Það eina sem dró þessa lifandi dauðu til sín voru þeir lifandi og sóttust uppvakningar aðeins í það að breyta þeim lifandi í uppvakninga eða hreinlega éta þá og drepa. Það varð sífellt þekktara að eina leiðin til að drepa uppvakning væri að drepa heilann, m.ö.o. með því að skjóta þá í hausinn eða veita þeim þungt höfuðhögg.

Í gegnum tíðina hafa ansi margar uppvakningamyndir verið framleiddar af minni og óháðum kvikmyndafyrirtækjum. Hollywood þefaði þó uppi vinsældir uppvakningamynda og hafa framleitt töluvert af þeim síðastliðin ár og áratugi. Með auknum kröfum um meiri hraða og brjálæðari hasaratriða fóru uppvakningar að taka upp á því að verða mun árásargjarnari, sterkari og snarpari en áður. Frá og með aldarmótum hafa vinsældir hlaupandi uppvakninga aukist til muna og hafa jafnvel að vissu leyti tekið við af hinum hægfara uppvakningum.

Sem mikill unnandi uppvakningamynda hef ég sett saman lista með þeim fimm uppvakningamyndum sem hafa staðið hvað hæst upp úr að mínu mati. Sumar af þessum myndum hafa kvikmyndasögulegt vægi og hafa mótað uppvakningamyndir á vissan hátt, en listinn gengur þó fyrst og fremst út frá skemmtanagildi myndanna

 

5. FIDO (2006)

Ég var næstum því búinn að setja þriðju Dead-mynd George A. Romeros, Day of the Dead, í fimmta sætið, en á endanum varð kanadíska uppvakningamyndin Fido fyrir valinu. Myndin tæklar uppvakninga á óhefðbundinn hátt og fær prik fyrir vel útfærða og stórskemmtilega mynd.

Það er erfitt ef ekki ómögulegt að líkja Fido við aðrar hefðbundnar uppvakningarmyndir. Í þessari gamansömu útfærslu sem gerist í söguheimi sjötta áratugarins eru uppvakningar notaðir sem þjónar, aðstoðarmenn og jafnvel þrælar í samfélaginu. Þetta minnir að vissu leiti á sænsku sjónvarpsþættina Äkta människor, þar sem vélmenni gegna svipuðu hlutverki og uppvakningarnir gera í Fido. Í Fido ráfuðu uppvakningar upphaflega um jörðina líkt og þeir gera í hefðbundnum uppvakningamyndum, en með tímanum náði fyrirtækið ZomCom að þróa sérstakar hálsólar sem voru settar á uppvakninga til að róa þá niður svo hægt væri að þjálfa þá.

En, hvað ef hálsólin bilar?

Það er stórkostlegt að fylgjast með samskiptum uppvakninga og manna í myndinni. Það er ekki aðeins saga og umhverfi myndarinnar sem er áhugavert, heldur sjálf útfærslan. Það má í raun segja að líflegu tónlistarþema fjölskylduþátta frá sjötta áratugnum ásamt regnabogamálningu úr Disney-heiminum hafi verið hellt yfir dökkgráa og þunga uppvakningamynd. Útkoman er stórskemmtileg og öðruvísi.

 

4. ZOMBIELAND (2009)

Ég er með vissa fordóma gagnvart hraðskreiðum uppvakningum. Þessi lifandi lík sem haga sér eins og úlfar á sterum með hundaæði hafa aldrei náð að heilla mig eins mikið og hægfara heilalausu uppvakningarnir. Hraðskreiðir uppvakningar bjóða þó vissulega upp á nýja kvikmyndaupplifun og meiri hasar en þeir hægu.

Í Zombieland fylgjumst við með gungunni Columbus (Jesse Eisenberg) sem neyðist til að verjast uppvakningum til að lifa af í heimi þar sem uppvakningar eru handan við hvert horn. Hann hittir fljótlega andstæðu sína, Tallahassee (Woody Harrelson), sem er harðkjarna uppvakningadrápari sem sýnir enga miskun. Á ferðalagi sínu hitta þeir svo Wichita (Emma Stone) og Little Rock (Abigail Breslin). Saman ferðast þau svo um Bandaríkin og slátra uppvakningum.

Líkt og Fido, þá er Zombieland uppvakningamynd á léttari nótunum. Leikararnir Jesse Eisenberg og Woody Harrelson ásamt leikkonunni Emmu Stone fara á kostum í myndinni, sem er stútfull af hraðskreiðum uppvakningum sem bíða á bakvið myndavélarnar til að gera þér bylt við. Myndin er létt, fyndin og á köflum ansi brútal – eins og sannri uppvakningamynd sæmir!

Í gegnum myndina lærir áhorfandinn ýmsar skemmtilegar reglur sem eru notaðar gegn uppvakningum, eins og;

 

3. SHAUN OF THE DEAD (2004)

Simon Pegg og Nick Frost fara með aðalhlutverkin í þessari mynd – þarf að segja meira? Varla.

Í þessari gamansömu uppvakningamynd frá árinu 2004 fylgjumst við með Shaun (Simon Pegg) og félaga hans Ed (Nick Frost) sem eru ansi langt frá því að vera ofurhetjur eða harðjaxlar, heldur eru þeir í raun ansi venjulegir, og á köflum hálfmisheppnaðir, gaurar. Skyndilega rísa hinir dauðu úr gröfum sínum og uppvakningafaraldur hefst og gera félagarnir tveir hvað þeir geta til að bjarga sjálfum sér og sínum frá árásum þeirra með frumlegum leiðum.

Eitt af því sem gerir myndina svo skemmtilega er að fá að fylgjast með því hvernig hefðbundinn Breti (ef hefðbundinn má kalla) myndi takast á við uppvakningafaraldur. Á meðan Fido og Zombieland ná að framkalla nokkur hlátrasköll fær Shaun of the Dead mann til að veltast um af hlátri – og blóði, en líkt og flest allar uppvakningamyndir er þessi mynd stútfull af brútal ofbeldisatriðum.

Breska dúóið Simon Pegg og Nick Frost hafa meðal annars leikið saman í Paul, Hot Fuzz og The World’s End sem er væntanleg árið 2013. Þeir sem þekkja til dúósins vita við hverju á að búast, en Shaun of the Dead er ein af þeirra betri myndum.

 

2. NIGHT OF THE LIVING DEAD (1968)

Yfir í alvöruna. Night of the Living Dead er fyrsta myndin í svokallaðri Dead-seríu sem leikstjórinn George A. Romero hefur gert frægar. Myndin hefur lengi verið talin ein af merkustu uppvakningamyndum allra tíma fyrir ýmsar sakir.

Til að byrja með má finna upphaf klassísku uppvakninganna sem við flest öll þekkjum í dag; lifandi dauðir sem ráfa um jörðina og ráðast á lifandi fólk. Það eina sem getur drepið þessa uppvakninga er skot, eða þungt högg, á höfuðið. Romero gagnrýnir einnig yfirvaldið í myndinni, en Dead-myndir Romeros hafa einmitt verið mikið túlkaðar og greindar og er Romero ansi gjarn á að setja út á ríki, stofnanir, yfirvöld og kapítalisma í sínum myndum. Í framhaldinu má benda á þessa grein á Nörd Norðursins þar sem myndin er greind á ítarlegri hátt en hér er gert.

Myndin á ekki aðeins heiðurssæti meðal uppvakningamynda (og hrollvekja yfir höfuð) fyrir að færa okkur klassísku uppvakningana eða fyrir gagnrýni í samfélagið, heldur bíður myndin einnig upp á góða skemmtun. Night of the Living Dead var búin til fyrir lítinn pening og því ýmislegt sem betur hefði mátt fara, en í raun gefur þetta ódýra hráa útlit myndarinnar henni einkennandi sjarma. Myndin, sem er svart-hvít, verðlaunar þolinmóðum og skilningaríkum áhorfendum sem ein af betri uppvakningamyndum allra tíma.

Hægt er að horfa á Night of the Living Dead í fullri lengd (löglega segir hr. Yuri) hér á YouTube. Þeir sem geta ekki lifað af fimm mínútur án Hollywood sprenginga eða hasaratriða ættu þó að halda sig frá þessari mynd, þar sem hún mun að líkindum reyna of á þolinmæði þeirra.

 

1. Dawn of the Dead (1978/2004)

Einfaldlega besta uppvakningamynd allra tíma! Dawn of the Dead er önnur Dead-mynd George A. Romeros, en í henni fylgjumst við með hópi eftirlifenda sem flýr í verslunarmiðstöð og byrgir sig þar upp með vopnum, mat og öðru sem gagnast þeim á einhvern hátt gegn uppvakningaárásum og til að lifa af.

Það má segja að myndin bjóði upp á kapítalískt blæti fyrir millistéttina þar sem fylgst er með hópnum yfirtaka verslunarmiðstöðina þar sem þau hafa beinan aðgang að öllum þeim vörum sem verslanirnar hafa upp á að bjóða. Þetta kapítalíska blæti er svo vel marinerað í innyflum, blóði og rottnandi líkum þar sem hópurinn drepur hina lifandi dauðu miskunarlaust – og öfugt.

Þó myndin sé mun alvarlegri en myndir eins og Fido, Zombieland og Shaun of the Dead að þá má finna töluvert af „splatstick“ húmor í henni (samblanda af „slapstick“ húmor og „splatter“), þar sem það getur verið hrein skemmtun að fylgjast með heimsku og kjánaskap hinna lifandi dauðu þar sem þeir labba á hurðir og skilja ekki hvað er að gerast þegar þeir asnast til að fara í rúllustiga.

Persónur myndarinnar mynda góðan og þéttan hóp af ólíku fólki og áhugaverðum persónum. Uppvakningarnir eru einnig sérlega skrautlegir og nóg af frumlegum, fyndnum og brútal atriðum. Romero heldur hér áfram í hina klassísku hægfara uppvakninga, en það eru ekki allir sammála því að þeir bjóði upp á jafn öfluga skemmtun hraðfara uppvakningar. Þeim áhorfendum til mikillar gleði var Dawn of the Dead endurgerð árið 2004 og býður sú útgáfa upp á hraðfara uppvakninga og er auk þess mun nútímalegri og nær Hollywood en upprunalega myndin. Persónulega myndi ég þó velja upprunulegu myndina, en þær eru þó báðar stórgóðar!

Til gamans má geta að þá kemur ein frægasta setning allra tíma úr uppvakningamynd fyrir í þessari mynd: „When there’s no more room in hell, the dead will walk the Earth.“ Hægt er að lesa nánar um myndina hér á Nörd Norðursins.

 

Aðrar myndir sem hefðu mögulega geta endað á listanum: 28 Days Later (2002), Braindead (1992), Day of the Dead (1985), Evil Dead: Army of Darkness (1992), Re-Animator (1985), The Return of the Living Dead (1985), The Serpent and the Rainbow (1988), Planet Terror (2007) og Zombie (1979).

Forsíðumynd: Dawn of the Dead (1978).

 

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.

 

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑