Birt þann 8. maí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Öld atburðanna – Stóratburðir í Marvel og DC heimunum
Í sumar mun Ultron koma til baka í Marvel heiminn. Bein munu brotna og blóðið mun flæða í stríðum straumum og engin hetja verður ósnortin. Allar ofurhetjur munu ganga í gegnum erfiðleika og missi og ekkert verður samt á ný! En ég lofa ykkur því að tveimur mánuðum eftir að serían klárast verður allt komið í samt lag á ný. Velkomin á öld ATBURÐANNA!
Stórkostlegir atburðir eins og finna má í blöðum risanna stóru hófust fyrir margt löngu. Fyrsti atburðurinn er talinn hafa átt sér stað í Marvel með Secret Wars árið 1984. Allar ofurhetjur Marvel heimsins og skúrkar eru sendir í heim að nafni Battleworld af almáttugri veru og þeim sagt að berjast. Þetta gengur eftir, einhverjir særast eða deyja og flestir fara heim á ný þegar serían endar. Þetta var í fyrsta sinn sem stór hluti Marvel heimsins var samankominn í eina seríu. Marvel hetjurnar höfðu lengi vel haft eitthvað samneyti sín á milli, Spider-Man reyndi til dæmis að ganga til liðs við Fantastic Four snemma á ferlinum. En þessi tilraun vakti athygli og sölutölur voru með ólíkindum. Enda reyndu Marvel menn að endurtaka leikinn með Secret Wars 2. Það gekk jafn vel og mætti ætla, en héðan í frá varð formúlan opinber: Sögufrægar hetjur + loforð um einhverja ótrúlega breytingu = Gróði.
Súperhundurinn Krypto hverfur af sjónarsviðinu ásamt mörgum öðrum gömlum gullaldarhetjum. Crisis var feikna vel heppnaður atburður, en síðan þá hefur DC átt erfitt með að gera nokkuð án þess að kalla það „Crisis“.
DC lét reyna á þetta með Crisis on Infinite Earths. Ástæðan fyrir þeim atburði var reyndar skiljanleg. Ólíkt Marvel þurfti DC að burðast með langa samfellu sem oft virkaði kjánalega og illskiljanlega. Superman gat til dæmis upprunalega bara stokkið mjög hátt og var síðasti sonur Kryptons, en þegar upp var staðið varð til heil borg frá plánetunni ásamt frænku hans og fleiri ættingja, svo ekki sé minnst á vitleysuna með Súperhundinn og Leðurblökuhundinn, en Helgi minnist á Krypto í nýlegri grein sinni um undarlegar ofurhetjur.
DC vildi breyta ímynd sinni, á næstu árum kom til dæmis út Dark Knight Rises og Watchmen sem áttu þátt í að draga myndasögurnar inní „svartöldina“ var hún nefnd svo vegna þess að allt átti að vera myrkt og „gritty“. Ef það hljómar kunnuglega er það vegna þess að við erum kannski fyrst núna að komast út úr þessu tímabili.
Crisis on Infinite Earth „lagaði“ mikið í DC heiminum, gerði heiminn raunverulegri og skiljanlegri. Söguþráðurinn í atburðinum er flókinn en í lok hans voru margir alheimar þjappaðir saman í einn heim. Crisis, er að mörgu leyti vel heppnaður atburður, einn af fáum sem raunverulega breyttu hlutum, Superman var ekki jafn öflugur og áður, það var minna af hjálparkokkum og dýrum og allir gengu um með skeifu næstu árin af því að það var raunverulegra.
Á næstu árum jukust atburðirnir, frá 1985 til 1995 voru í kringum 20 víxlanir (crossovers). Innrásir, atburðir og heimsendaógnir hjá Marvel sem allir þurftu að berjast við. DC eru ekki jafn grófir en þó er að finna marga illa heppnaða atburði. Núna nýlega á síðasta áratuginum fóru þeir í gegnum fleiri krísur en miðaldra millistéttamaður allt frá Identity Crisis, Infinite Crisis og Final Crisis. Svo ekki sé minnst á niðurtalningu til hverrar krísu fyrir sig.
Þess utan eru margir atburðir hjá einstaka hetjum. Superman dó en hann jafnaði sig, Captain America dó en það reddaðist, Batman dó en kom aftur með hjálp tímaferðalags (einföldun, en sú saga er of flókin til að útskýra), Spider-Man gerði samning við djöfulinn, svona mætti lengi áfram telja. Allt fullt af atburðum en lítið um varanleg áhrif.
Það er þó ekki svo að þessar sögur séu allar slæmar, Þvert á móti. House of M hjá Marvel er vel heppnuð tilraun, Civil Wars og Identity Crisis pössuðu fullkomlega í tíðarandann og hin stórgóða 52 fylgdi Infinite Crisis og er stórvirki í nútíma myndasögum.
En staðreyndin er sú að nú þegar atburðirnir verða sífellt stærri og mikilfenglegri verður sífellt erfiðara að taka þá alvarlega. DC fer sérstaklega illa út úr þessu þar sem þeir eru endalaust að breyta sögunni og laga hana að nýjum tímum, oftar en ekki með vélum sem sameina alheima eða álíka tólum. En Marvel er verri því þeir virðast ekki geta tamið sér þolinmæði hvað varðar atburðina. New York ætti að vera stór gígur eftir atburði síðustu ára, ekki stórborg. X-Men vafra um frá einum atburðinum til annars, skipta sér í lið, berjast við vampírur í San Francisco og blanda sér í geimstríð milli þess sem þeir velja nýja leiðtoga og bjargvætti.
Marvel hefur að því er virðist ánetjast atburðum svo mjög að það eru fleiri stór-atburðir á síðustu þremur árum en voru á öllum tíunda áratugnum. Frá 2010 hefur Marvel gengið í gegnum stríð við Ásgarð, Dark Reign klárast, X-Men berjast gegn útrýmingu, Hulk og Red Hulk hálf rústa Washington, geimkonungur kemur og ætlar að eyða alheiminum, Allir í New York fá krafta Spider-Man, Doctor Octopus reynir að steikja allan heiminn, hetjurnar eru kvaldar af óttaguði frá Ásgarði, X-Men berjast innbyrðis, X-men berjast við Avengers og í sumar berjast allir við Ultron.
Allt stórir atburðir, allt eitthvað sem ætti að hrista upp í hlutunum en þegar það er alltaf verið að hrista upp í þeim er erfitt að sjá hvort eitthvað hafi áhrif.
Atburðir eru og verða hluti af myndasögum, því verður ekki komist hjá. En það er spurning hvort ekki sé hægt að komast hjá því að vera endalaust að reyna að búa til stærri og flottari atburði í hverjum mánuði og reyna í staðinn að láta þá skipta máli. Tökum Civil Wars hjá Marvel sem dæmi.
Civil War var virkilega vel heppnaður atburður, lesandinn átti erfitt með að velja lið, báðar hliðar höfðu mikið til síns máls að leggja og eftirmálar atburðarins voru margvíslegir og fjölþættir. Skyndilega vissu allir hver Spider-Man var og það átti eftir að valda dauða May frænku hans. Captain America var drepin, Iron Man stjórnaði Shield og Avengers brotnaði niður í nokkur lið.
Tími Iron Man sem stjórnandi Shield var skemmtilegur og ferskur innblástur í sögur hans og Avengers lið sem þurfti að flýja undan réttvísinni í langan tíma kom virkilega vel út. En Captain America var ekki dauður lengi, og Spider-Man gerði samning við djöfulinn til að fá alla til að gleyma hver hann er og May var skyndilega á lífi. Civil War gæti allt eins ekki hafa átt sér stað, ekkert breyttist.
Atburðir verða að hafa langtíma áhrif ef það á að taka þá alvarlega. Það er ekki hægt að nota galdralausnir í hvert skipti, ef Batman deyr, þá deyr hann. Það hefur verið skipt um ofurhetjur áður, hversu margir hafa verið Green Lantern til dæmis? Og Batman er ekki með ofurkrafta, aðrir sem hafa þjáðst eins og hann geta tekið við.
Atburðir eru ekki í eðli sínu slæmir, en þeir ættu að vera undantekning, ekki regla, annars er ekki hægt að taka hætturnar alvarlega. Eðli þeirra á að vera að henda hinu viðtekna skipulagi í óreiðu og jafnvel breyta því, ekki bara að skilja það eftir eins og áður. Eftir House of M hjá Marvel urðu stökkbreyttir ekki lengur næsta stig þróunar heldur tegund í útrýmingarhættu, það hefur breytt valdajafnvæginu og sögusköpuninni. Einmitt af því að það fannst ekki galdralausn á vandamálinu í næsta blaði, heimurinn breyttist og allir þurftu að fást við það.
Höfundur er Kristján Már Gunnarsson,
rithöfundur og nemi við Háskóla Íslands.