Leikjarýni

Birt þann 5. nóvember, 2021 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Guardians of the Galaxy mun betri en The Avengers

Guardians of the Galaxy mun betri en The Avengers Sveinn A. Gunnarsson

Samantekt: Leikur sem kemur skemmtilega á óvart og með hjartnæma sögu og rokkandi 80's tónlist.

4

Góð skemmtun


Eftir þau vonbrigð sem fylgdu Marvel’s Avengers leiknum sem kom út í fyrra og var þróaður af Square-Enix var ekki óeðlilegt að fólk væri pínu hikandi við að fá annan leik í hendurnar frá sama útgefanda sem byggir einnig á hetjum úr Marvel heiminum. Ég get glatt ykkur strax með því að segja að Guardians of the Galaxy er enginn Avengers. 

Marvel’s Avengers var ekki alslæmur leikur, sagan í honum var góð og vel þessi virði að spila, vandinn var að henni var pakkað saman við netleik sem gekk út á að kreista pening úr spilurum. Ekki beint blandan sem Marvel aðdáendur voru að leita eftir frá Square-Enix og Crystal Dynamix (sem hönnuðu síðustu Tomb Raider leikina).

Nú er komið að Eidos-Montreal sem hafa helst verið þekktir fyrir síðustu tvo Deus Ex leiki ásamt því að búa til Shadow of the Tomb Raider leikinn. Fyrirtækið er þekktast fyrir að búa til hasar- og hlutverkaleiki og því forvitnilegt að sjá hvernig þeim myndi ganga með nýtt efni.

Marvel’s Guardians of the Galaxy fylgir ekki Marvel MCU kvikmyndunum heldur byggir á bæði þeim heimi sem og teiknimyndasögunum sem hafa verið gefnar út í gegnum árin. Með því að vera ekki bundin við vissa kvikmynd eða heim hjálpar leiknum talsvert mikið og gefur honum aukið svigrúm. Persónur leiksins líta svolítið út eins og fólk þekkir þær úr kvikmyndunum svo það hjálpar til við að draga fólk inn í leikinn ef það þekkir þær aðeins úr kvikmyndum Marvels.

Saga leiksins er í kjarnann um fjölskylduna og ekki endilega þá sem þú fæðist inn í, heldur þá fjölskyldu sem þú myndar í gegnum lífið og því fólki sem þú tengist. Án hennar myndi leikurinn ekki virka jafn vel að mínu mati. Leikurinn gerist nokkrum árum eftir gríðastórt vetrarbrautar stríð þar sem fólk er enn að jafna sig eftir þá atburði. Guardians of the Galaxy spretta upp eftir það og eru að reyna að vinna sér inn orðspor ásamt auðvitað gróða sem þau geta unnið sér inn. Röð atburða í byrjun leiksins og lítið veðmál sendir þau um Andrómedu vetrarbrautina og okkar eigin til að bjarga öllu lífi frá “Loforðinu” sem heilaþvær fólk og breiðist hratt um allt. 

Leikurinn er þriðju persónu hasarleikur þar sem leikmenn stjórna Peter Quill, eða Star-Lord og getur þú gefið hinum persónum leiksins skipanir í bardögum. Gamora, Groot, Drax og Rocket hafa öll sína eigin hæfileika sem vinna með þínum og er það helsta leiðin að vinna bardaga leiksins. Star-Lord sjálfur er ekki svo sterkur svo leikurinn hvetur til samvinnu með hinum hetjunum. 

Heimur leiksins er fjölbreyttur og gullfallegur að sjá og kemur hann vel út á bæði PlayStation 4 og PlayStation 5. Tónlist leiksins má sérstaklega nefna og má sá sem valdi tónlist leiksins fá stórt klapp á bakið frá mér. Það skortir ekki 80’s slagarana í leiknum, sem kemur ekki á óvart þar sem Peter var síðast á jörðinni 1988 og þekkir ekkert annað.  

Lög eins og þessi óma í leiknum á vel völdum tímum. Ásamt hljómsveitinni Star-Lord sem var búin til að hönnuðum leiksins og passar vel inn í leikinn. 

Þegar upp er staðið er Marvel’s Guardians of the Galaxy mjög góður pakki með drjúgri sögu sem tekur um 20+ tíma að klára og nóg að litlum hlutum til að finna þegar er spilað leikinn aftur. Einnig er litla “telltale” hlutverkakerfið vel notað þar sem ákvarðanir þínar geta haft áhrif síðar í leiknum. 

Vel þess virði og auðvelt að mæla með. 

Eintak af leiknum var í boði Senu

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑