Bækur og blöð

Birt þann 31. mars, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

2

Ofurhetjur 101: Superman

Komiði sælir, kæru lesendur, og velkomnir í nýtt, vikulegt innslag hér á Nörd Norðursins! Í þessu horni síðunnar verður farið um víðan völl í heimi myndasagna og ofurhetja. Við hvetjum alla sem áhuga hafa á þessum oft spandex-klæddu persónum að fylgjast vel með, því við stefnum á að birta efni sem bæði aldagamlir aðdáendur sem og forvitnir áhorfendur ættu að hafa gaman af.

Það tók ekki langan tíma að ákveða um hvað fyrsta greinin ætti að vera um. Hvað er meira viðeigandi en að fyrsta greinin okkar hér fjalli um fyrstu ofurhetjuna? Það er varla til það mannsbarn sem ekki þekkir merki hans. Hann er ein allra vinsælasta sögupersóna sem sköpuð hefur verið. Hann er fréttamaðurinn Clark Kent, hann er geimveran Kal-El frá Krypton. Hann er Superman.

Sögu Superman þekkja flestir og hafa séð, hvort sem það var á sjónvarpsskjá eða blaði. Plánetan Krypton er dauðadæmd, en ungbarnið Kal-El sleppur einn frá tortýmingu hennar í skutlu sem brotlendir á jörðinni. Hin góðhjörtuðu Kent-hjón finna þennan unga dreng og ala hann upp sem sinn eigin son. En færri þekkja hinsvegar söguna bakvið sköpun persónunnar, sem hefst árið 1933.

Það kemur líklega flestum á óvart að fyrsta og helsta ofurhetja allra tíma átt upphaflega að vera skúrkur. Jerry Siegel og Joe Shuster, höfundar Superman, skrifuðu stuttsöguna „The Reign of the Super-Man“ árið 1933 og fjallaði hún um illmenni sem hugðist ná heimsyfirráðum. Á þeim tímapunkti var Super-Man sköllóttur, smábyggður vísindamaður sem gat lesið hugsanir. Enn langt í land, enda sögunni hafnað af öllum tímaritum þess tíma.

Tvíeykið lét það ekki stöðva sig, en árið 1935 höfðu þeir lagt grunninn að fyrstu ofurhetju sögunnar. Aðeins eitt fyrirtæki, hið unga DC Comics, sýndi persónunni áhuga og keypti hana af þeim Siegel og Shuster, á hvorki meira né minna en 130 dollara. Mikið rétt, höfundar Superman fengu nútíma andvirði rúmra 16.000 króna fyrir sinn snúð, sem verður að teljast ansi slappt.

Þrátt fyrir þetta fékk Ofurmennið sjálft að dúsa ofan í skúffu þar til í júní, 1938, þegar hann prýddi kápu hins goðsagnakennda Action Comics #1. Ekkert þessu líkt hafði sést áður og fangaði Superman umsvifalaust athygli allra. Áður en langt var um liðið var ekki hægt að þverfóta fyrir varningi tengdum fyrstu ofurhetjunni – myndasögum, sjónvarpsþáttum, útvarpsleikritum, og fleiru. Útgáfufyrirtækin sem höfðu hafnað þeim Shuster og Siegel nöguðu á sér handabökin og reyndu í gríð og erg að skapa svipaðar persónur. Flestar  eftirhermanna stóðu eftir í rykinu, en það var ekki fyrr en ári seinna sem annað tvíeyki á vegum DC Comics endurtók sigurgöngu Superman með eigin persónu – hinum dularfulla Batman.


Superman í Action Comics #1

Því er árið 1938 talið fæðingarár ofurhetjanna sem trylla lýðinn enn þann dag í dag, enda ekki til sú hetja sem ekki sótti innblástur til Ofurmennisins á einhvern hátt. Þó hópur þeirra sem sem bíða spennt eftir nýrri myndasögu um uppáhalds hetju sína sé því miður minni en áður, og það séu ekki lengur milljónir manna sem hlusta á nýjasta ævintýri Superman í útvarpinu, þá eru kvikmyndir byggðar á ofurhetjum með þeim allra tekjuhæstu í dag. Það má því með sanni segja að hetjurnar lifi enn góðu lífi, og að enn sé langt í lokakaflann á byltingunni sem Jerry Siegel og Joe Shuster hófu árið 1938.

  • Superman hefur þróast talsvert í gegnum árin, ekki síst kraftar hans. Í fyrstu gátu byssuskot ollið minniháttar blæðingum hjá greyinu og gat hann „einungis“ stokkið rúma 2 metra upp í loft. Í dag er Superman að mestu ósigrandi. Getur hann flogið, kveikt eld með augunum, fryst með andardrætti sínum, ferðast hvert sem er í heiminum á augabragði og eru skilningarvit hans ansi öflug. Svo eitthvað sé nefnt.
  • Einn fárra hluta sem vinna bug á Superman er efnið Kryptonite, en þessi geislavirku brot úr heimaplánetu Kal-El voru sköpuð af höfundum útvarpsþáttanna. Í hvert sinn sem leikarinn sem ljáði Ofurmenninu rödd sína fór í frí komst Superman í snertingu við Kryptonite, og samanstóðu þeir þættir að mestu af sársaukastunum annarra leikara.
  • Superman er tíður gestur á listum yfir bestu ofurhetjur allra tíma – leikurinn Superman á Nintendo 64 er hinsvegar gjarnan talinn með verstu tölvuleikjum sögunnar.
  • Þeir Jerry Siegel og Joe Shuster reyndu ítrekað að fá betri kjör fyrir verk sitt eftir að vinsældir persónunnar komu í ljós. Afkomendur þeirra standa enn í málaferlum við DC Comics.
  • Þrátt fyrir styrk sinn var Superman lagður að velli í sögunni The Death of Superman sem gefin var út árið 1992. Skrímslið Doomsday veitti honum banahöggið, en sagan gerði allt snælduvitlaust á sínum tíma. Ekki leið á löngu þar til Superman reis upp frá dauðum, líkt og ofurhetjum (og heilögum frelsurum) er einum lagið.
  • Action Comics #1 frá árinu 1938 er verðmætasta myndasaga heims, en eintak í fullkomnu ástandi myndi kosta þig rúmlega 500.000 Bandaríkjadali.


Superman og Doomsday

Ef þið viljið sjá einhverja sérstaka ofurhetju tekna fyrir, hikið ekki við að senda okkur póst á nordnordursins(at)gmail.com. Komið svo aftur að viku liðinni, en við munum kíkja á nokkra misheppnuðustu búninga sem ofurhetjunum hefur verið troðið í.

 

Heimildir:
Supergods eftir Grant Morrison
Secret Origin: The Story of DC Comics – DVD documentary
Action Comics #1 – eftir Jerry Siegel og Joe Shuster

– Bjarki D. Svanþórsson

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn2 Responses to Ofurhetjur 101: Superman

  1. Pingback: Fötin skapa hetjuna | Nörd Norðursins

Skildu eftir svar

Efst upp ↑