Greinar

Birt þann 23. ágúst, 2022 | Höfundur: Sveinn A. Gunnarsson

Spider-Man sveiflar sér yfir á PC

Nú fyrir stuttu kom út á PC á Steam og Epic Store leikurinn Spider-Man: Remastered sem hingað til hefur verið bara fáanlegur á PlayStation leikjavélum Sony. Leikurinn kom út upprunalega fyrir PlayStation 4 árið 2018 og var einn af bestu leikjum þessa árs og tókum við hann fyrir hérna á Nörd Norðursins. 

Í nóvember í fyrra kom út Spider-Man: Remastered fyrir PlayStation 5 og er þessi PC útgáfa leiksins byggð á þeirri útgáfu. Sony hefur síðustu árin verið að opna leiki sína meira fyrir PC markaðnum og hafa leikir eins og God of War (2018), Days Gone, Journey, Heavy Rain, Beyond Two Souls, Death Stranding og Horizon Zero Dawn skilað sér á PC vélar og gefið ótal fleirum, sem eiga ekki leikjavél Sony, tækifæri á að spila þessa leiki.

Í umfjöllun okkar um Spider-Man leikinn þá gáfum við honum 4.5 af 5 mögulegum og kölluðum hann einn af betri leikjum 2018 og tókst Peter Parker á við óvini eins og Electro, Shocker, Kingpin, Vulture, Rhino ásamt öðrum og var leikurinn klárlega unnin af fólki sem hafði gaman af persónum og heimi Spider-Man.

Að sveifla sér um New York borg er gríðarlega mikilvægur hlutur leiksins og eitthvað sem hinum mörgu Spider-Man leikjum í gegnum tíðina hefur gengið misvel að negla niður. Útgáfa Insomniac Games nær þessu nær fullkomlega.

PC útgáfa leiksins bíður upp á margar nýjungar fyrir þá sem hafa aðgang af nógu öflugum vélbúnaði til að gera leikinn en flottari en hann var á PlayStation 5. Stuðningur við tölvuskjái með 16:9, 16:10, 21:9, 32:9, og 48:9 upplausnir með 3 skjáum til að sjá New York borg leiksins á nýja vegu.

Hægt að spila leikinn með mús og lyklaborð, Xbox pinna eða tengja við PC vélina PlayStation DualSense fjarstýringu með USB snúru til að nýta alla möguleika hennar.

Hérna er myndband úr pc útgáfunni þar sem við förum yfir leikinn, nýjungarnar ofl.

Eitt af því sem gerir PC markaðinn svo skemmtilegan er það frelsi sem er í boði með að breyta og „modda“ leikjunum og er nú þegar hægt að hlaða niður breytingum á leiknum sem leyfir þér að spila sem t.d Kingpin eða sveifla þér um sem Stan Lee og verður forvitnilegt að sjá hvað fólk mun koma með á næstu vikum og mánuðum fyrir leikinn.

Með kaupunum á hollenska fyrirtækinu Nixxes Software fyrr á árinu ætla Sony loksins að opna meira fyrir að PlayStation leikir komi út á PC í framtíðinni. Nixxes hafa áralangt verið þekktir fyrir að porta leikjatölvu leiki yfir á pc með góðum árangri og hafa gert það einstaklega vel fyrir marga af leikjum Square Enix síðasta áratuginn. Vonandi þýðir þetta að við fáum PC útgáfur af God of War: Ragnarök, Returnal, Ghost of Tsushima, The Last of Us Part II ásamt eldri titlum eins og Bloodborne, endurgerð Bluepoint Studios fyrir Demon’s Souls á meðal annarra.

Næstu titlar sem koma á PC verða Spider-Man: Miles Morales og Uncharted: Legacy of Thieves Collection sem ættu að koma út síðar á þessu ári.

Það er auðvelt að mæla með Spider-Man Remastered, hvort sem það er upprunalega útgáfa leiksins á PS4 eða remastered útgáfan á PS5 eða PC. Ekki missa af þessum skemmtilega leik.

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Efst upp ↑