Bækur og blöð

Birt þann 11. maí, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

1

Superman VS Hulk – Hvor myndi sigra?

Það er fátt sem kætir aðdáendur ofurhetja jafn mikið og að sjá uppáhalds hetjurnar sínar berjast hvor við aðra. Þegar ofurhetja berst við skúrk er vitað mál að hetjan mun fara með sigur af hólmi. En þegar tvær hetjur, sem venjulega berjast hlið við hlið, lenda í slag getur hvað sem er gerst.

Lesendur, eða áhorfendur, velja sér sitt uppáhald, og bardagarnir verða oft persónulegri og skemmtilegri fyrir vikið. Í flestum tilfellum er hægt að rökræða þessa bardaga endalaust , en það er akkúrat tilgangur þessa nýja innslags í ofurhetjuhorni Nörds Norðursins. Með reglulegu millibili skellum við saman tveimur hetjum og komumst að því hvor þeirra myndi bera sigur úr býtum, ef svo óheppilega vildi til að upp kæmi ósætti.

Þá er okkur ekkert að vanbúnaði og um að gera að hefja fyrsta bardagann. Í einu horninu höfum við allra fyrstu ofurhetjuna. Munaðarleysingjann frá Krypton og verndara mannkynsins. Superman sjálfan. Í hinu horninu er sá allra sterkasti sem Marvel-heimurinn hefur séð. Reiðin uppmáluð, jötuninn græni. Hulk.

 

Superman

Það væri hægt að skrifa bók með öllum þeim ofurkröftum sem Superman hefur búið yfir frá því hann birtist fyrst árið 1938. Þar sem að eldri kraftar á borð við hæfileikann að semja ofurgóð lög, og ofurkoss sem veldur minnistapi (hvorugt brandari), myndu ekki skipta sköpum í þessum slag skulum við halda okkur við þá klassísku.

Til þess að vernda heiminn frá þeim illu vættum sem á hann herja notast Ofurmennið fyrst og fremst við gífurlegan styrk. Hann hefur lyft 100 tonnum án sýnilegra erfiðleika, en eins og stendur eru engin efri mörk á líkamlegu afli Kal-El.

Til þess að vernda heiminn frá þeim illu vættum sem á hann herja notast Ofurmennið fyrst og fremst við gífurlegan styrk. Hann hefur lyft 100 tonnum án sýnilegra erfiðleika, en eins og stendur eru engin efri mörk á líkamlegu afli Kal-El. Í sögunni World War III, eftir Grant Morrison, tókst Ofurmenninu að snúa tannhjólum vélar sem var stærri en jörðin sjálf, en þó með mikill áreynslu. Þess má geta að í bardaga mun Superman ávallt halda aftur af sér, enda er öryggi annarra alltaf í fyrirrúmi.

Næsti kraftur í vopnabúri Superman er ofurhraði, en nýlega hefur hann ferðast til sólarinnar á tæpum 6 mínútum, þar með er hann orðinn hraðari en ljósið. Viðbragðstími hetjunnar er í samræmi við þetta, en hann reynir þó að taka þau högg sem hann þolir svo að aðrir lendi ekki í hremmingum. Superman notar óspart svokallað „heat vision“, en hann getur skotið gríðarlega heitum geislum úr augum sínum, en þessir geislar geta hæglega brætt stál. Sömuleiðis getur hann fryst hluti með andardrætti sínum, séð í gegnum hvað sem er (fyrir utan blý) auk þess að búa yfir röngten-sjón, að því ógleymdu að kappinn getur flogið. Hvorki meira né minna.

Hann er samt sem áður ekki gallalaus, en hans helsti galli er veikleiki fyrir Kryptoníti. Þessir grænu, geislavirku steinar eru bitar úr heimaplánetu hans, en í návígi við grjótið missir Ofurmennið allan styrk. Hann getur ekki hreyft sig, og ef steinninn er ekki fjarlægður innan skamms getur geislavirknin hæglega dregið hann til dauða. Superman er sömuleiðis einstaklega veikur gegn göldrum, en styrkur hans og úthald hefur ekkert að segja gegn seiðkörlum og nornum.

 

Hulk

Vísindamaðurinn hægláti, Bruce Banner, á við þann leiðinlega vanda að stríða að ef hann verður reiður umturnast hann í hinn græna, hundfúla Hulk. Auk þess að stækka, tjah, lítillega við breytinguna, missir Banner gjörsamlega stjórn á sér og brýtur allt og bramlar. Styrkurinn sem þessi berserkur býr yfir er algjörlega ólýsanlegur, en hann eykst eftir því sem Hulk verður reiðari.

Vísindamaðurinn hægláti, Bruce Banner, á við þann leiðinlega vanda að stríða að ef hann verður reiður umturnast hann í hinn græna, hundfúla Hulk.

Ég ætla að kafa aðeins dýpra í málið, svo að allir séu á sömu blaðsíðu þegar ég segi „sterkur“. Eins og kom fram verður Hulk sterkari eftir því hversu reiður hann verður. Það sama á við um tilfinningar á borð við ótta, stress eða spennu. Sársauki hefur sömu áhrif, en það sem meiðir Hulk er á sama tíma að efla hann. Þegar Jötuninn slakar á minnkar styrkur hans, en til að halda þessu öllu í samhengi er réttast að taka fram að „slakur“ Hulk getur lyft rúmum 100 tonnum. Þegar hlutirnir fara að angra græna risann sjáum við hversu megnugur hann er.Hér eru nokkur af helstu afrekum græna félaga okkar:

  • Hulk hefur jafnað fjallagarð við jörðu.
  • Hann hélt saman jarðskorpunni á meðan jarðskjálfti stóð yfir.
  • Til að bjarga Avengers-félögum sínum bar hann fjall á baki sér.
  • Loftsteinn stefndi á jörðina, en Hulk tók sig til og kýldi hann í sundur.

Líkt og með Ofurmennið er styrk Hulks engin takmörk sett.

Jötuninn lætur ekkert á sig fá. Hann býr yfir svokölluðu „healing factor“, líkt og Wolverine, sem græðir öll þau sár sem hann kann að fá. Þessi óstöðvandi healing factor, sem og endalaust úthald Hulks, gerir það að verkum að hann þarf hvorki að anda, borða né sofa. Í þónokkrum sögum, þar á meðal Hulk: The End, sjáum við að úthald Hulks er svo mikið að hann stendur einn eftir, þúsundir ára í framtíðinni þegar allt líf á plánetunni er löngu liðið.

…úthald Hulks er svo mikið að hann stendur einn eftir, þúsundir ára í framtíðinni þegar allt líf á plánetunni er löngu liðið.

Hraði Hulks er sömuleiðis gífurlegur, en hann getur hlaupið tæpa 150 metra á sekúndu. Fæturnir bera hann aldeilis, en sömuleiðis getur kappinn ferðast hálfa leiðina yfir Bandaríkin í einu stökki.

Og þá byrjar ballið!


Þegar þessir tveir risar mætast mun friðarsinninn Superman gera sömu mistök og allir aðrir gera þegar þeir hitta Hulk í fyrsta sinn. Hann mun reyna að tala Hulk til og róa hann niður. En það sem fólk fattar ekki er að þegar Bruce Banner breytist í Hulk er það þegar orðið of seint. Þannig nær Hulk fyrsta högginu – högg sem sendir Ofurmennið fljúgandi aftur á bak.

Superman er fljótur á fætur og dembir sér strax í slaginn. Í fyrstu hefur Hulk engin ráð við hraða Ofurmannsins. Superman lætur höggin dynja á græna risanum og víkur sér undan árásum hans. Reiðin heltekur Hulk og styrkurinn stigmagnast fljótt, en jötuninn reynir að ná taki á Superman. Það er um þetta leyti sem Ofurmennið sér eftir því að vera í skikkju. Nú fær Hulk að hefna sín aðeins og fær Superman nokkur hnefahögg á borð við lestarslys í smettið.

Munaðarleysinginn frá Krypton liggur aftur flatur, og er Hulk kominn vel á veg með að berja gíg í jörðina í kringum þá. Þegar græni risinn reiðir hnefann á loft fyrir enn eitt höggið notar Superman tækifærið og skrúfar fyrir hitageislann. Brennandi heitur geislinn lendir á Hulk, og jafnvel þó það særi hann ekki vitund truflar það hann í nokkrar sekúndur. Þá er Ofurmennið komið aftur á fætur og risarnir tveir skiptast á höggum sem gætu fellt heilu blokkirnar.

Bardagi á milli Superman og Hulk gæti, og myndi eflaust, endast ansi lengi. Hvorugur þeirra mun gefast upp. Þess vegna mun bardaginn ekki velta á styrki eða úthaldi.

Bardagi á milli Superman og Hulk gæti, og myndi eflaust, endast ansi lengi. Hvorugur þeirra mun gefast upp. Þess vegna mun bardaginn ekki velta á styrki eða úthaldi. Þó hann muni reyna þar til heimurinn ferst mun Hulk aldrei takast að buga Superman með líkamlegum styrk, eða öfugt. Á endanum mun slagurinn ráðast af snerpu og hugsun, og þar hefur geimveran Kal-El yfirhöndina.

Reiðin er það sem keyrir Hulk áfram en hún verður honum að falli í þessum bardaga. Superman mun leita að fljótlegustu og öruggustu leiðinni til að legga Hulk að velli, en það hefur sannað sig í gegnum tíðina að besta leiðin til að losna við Hulk er að skutla honum út í geim. Hugsunarleysi Hulks gerir Superman auðvelt fyrir. Hann færir bardagann af jörðinni og upp á við, en þegar komið er út í geim þarf ekki nema eitt þéttingsfast högg og Hulk fer á fleygi ferð í gegnum vetrarbrautina. Hann mun koma aftur, og hann verður ennþá reiðari, en í bili hefur Superman tekist að sigrast á Hulk.

 

Sigurvegari: Superman

 

Þar hafið þið það.Ef þið viljið sjá einhverjar sérstakar hetjur mætast í „hringnum“, endilega skiljið eftir ummæli hér fyrir neðan. Nú, eða ef þið eruð ósammála niðurstöðunni.

Bjarki D. Svanþórsson

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnOne Response to Superman VS Hulk – Hvor myndi sigra?

Skildu eftir svar

Efst upp ↑