Tækni

Birt þann 21. maí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Microsoft kynnir Xbox One

Rétt í þessu var kynningu Microsoft á arftaka Xbox 360 að ljúka. Nýja græjan ber heitið Xbox One og mun sameina flestar gerðir af afþreyingu í eitt tæki að sögn Microsofts. Xbox One mun koma í verslanir um allan heim á þessu ári og verður því í beinni samkeppni við PlayStation 4 sem kemur í verslanir um næstu jól.

 

Snjalltækið Xbox One

Xbox one

Xbox One er ekki eingöngu leikjatölva heldur einnig snjalltæki. Með skipunum getur notandinn auðveldlega hoppað á milli tölvuleikja, kvikmynda, tónlistar o.fl. Xbox One notar nýja og endurbætta útgáfu af Kinect skynjaranum til að skynja andlit, rödd og hreyfingar sem hægt er að nota í tölvuleikjum, til að gefa Xbox One skipanir (t.d. „Xbox, on“ til þess að kveikja á Xbox tölvunni eða „Xbox, game“ til þess að hoppa beint í leik). Nýja Kinect inniheldur 1080p myndavél og nær að skynja nákvæmar og fínar hreyfingar.

Um leið og notandinn kveikir á tölvunni mun tækið þekkja andlitið og birta gögn sem tengjast notkun notandans, t.d. veit tækið hvaða kvikmynd þú horfðir á seinast og hvar þú stoppaðir myndina. Einnig getur notandinn séð hvaða efni er vinsælt meðal Xbox vina og annarra Xbox notenda.

Ólíkt Sony, ákvað Microsoft að sýna nýju leikjavélina, sem er samt svo miklu meira en “bara” leikjavél. Kinect skynjari og Xbox fjarstýring munu fylgja með Xbox One sem inniheldur 500 gb. Harðan disk, Blu-ray spilara og mun öflugri vélbúnað en áður. Það var farið fljótt yfir tæknilegu atriðin en það mun eflaust gleðja marga að sjá nýju Xbox fjarstýringuna sem virðist vera mjög svipuð núverandi Xbox 360 fjarstýringunni sem hefur notið mikilla vinsælda.

Xbox Live og Xbox SmartGlass verður einnig eflt til muna. Til að mynda voru 500 netþjónar notaðir fyrir Xbox Live við útgáfu árið 2002, 15.000 netþjónar eru notaðir í dag, en 300.000 netþjónar verða notaðir til að sinna þeirri þjónustu sem boðið verður upp á í Xbox One.

Eins og áður sagði kemur Xbox One í verslanir á þessu ári – 2013.

 

Spielberg gerir Halo sjónvarpsþætti

Á kynningarfundinum var einnig tilkynnt að nýir leiknir sjónvarpsþættir sem byggja á Halo seríunni séu í vinnslu og mun enginn annar en Steven Spielberg koma að gerð þáttanna ásamt 343 Industries. Ekki var tekið fram nákvæmlega hvernig Spielberg mun koma að gerð þáttanna. Til gamans má geta þá tilkynnti CCP á EVE Fanfest 2013 Baltasar væri að vinna að gerð sjónvarpsþátta sem byggja á tölvuleiknum EVE Online.

 

15 Xbox One leikir í vinnslu

Fram kom að samtals 15 tölvuleikir sem verða eingöngu fáanlegir á Xbox séu í vinnslu um þessar mundir – þar af 8 nýir titlar. EA tilkynnti að þeir myndu halda áfram að gefa út sína leiki á Xbox og að nýir FIFA, NBA Live, Madden og UFC leikir myndu koma út á næstu 12 mánuðum. Nýjasti Call of Duty leikurinn, Call of Duty: Ghosts, var einnig kynntur og tilkynnt að niðurhalanlegt aukaefni fyrir leikinn muni verða fyrst aðgengilegt á Xbox One.

Það fór óvenju lítill hluti af kynningunni í að kynna leiki, en ítrekað að E3 væri í næsta mánuði og þar yrðu leikirnir kynntir betur. Það var þó sýnt úr Forza 5 sem lítur ótrúlega vel út og úr Quantum Break sem verður eingöngu gefinn út á Xbox. Remedy Entertainment vinna að gerð leiksins en fyrirtækið hefur gert leiki á borð við Alan Wake og Max Payne. Í Quantum Break verður möguleikum kvikmynda og tölvuleikja tvinnað saman.

 

Quantum Break kítla

 

Sjónvarpsefni og ský

Boðið verður upp á að horfa á beinar sjónvarpsútsendingar í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar og óvíst um hvernig eða hvort slíkar útsendingar munu nást í gegnum Xbox One hér á landi. Nýja Xbox mun einnig bjóða upp á úrval VOD leigumynda o.fl.

Uppáhaldsefni hvers Xbox notanda fyrir sig, persónulegar stillingar og vistaðir leikir verða geymdir í skýi og því aðgengilegir í gegnum fleiri Xbox tölvur.

 

Viðbrögð ÍXS

Fyrstu viðbrögð íslenska Xbox samfélagsins (ÍXS) voru blendin eins og má lesa á þessum þræði. Það væri gaman að heyra hvernig lesendum Nörd Norðursins líst á nýju Xbox tölvuna. Endilega segið ykkar skoðun í kommentakerfinu hér fyrir neðan.

Hér koma nokkur valin brot frá meðlimum ÍXS:

 

The Flipmo King: Verð samt að segja að þetta lítur bara helvíti vel út hjá þeim 🙂

 

Bumbuliuz: Ég veit að það er líklega helgispjöll að segja þetta hérna, enn mér fannst þessi kynning viss vonbrigði fyrir utan að sjá vélina í byrjun. Alltof mikið blaður og síðan eitt tíma í dót sem flest okkar geta aldrei notað. Það bráðvantaði einhverja leiki og það er erfitt að segja það þegar Call of Duty leikurinn var hápunkturinn í sýningum á leikjum.

 

b1nn1: Ekkert sérlega spenntur, kom ekkert á óvart þarna Flott look á vélinni samt, hata svona straumlínulagað dót sem fer ekki við neitt

 

gummi.joh: Leist vel á þetta, engar risabombur enda vitað að leikirnir yrðu sýndir á E3, þar munu Microsoft kynna 15 franchise sem lofar góðu.

 

 

Höfundur er Bjarki Þór Jónsson,
ritstjóri Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑