Greinar

Birt þann 3. janúar, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

4

Leikjatölvusamfélagið á Íslandi

Þessi grein er unnin út frá kafla úr lokaritgerð minni í sagnfræði, Nörd Norðursins, frá 2008 þar sem ég fjalla um helstu leikjatölvusamfélögin á Íslandi. Samfélögin hafa m.a. séð um tölvuleikjakeppnir á borð við Skjálfta, spjallsíður fyrir áhugamenn leikjatölva og fleira. Einnig mun ég skoða hvaða hópur/hópar það er/u sem nota leikjatölvur helst, en til að komast að því safnaði ég saman upplýsingum yfir 3.400 notendur á spjallborðum Íslenska PlayStation Samfélagsins og Íslenska Xbox Samfélagsins. En til gamans má geta að þegar upplýsingunum var safnað saman árið 2008 voru 2.200 skráðir notendur í Íslenska PlayStation Samfélaginu en þeir eru orðnir 7.205 í dag (fjölgun upp á 305%) og notendum Íslenska Xbox Samfélagsins fjölgað úr 1.234 í 3.285 (fjölgun upp á 375%).

Ýmis mót hafa verið haldin þar sem tölvuleikjaspilarar keppa um hver er færastur í tilteknum leik. Árið 1992 var haldið tölvuleikjamót í Sega-salnum í Borgarkringlunni sem tók heilan dag og var einn tölvuleikur í aðalvinning. Árið 1998 var PlayStation-mót haldið á Egilsstöðum þar sem keppt var í kappakstursleik og einnig hefur verið haldið mót í Guitar Hero III. Leikjamót þar sem keppt er í leikjum í leikjatölvum virðast ekki vera nærri því jafn vinsæl og tölvuleikjamót þar sem notast er við borðtölvur.

Tölvuleikjakeppni Skjálfta hefur verið haldin í yfir tuttugu skipti og t.d. mættu yfir 500 manns á Skjálftamót árið 2003 þar sem borðtölvur voru notaðar. Á Skjálfta keppa spilarar sín á milli í ýmsum leikjum og eru margir þeirra fyrstu persónu skotleikir. Keppt hefur verið í Action Quake, Warcraft III og Counter-Strike og fleiri leikjum. Í dag er það eSports.is samfélagið sem er hvað öflugast að halda sambærileg mót og tölvuleikjakeppnir, en þar eru yfir 4.400 meðlimir skráðir á spjallborði þeirra.


Morgunblaðið
, 19. júní 2003. „Fimm hundruð þáttakendur í Skjálftamóti um helgina.”, bls. 49.

Í dag eru helstu samfélög leikjatölvu unnenda að finna á netinu. Vefsíðan PSX.is var stofnuð 23. mars 2007 og er „[m]egintilgangur hans að bjóða uppá svæði þar sem áhugamenn um PLAYSTATION® leikjavélarnar (og aðrar vélar) geta spjallað saman um allt varðandi tölvuleiki og leikjatölvur.” (PSX.is, „Um PSX.is”). Stjórnendur síðunnar eru áhugamenn um efnið og eru á engan hátt tengdir Sony. Samfélagið stendur fyrir ýmsum viðburðum, svo sem miðnætursölum á tölvuleikjum, íslenskir leikmenn koma sér saman um hópnetspilun á tölvuleikjum og eru ýmsar keppnir haldnar. Samfélagið er mjög virkt og þar er fyrst og fremst verið að ræða um PlayStation tölvuleiki og leikjatölvur.

Gerð var samantekt á öllum skráðum notendum PSX.is og gefur hún ágætis mynd af notendum síðunnar. Ekki er hægt að segja að niðurstöðurnar segi til um hinn hefðbundna PlayStation-spilara, þar sem engin skylda er að eiga slíka tölvu við innskráningu á síðuna. Samantektin var gerð í október 2008 og voru þá alls 2.200 notendur búnir að skrá sig á PSX.is. Heildarfjöldi pósta (e. posts) á síðunni var þá 49.438, eða 22-23 póstar að meðaltali frá hverjum skráðum notanda. Þessar tölur sýna og sanna að hér er um virkilega öflugt samfélag að ræða.

Persónulegar upplýsingar notanda (nafn, kyn, aldur, búseta og fleira) geta verið fylltar út af notandanum sjálfum, en er ekki skylda. Ef notandinn gefur upp persónulegar upplýsingar eru þær öllum aðgengilegar og hafa þau gögn verið tekin saman fyrir þessa grein í þeim tilgangi að komast betur að því hverjir áhugamenn PlayStation vélanna eru og hverskonar fólk það er sem myndar samfélagið. Niðurstöðurnar sýna að meðalaldur notenda er 21 ár. Langstærsti aldurshópurinn er 15-30 ára, eða um 84% notenda. Einungis 5,2% notenda eru kvenkyns, en 94,8% karlkyns. Næstum því helmingi fleiri notendur eru á höfuðborgarsvæðinu (61%) en utan þess (32,5%).

Annað samfélag sem einnig er á netinu og er ætlað leikjatölvu unnendum er Íslenska Xbox Samfélagið (ÍXS) sem stofnað var í lok ársins 2006. Hugmyndina að samfélaginu fékk Örvar G. Friðriksson þegar hann fór að halda utan um lista yfir þá Íslendinga sem áttu Xbox 360 leikjatölvur. Svo óheppilega vill til að netþjónustan Xbox Live! er ekki aðgengileg á Íslandi og þurfa því þeir sem ætla sér að nýta möguleika Xbox Live! að skrá sig með búsetu erlendis, t.d. í Bretlandi. Ein af megin ástæðum þess að halda uppi lista yfir íslenska leikmenn er svo að þeir geti spilað tölvuleiki saman í gegnum Xbox Live! en einnig til þess að eiga persónuleg samskipti við aðra íslenska spilara. ÍXS hefur staðið fyrir mörgum atburðum og má þar m.a. nefna miðnætursölur á leikjum sem nýkomnir eru í verslanir og mættu t.d. 300 manns þegar slík opnun var haldin vegna tölvuleiksins Halo 3 (Vísir.is, „Þrjú hundruð mættu á miðnætursölu Halo 3”). Einnig eru haldin svokölluð „stefnumót”, þar sem Xbox 360 spilarar koma sér saman um tíma til að spila tölvuleik saman í gegnum Xbox Live!.

Sambærileg samantekt var gerð um notendur ÍXS og notendum PSX.is í október 2008. Voru þá 1.234 skráðir notendur á ÍXS. Fjöldi pósta á vefsíðu ÍXS voru þá 40.859, sem gerir að meðaltali um 33-34 pósta per notenda. Þetta sýnir ekki endilega að ÍXS sé með virkari notendur en PSX.is þar sem vefsíða ÍXS er u.þ.b. einu ári eldri en PSX.is. Meðalaldur notenda Xbox samfélagsins eru 22 ár, sem er svipaður aldur og fyrri athuganir hafa sýnt. Líkt og á PSX.is er lang stærsti hópurinn á aldrinum 15-30 ára, eða um 87,2% notenda. Hlufall kvenna í ÍXS samfélaginu er talsvert minna en aðrar athuganir hafa sýnt, en einungis 1,8% notenda eru kvenkyns og 98,2% karlkyns. Svipað hlutfall notenda er staðsett á höfuðborgarsvæðinu og á PSX.is, eða 62,5%.

Á vefsvæði ÍXS er sérstök umræða sem kallast; sjálfskynning. Þar kynna félagsmenn sig og segja meira frá sér en annars kemur fram. Vegna sjálfskynninganna á ÍXS er hægt að fá yfirlit yfir hjúskaparstöðu og atvinnu notenda. Hjúskaparstaða meðal notenda er ansi jöfn, en um 54% eru einhleypir og 46% í sambandi (í sambandi, trúlofaðir eða giftir). Einnig er hlutfallið mjög svipað milli þeirra sem stunda nám og þeirra sem eru á vinnumarkaði, um 51% notenda stunda nám en 47 % eru á vinnumarkaði.

Það sem kemur helst á óvart í ofangreindri samantekt er ótrúlega lágt hlutfall kvenna.

Það sem kemur helst á óvart í ofangreindri samantekt er ótrúlega lágt hlutfall kvenna. Hlutfall karla hefur lengi vel verið mjög hátt meðal tölvuleikjaspilara, en í dag er talið að um 20-40% tölvuleikjaspilara séu kvenmenn. Nokkrar útskýringar koma hér til greina. Til dæmis getur verið að íslenskir kvenmenn séu hreinlega ekki miklir tölvuleikjaspilarar og/eða að þær forðist íslensku spjallborðin. Það sem ég tel þó líklegra sé að þær séu að spila tölvuleiki í öðrum tækjum en PlayStation eða Xbox, eins og t.d. Wii, iPhone, Android eða Facebook.

Bræðurnir Ormsson standa á bak við vefsíðuna Nintendo.is sem ætlaður er eigendum og áhugamönnum um leikjatölvur frá Nintendo. Brösulega hefur gengið að halda þeirri vefsíðu gangandi vegna þess að stjórnendur og notendur hafa ekki sýnt því samfélagi mikinn áhuga (t.d. er nýjasta frétt síðunnar meira en þriggja ára gömul (birt 14.07.2008)). Önnur möguleg skýring er að leikjatölvan Nintendo Wii hefur ekki náð jafn miklum vinsældum og PS3 og Xbox 360 á Íslandi, en netspilun í Wii býður upp á mun færri möguleika en PS3 og Xbox 360. Ekkert er þó hægt að fullyrða þar sem ómögulegt var að nálgast sölutölur um seld eintök frá umboðsaðilum og verða því þessar kenningar að duga í bili.

Tölvuleikjasamfélagið á Íslandi á sér íslenskan sjónvarpsþátt, Game Tíví, sem sýndur er á Skjá Einum. Í þættinum er fyrst og fremst sagt frá völdum fréttum úr heimi tölvuleikjanna og fjallað um tölvuleiki. Þáttastjórnendur birta einnig reglulega lista yfir tölvuleiki; t.d. lista yfir söluhæstu leiki ársins, tölvuleikir fyrir stelpur og ofbeldisfulla tölvuleiki. Einnig er ýtarleg tölvuleikjagagnrýni á völdum tölvuleikjum. Þátturinn nær oft að lífga verulega uppá tölvuleikjaheiminn hérlendis með því að standa fyrir ýmiskonar leikjum og keppnum þar sem vegleg verðlaun eru í boði. Árið 2008 hófu þáttastjórnendur leitina að „gítarhetju Íslands”, þar sem að um 100 spilarar kepptu í tölvuleiknum Guitar Hero III (sem er hálfgerður gítarhermir) og var keppnin haldin í Smárabíói. Verðlaunin voru ekki af verri endanum, en vinningshafinn fékk 100.000 kr. í verðlaunafé (Viggó I. Jónasson, „Leitin að gítarhetju Íslands.” 24 Stundir, 08.04.2008, bls. 42 (sjá mynd að ofan)).

Þátturinn hóf göngu sína á sjónvarpsstöðinni Popp Tíví árið 2002 og hefur áhorf þáttanna aukist með árunum. Tölvuleikjaþátturinn er vissulega góð viðbót fyrir tölvuleikjaunnendur hér á landi, en þátturinn hefur þó verið gagnrýndur fyrir það að vera glansbæklingur fyrir tölvuleikjadeild Senu, þar sem báðir stjórnendur þáttarins starfa eða hafa starfað þar. Þrátt fyrir þessar vangaveltur er fullvíst að Game Tíví styrkir samfélag leikjatölvunotenda og tölvuleikjaspilara og fylgjast margir spilarar með þættinum. Ekki eru allir jafn hrifnir af slíkum tölvuleikjaþáttum og er einn þeirra hinn landsþekkti Dr. Gunni. Í pistli sem birtur var í Fréttablaðinu 2008 segir hann að „Í þáttunum er oftar en ekki sýnt úr ofbeldisrúnkfantasíuleikjum sem unglingar á villigötum spila til að þurfa ekki að gera eitthvað af viti.” (Dr. Gunni, „Við tækið. Dr. Gunni veltir fyrir sér áhrifum ofbeldis.” Fréttablaðið, 01.03.2008, bls. 76.) Einhverjir tölvuleikjaspilarar hafa látið í sér heyra og segir Dr. Gunni á bloggsíðu sinni: „Þetta þótti fullorðnum tölvuleikjarspilurum hræðilegt diss á innihaldsríka og mannbætandi iðju þeirra með stýripinnanna.” (Dr. Gunni, Blogg „05.03.2008”.)

Í þáttunum er oftar en ekki sýnt úr ofbeldisrúnkfantasíuleikjum sem unglingar á villigötum spila til að þurfa ekki að gera eitthvað af viti. – Dr. Gunni

Út frá því hversu margir Íslendingar hafa aðgang að leikjatölvum og hversu margir þeirra eyða miklum tíma í tölvuleikjaspilun má velta því fyrir sér hvort slík iðkun hafi góð eða slæm áhrif á spilara?

Bjarki Þór Jónsson

Heimildir:

Hluti úr BA ritgerð í sagnfræði; Nörd norðursins eftir Bjarka Þór Jónsson, 2009.

Dr. Gunni, Blogg „05.03.2008”.

Dr. Gunni, „Við tækið. Dr. Gunni veltir fyrir sér áhrifum ofbeldis.” Fréttablaðið, 01.03.2008, bls. 76.

eSports.is.

Game Tíví, „Gítar Hetja Íslands”

Nintendo.is

PSX.is.

Viggó I. Jónasson, „Leitin að gítarhetju Íslands.” 24 Stundir, 08.04.2008, bls. 42.

Vísir.is, „Þrjú hundruð mættu á miðnætursölu Halo 3”

Xbox360.is.

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn4 Responses to Leikjatölvusamfélagið á Íslandi

  1. Pingback: Afmælispistill | Nörd Norðursins

Skildu eftir svar

Efst upp ↑