Leikjarýni

Birt þann 31. mars, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Alan Wake’s American Nightmare

Alan Wake’s American Nightmare er Xbox Live Arcade leikur og er hann óbeint framhald af leiknum Alan Wake frá árinu 2010. Réttara væri að flokka hann sem aukapakka (expansion) fyrir Alan Wake rétt eins og The Signal og The Writer.

Þegar Alan Wake kom út fékk hann mjög góðar viðtökur gagnrýnenda en honum til óhapps kom Red Dead Redemption út á sama tíma sem hafði áhrif á sölutölur. Remedy Entertainment hefur þrátt fyrir það talað um einhvers konar framhald af Alan Wake og lengi vel höfðu aðdáendur (þar á meðal undirritaður) beðið spenntir eftir hugsanlegu framhaldi þ.e.a.s. Alan Wake 2. En í staðinn var sú ákvörðun tekin að gefa út minni leik sem nokkurs konar brú yfir í Alan Wake 2 (ef hann þá kemur út).


Alan Wake heimurinn er heillandi og fyrsti leikurinn er einn af mínum uppáhalds leikjum síðustu ára. Leikirnir eru nokkurs konar sálfræði-hryllings-skotleikir með nokkrum nýjungum. Það helsta er að óvinirnir eru ódrepanlegir þar til þú hefur notað vasaljósið þitt til þess að veikja þá og þá getur þú notað hin ýmsu vopn til að ganga endanlega frá þeim. Þetta þýðir að þú þarft alltaf að vera á hreyfingu og beygja þig undan árásum þar til ljósið hefur veikt þá nægilega. Þess vegna virka t.d. blys og blossabyssa (flare gun) mjög vel en svo geturðu notað haglabyssur, naglabyssur, vélbyssur og fleira skemmtilegt til að ganga endanlega frá óvinunum.

Í American Nightmare bætast nokkrar tegundir óvina við, t.d. er einn sem getur breytt sér úr fuglageri yfir í myrkraveru og öfugt og annar sem skiptir sér upp eins og einhver djöfulleg „myrkrafruma“ og þarf maður að skjóta öll eintökin. Af einhverjum ástæðum koma einnig hoppandi kóngulær á móti manni sem er dálítið á mis við allt annað í leiknum.


Grafíkin (sem var góð í Alan Wake) hefur ekki tekið umtalsverðum breytingum fyrir utan að milliskeiðin (cutscenes) eru flottari og raunverulegri. Næturhimininn er vel gerður og er t.d. hægt að greina stjörnumerkin ef maður gefur sér tíma til að horfa upp. Tónlistin og hljóðin þjóna hlutverki sínu og er þ.á.m. eitt lag eftir hljómsveitina Kasabian. Talsetningin er ekki slæm en ekki heldur það góð. Mikið hvílir á aðalleikaranum sem þarf að leika tvö hlutverk og í öðru hlutverkinu þarf hann að leika illan morðingja (ekki bara talsetning því að hann er sjálfur í myndbandi innan leiksins) sem gengur því miður ekki alveg upp og þau myndskeið verða þreytandi til lengdar (en hægt er að sleppa þeim). Ógnin er því ekki mikil og söguþráðurinn ekki nægilega sterkur.

Leikurinn olli mér nokkrum vonbrigðum. Þar sem hann stóð einn og sér gerði ég sambærilegar kröfur til hans og Alan Wake og bjóst við mun sterkari sögu og alls konar óvæntum atburðum. Í staðinn fær maður í rauninni eitt stórt „twist“ sem í raun dregur úr skemmtanagildi leiksins sjálfs. Það er ekki mikil fjölbreytni í spilun enda meira lagt upp úr söfnunar- og skothluta leiksins en sögunni, en hún er það sem gerði Alan Wake svo góðan (rétt eins og Max Payne sem Remedy er líka með).

Fyrir utan leikinn sjálfan er hægt að fara í svokallað „arcade action og spila nokkur tímastillt borð þar sem takmarkið er að lifa af þar til nýr dagur rennur upp. Þessi borð minna á Resident Evil 5 borðin sem eru af sama toga og eru svo sem ágætis skemmtun en aðeins þeir hörðustu munu endast lengi í þeim.


Fyrir tæpar 2000 krónur (1200 Microsoft points) er erfitt að kvarta mjög mikið. Þetta er fín helgar afþreying. Fyrir þá sem ekki hafa spilað Alan Wake áður en hafa gaman af þessum eftir spilun, þá mæli ég sterklega með fyrsta leiknum sem kom út árið 2010 og ég gríp ennþá í af og til. Fyrir þá sem þekkja Alan Wake myndi ég ráðleggja þeim að stilla væntingum sínum í hóf en ef þeir vilja forvitnast um þróun sögunnar, hugsanlega til að vera með á nótunum þegar (vonandi) næsti stóri Alan Wake leikurinn kemur út, þá er hægt að hugsa sér verri hluti en að festa kaup á þessum.

 

GRAFÍK
HLJÓÐ
SPILUN
SAGA
ENDING
8,5
7,5
7,5
6,0
6,0

SAMTALS

7,1

Steinar Logi

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑