Spil

Birt þann 4. apríl, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

Spilarýni: Pandemic

Spilarýni: Pandemic Nörd Norðursins

Samantekt: Allt í allt er Pandemic virkilega skemmtilegt og ekki síður spennandi spil.

4

Skemmtilegt


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)

Arnar Sigurðsson skrifar:

• er fyrir 2-4 leikmenn, 10 ára og eldri
• tekur 60 mínútur

Heimurinn er í hættu. Vírussjúkdómar skjóta upp kollinum í stórborgum víðsvegar um heiminn og þú ert meðlimur í teymi sérfræðinga sem er sendur út af örkinni til að berjast gegn útbreiðslunni og um leið reyna að finna lækningu.

 

Um spilið

Pandemic kom út árið 2008 og er í flokki samvinnuspila, þar sem allir leikmenn vinna saman gegn spilinu. Pandemic hefur hlotið mikinn fjölda viðurkenninga og verðlauna í borðspilaheiminum. Spilið er hannað af Matt Leacock sem m.a. hannaði Forbidden Island sem hefur stundum verið kallað „Pandemic light“.

Pandemic gengur í grófum dráttum út á að ferðast á milli stórborga, lækna sjúka og safna nægum upplýsingum til að finna lækningar á hinum fjóru stórhættulegu vírusum.

Pandemic gengur í grófum dráttum út á að ferðast á milli stórborga, lækna sjúka og safna nægum upplýsingum til að finna lækningar á hinum fjóru stórhættulegu vírusum. Hver leikmaður fær ákveðinn fjölda aðgerðapunkta í hverri umferð sem þeir geta notað til að ferðast á milli borga, lækna hina sjúku, byggja rannsóknarstöðvar og safna spjöldum sem þarf til að finna lækningu. Hver leikmaður fær svo í upphafi einnig úthlutað sérfræðingaspjaldi sem sýnir hvaða sérþekkingu viðkomandi leikmaður mun hafa. Þannig eru allir leikmenn með einhverja sérfræðiþekkingu, þ.e. geta gert eitthvað aukalega í hverri umferð sem aðrir leikmenn eiga erfiðara með að gera. Eftir að leikmaður hefur notað sína aðgerðapunkta (og hugsanlega sérfræðiþekkingu) dregur hann blint leikmannaspil, en þeim þarf að safna til að geta fundið lækningar. Áður en spilið hefst eru nokkur sýkingarspil dregin og þær borgir sem þá koma upp sýktar af viðeigandi vírusum (kubbar í fjórum litum; blár, rauður, gulur og svartur).

Pandemic

Í leikmannaspilabunkanum, sem dregið er úr í hverri umferð, leynast einnig spil sem leyfa sértækar aðgerðir sem geta hjálpað leikmönnum við að ná markmiði sínu. Inn í bunkann er upphaflega stokkað svokölluðum „Epidemic!“ spilum. Ef þau eru dregin þá eykst útbreiðsla vírusanna og Pandemic færist yfir á næsta erfiðleikastig.

Eftir þetta þarf leikmaðurinn svo að draga úr sýkingarspilum og bæta inn á spilaborðið sýkingakubbum í nýjum borgum.

Upp getur einnig komið svokölluð útbreiðsla (outbreak) þar sem sýkingar brjótast út og dreifast til nærliggjandi borga. Það gerist ef bæta þarf sýkingum við í borg sem þá þegar inniheldur þrjá sýkingarkubba. Sýkingin dreifist þá á allar nærliggjandi borgir og getur skapað keðjuverkun.

Pandemic

Þetta hljómar kannski flókið en er það alls ekki. Gangur spilsins er; færa sérfræðinginn sinn milli borga og lækna sjúka, draga spil (sem annað geta annað hvort verið góð eða slæm) og bæta svo við sýkingum í fleiri borgir.

Leikmenn vinna ef þeim tekst að ná að uppgötva lækningar á öllum fjórum vírussýkingunum. Þeir tapa hins vegar ef eitt af eftirfarandi fjórum atriðum koma upp; leikmenn verða uppiskroppa með sýkingakubba, útbreiðslukvarðinn nær 8 eða ef leikmanna-spilabunkinn sem dregið er úr í hverri umferð klárast.

Hvað finnst mér?

Pandemic_03Pandemic er eitt af þessum spilum sem ég var búinn að vera með í sigtinu lengi vel og búinn að lesa fram og til baka alls kyns umfjallanir. Eitthvað fannst mér þetta þó virka þurrt svona úr fjarlægð, gat ekki alveg skilið hvað gæti verið svona spennandi við þetta spil. En það er nefninlega akkúrat málið, spilið er mjög spennandi. Alveg frá fyrstu stundu er maður á fullu gasi að reyna að hefta útbreiðsluna og finna lækningar. Það verða svo að teljast góð meðmæli með spilinu að konan mín, sem hélt ég væri orðinn eitthvað galinn þegar hún sá þetta á óskalistanum, varð heilluð af þessu spili alveg frá fyrstu stundu.

Pandemic er skráð fyrir 2-4 leikmenn. Hægt er að fá viðbót (Pandemic: On the Brink) sem m.a. bætir við fimmta leikmanninum. Ég hef spilað þetta með 3, 4 og 5 leikmönnum og myndi telja að með færri leikmönnum sé auðveldara að vinna spilið heldur en ef spilað er með fleirum. Svo eru sum sérfræðispjöld sterkari en önnur. Þannig getur t.d. skipt sköpum að hafa sérfræðinginn „Medic“ með, en hann er mun öflugri en aðrir í að hreinsa upp sýkingar. Svo er hægt að stilla erfiðleikastigið í upphafi með því að nota vissan fjölda „Epidemic!“ spjalda í samræmi við ákveðnar reglur.

Pandemic kom mér (og fleirum) skemmtilega á óvart. Þar sannast hið margkveðna: „Ekki dæma bókina eftir kápunni“. Eins og áður sagði er Pandemic samvinnuspil, sem er kannski form sem ekki allir kannast við eða eru sáttir við. Keppnisfólk á hugsanlega erfitt með að deila sigrinum með öðrum, þar sem annað hvort allir vinna eða enginn. Einnig er hætt við því að einhver sterkur karakter taki að sér að stýra öðrum leikmönnum og segja fólki fyrir verkum. Því getur verið nauðsynlegt að velja rétta tímann og rétta félagsskapinn til að spila samvinnuspil eins og Pandemic.

Niðurstaða

Allt í allt er Pandemic virkilega skemmtilegt og ekki síður spennandi spil. Það getur myndast mikil spenna undir lokin þegar lækningarnar eru alveg að verða fundnar en leikmannaspilin að verða búin. Viðbótin (Pandemic: On the Brink) bætir svo eins og áður sagði við fimmta leikmanninum, fimmta vírusnum og fleiri sérfræðingaspjöldum. Einnig fylgja þar rannsóknarstofu-plastdiskar til að geyma vírusana í, mjög skemmtilegur aukahlutur.

Með fimm leikmönnum hefur okkur ekki tekist að vinna Pandemic. Okkur hefur tekist það með þremur og svo mjög naumlega með fjórum. Pandemic er miðlungsflókið fjölskylduspil sem hentar einnig alvörugefnari spilurum og því óhætt að mæla með því. Samt verður maður að vera vakandi fyrir því að að einhver taki ekki alveg að sér stjórnina og stýri öllum ákvörðunum. Þá verður spilunin fljótt leiðigjörn.

 

Ofangreind gagnrýni var upphaflega birt á vefsíðunni Bordspil.is.

 

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnEfst upp ↑