Spil

Birt þann 10. október, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

Spilarýni: 10 Days in Europe

Spilarýni: 10 Days in Europe Nörd Norðursins

Samantekt: Ten Days spilin eru spil sem bæði fullorðnir og börn geta haft gaman og meira að segja gagn af og get ég því vel mælt með þeim.

3.5

Sunnudagsspil


Einkunn lesenda: 0 (0 atkvæði)
Aldur 10+
Leikmenn 2-4
Spilatími 20 mínútur+

10 Days in Europe er spil sem eins og nafnið gefur til kynna snýst um 10 daga ferðalög um Evrópu – þú þarft þó ekki að fara neitt annað en með ímyndunaraflið á flug! Spilið er eitt af fimm 10 Days spilum frá fyrirtækinu Out of the Box en hin eru 10 Days in Africa, 10 Days in the USA, 10 Days in Asia og 10 Days in the Americas. Spilið er skemmtilegt (og fræðandi) sunnudagsspil sem hægt er að spila með fjölskyldunni allri, það tekur stuttan tíma og er síður en svo flókið.

Gangur leiksins

Markmið spilsins er að tengja tíu daga saman í eina samfellda ferð um Evrópu. Þetta er hægt með því að leggja hlið við hlið spjöld samliggjandi landa, tengja tvö lönd af sama lit með samlitri flugvél, með því að tengja tvö lönd gegnum haf eða í gegnum sérstakar ferjusiglingar sem tengja einstök lönd saman.

Fyrstu 10 spjöldin

Í byrjun spilsins fá allir leikmenn tvo tréstokka með tíu hólfum fyrir spjöld. Til að fylla stokkana byrja leikmenn á að draga til skiptis spjöld úr bunka (sem að sjálfsögðu er á hvolfi). Upp geta komið flugvélar í fjórum mismunandi litum, siglingar á Miðjarðarhafi, Atlantshafi og Eystrasalti og landaspjöld. Spjaldinu verður leikmaður að velja eitt hólf og hann má ekki færa spjaldið til eftir á. Þegar allir leikmenn hafa fyllt í hólfin tíu hefst næsti fasi leiksins.

Næsti fasi

Nú halda leikmenn áfram að draga spjöld til skiptis úr bunkanum, núna hins vegar þurfa þeir að ákveða hvort spjaldið sem þeir drógu henti þeim og þá hvar. Ennþá er bannað að hreyfa við spjöldum sem nú þegar eru í stokknum, eina sem má gera er að skipta einu spjaldi á stokknum út fyrir það sem verið var að draga eða þá henda spilinu sem dregið var. Eins og kom fram að ofan verður að athuga að rauð flugvél getur aðeins tengt saman tvö rauð lönd og það sama á við um aðra liti, eins og gefur að skilja verða einnig lönd að snerta rétt haf svo hægt sé að nota bátana. Spjaldinu sem er hent út er því næst sett í einn af þremur draslbunkum, en spjöldin í draslbunkunum eiga að snúa upp. Sé þess nokkur kostur verða ætíð að vera þrír slíkir bunkar en leikmaður má draga efsta spjald úr þessum bunkum í stað þess sem snýr á hvolf og nota á sama hátt. Hægt er að gera leikinn strategískan með því að fylgjast með þessum bunkum, til dæmis með því að gera sér hugmyndir um hvaða svæðum andstæðingurinn er að safna og reyna að forðast að gefa honum þau spjöld sem hann vantar. Einnig er hægt að nota þessa bunka til að „geyma sér“ spjald til góða, það er henda því út og vona að í næstu umferð geti maður ennþá tekið það upp og sett á þann stað sem maður hafði hugsað. Þetta er að sjálfsögðu áhætta því andstæðingur þinn gæti sjálfur tekið upp spjaldið eða sett annað spjald ofan á það og þá er það þar með úr leik.

Hver sigrar?

Til að sigra þarf leikmaður að búa til samfellda tíu daga ferð með spjöldin sín. Passa þarf að ferð verður að hefjast og enda á landi, ekki má nota flugvélar eða báta í fyrsta og seinasta hólf. Stundum eru tvær eða fleiri leiðir milli landa. Það er ekkert sem bannar þér að taka bátsferð milli tveggja landa sem liggja saman – ef haf tengir þau og þú átt réttan bát. Þegar maður telur sig hafa sigrað lætur maður aðra leikmenn vita og sýnir þeim ferðina sína.

Niðurstaða

Eins og áður sagði eru Ten Days spilin af tegund sem ég kalla gjarnan sunnudagsspil – þau eru ekki partíspil heldur ósköp róleg, án þess að vera óspennandi. Þau eru fullkomin í fjölskyldusumarbústaðarferðina eða sunnudagseftirmiðdaginn. Þau henta fjölskyldum með börn sérstaklega vel þar sem þau ganga í alla aldurshópa, þótt spilareglur segi að þau séu fyrir 10 ára og eldri er ég viss um að sum yngri börn gætu vel spilað þau með foreldrum sínum. Ten Days spilin eru spil sem bæði fullorðnir og börn geta haft gaman og meira að segja gagn af og get ég því vel mælt með þeim.

Höfundur er Védís Ragnheiðardóttir

 

 

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑