Spil

Birt þann 18. apríl, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

Spilarýni: Fíaskó – íslenska partýspilið

Yfirlit

Aldur 13+
Leikmenn 3+
Spilatími 45 mínútur+

Fíaskó er íslenskt spil sem kom út síðla árs 2011. Það er hugvit þriggja vina úr Kópavogi en virðist þó að einhverju leyti byggt á gamalreyndum partíleik sem í mínum kunningjahópi kallast einfaldlega „æsti leikurinn“. Eins og það nafn gefur réttilega til kynna er hér um að ræða mjög skemmtilegan leik sem breytir hvaða partíi sem er í hörku stuð. Það að komin sé útgáfa af þessum leik í spil og honum þannig dreift til fjöldans er því ekkert nema jákvætt!

 

Gangur leiksins

Spilið gengur út á það að safna stigum í þremur umferðum. Það lið sem er stigahæst eftir allar umferðarnar sigrar. Umferðarnar eru ólíkar en ganga allar út á það að lýsa (leika eða humma) einhverri íslenskri kvikmynd, hljómsveit, persónu, lagi, sjónvarpsþætti eða bók undir tímapressu. Félagi/félagar manns eiga svo að giska og nái þeir því rétt fær liðið stig, dregur næsta spjald og endurtekur leikinn allt þar til tíminn rennur út. Umferð 1 er auðveldust en þyngjast svo umferðarnar eftir því sem á líður.

 

Hvað má í Fíaskó?

Umferð Fjöldi orða sem nota má Hljóð og humma Látbragð Má segja pass? Leyfilegur fjöldi ágiskana
1 Ótakmarkað Leyfilegt Leyfilegt Nei Ótakmarkaður
2 1 Leyfilegt Leyfilegt 1
3 0 Leyfilegt Leyfilegt 1

 

Það sem er BANNAÐ í Fíaskó:

  • Bannað er að syngja en leyfilegt er að humma.
  • Bannað er að notast við: „Það rímar við xxxxx“.
  • Bannað er að stafsetja orðin á nokkurn hátt.
  • Bannað er að nota viðurnefni, t.d máttu ekki segja Siggi ef það stendur Sigurður á spjaldinu o.s.frv.
  • Bannað er að segja hluta úr orðinu, t.d. máttu ekki segja mynd sem fjallar um löggur ef svarið er Löggulíf og einnig má ekki notast við Dalalíf þar sem orðið líf kemur fyrir í titlinum á Löggulíf.

Fyrsta umferð

Þegar búið er að skipta í lið (eða ekki eins og við komum að hér á eftir) eru dregin 42 spil úr bunkanum og koma leikmenn sér saman um hvaða lit eigi að spila. Litirnir segja í raun ekkert annað en það að hönnuðir spilsins eru klárir og fundu leið til að hafa tvö orð á hverju spjaldi. Hins vegar þurfa allir að nota sama lit því sömu 42 spjöld eru notuð í öllum þremur umferðum.

Hvað segir maður til dæmis um Ragnar Bragason, eða kvikmyndina Nýtt líf? Hérna gildir að hugsa hratt og vera klókur að finna snjallar leiðir til að lýsa hlutum, leika þá eða humma lög.

Svo hefjast leikar. Hvert lið hefur 30 sekúndur með bunkann og þarf að reyna að komast í gegnum eins mörg spjöld og möguleiki er. 30 sekúndur eru afskaplega fljótar að líða og stundum er erfitt að lýsa því sem upp kemur. Hvað segir maður til dæmis um Ragnar Bragason, eða kvikmyndina Nýtt líf? Hérna gildir að hugsa hratt og vera klókur að finna snjallar leiðir til að lýsa hlutum, leika þá eða humma lög.

Þegar öll spjöldin eru búin eru talin saman stig. Sá sem er með fæst stig hefur leik í næstu umferð.

 

Önnur umferð

Í annarri umferð vandast málið því nú má aðeins segja eitt orð og þá gildir það sannarlega að velja rétt orð. Það er þó bót í máli að það er sömu 42 atriðin sem koma fyrir hér og í umferð tvö en heilinn er ólíkindatól og vill öllu gleyma. Eins og í umferð 1 má hér einnig leika og humma.

Þegar öll spjöldin eru búin eru talin saman stig. Sá sem er með fæst stig hefur leik í næstu umferð.

 

Þriðja umferð

Í þessari umferð eru enn sömu 42 spjöld og nú má ekki segja orð, aðeins leika og humma. Hvernig leikur maður Willum Þór Þórsson og lagið Ísabellu? Það getur verið hægara sagt en gert! Þegar spjöldin eru búin eru talin saman stig allra umferða og er sá stigahæsti krýndur sigurvegari.

 

Spilarar

Eins og var komið að hér að ofan þurfa ekki að vera lið í spilinu. Einn af helstu kostum þessa spils er nefnilega að allt frá þremur leikmönnum upp í stóran hóp af fólki getur spilað það. Ólíkt mörgum öðrum spilum er maður því ekki bundinn við að vera með akkúrat rétta tölu og oddatala er engin fyrirstaða!

Sé spilað í liðum skiptast liðin einfaldlega á að lýsa/leika/humma og einstaklingar innan liðanna lýsa/leika/humma og giska á víxl. Sé um oddatölu leikmanna að ráða eru ekki lið heldur hver einstaklingur fyrir sig. Þá lýsir/leikur/hummar þú fyrir þann sem er þér á vinstri hönd og báðir fá stig fyrir þau spjöld sem þið vinnið. Spilið gengur svo hringinn.

 

Niðurstaða

Niðurstaðan er sú að þetta spil er tær snilld. Fyrir þá sem eru hrifnir af orða- eða látbragðsleikjum er þetta tilvalið spil og hentar það hvort sem er fyrir fjölskylduboð og partí með vinum. Það getur breytt daufustu ættarmótum í hlátrasköll og almenn skemmtilegheit.

[Spilið] getur breytt daufustu ættarmótum í hlátrasköll og almenn skemmtilegheit.

Helsti ókosturinn sem ég sé við það er spjaldafæð en einnig mætti setja út á of strangar reglur, þá helst um 30 sekúndur í fyrstu umferð sem verður að teljast nokkuð stutt og um aðeins eina ágiskun í umferðum 2 og 3. Í mínum spilahóp höfum við kosið að tvöfalda tímann í fyrstu umferð og sleppa reglum um takmarkanir á fjölda ágiskana en eins og allir spilanördar kannast við eru spil og spilareglur eitthvað til að þróa og betrumbæta!

Fíaskó fæst að sjálfsögðu í Spilavinum og mælum við hjá Nörd Norðursins svo sannarlega með því.

Védís Ragnheiðardóttir

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Efst upp ↑