Greinar

Birt þann 19. apríl, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

18

Aðsend grein: Breivik og byssurnar

Vinur minn sagði mér eitt sinn að hann væri til í að vera sendur til Afghanistan til að hjálpa NATO-mönnum að skjóta lýðræði inn í fólkið. Hann væri nefnilega svo góður að miða.

Þetta var laukrétt hjá honum. Hann hefði í raun skotið óteljandi hryðjuverkamenn í gegnum tíðina af ótrúlegum færum. Hann hafði meira að segja séð vini sína liggja í valnum og sjálfur hafði hann slasast oft í bardögum. Að geta haldið áfram að berjast eftir að hafa misst sína nánustu félaga er ótrúlegt. Að berjast við hræðilegar aðstæður í fjarlægu landi, aftengja sprengjur og útrýma heilu hryðjuverkasellunum á kannski aðeins heima í bíómyndum en þetta gerði hann.

Í tölvuleik.

Við vorum þrettán ára og hann var svo góður að miða í Counter-Strike. Það þarf varla að taka fram að ég tók hann ekki alvarlega.

Undanfarna daga hafa birst fréttir af réttarhöldunum yfir viðbjóðnum Breivik í Noregi. Í einni þeirrar segir m.a.:

… Hinsvegar hafi hann spilað tölvuleikinn Modern Warfare til þess að æfa sig fyrir morðin á Útey.

Tölvuleikurinn sé stríðshermir og þar hafi hann getað þjálfað sig í að miða á skotmark á hreyfingu, lifandi fólk. Hann sagði að tölvuleikurinn væri hannaður þannig að hver sem er gæti notað hann, hvaða amma sem er gæti orðið leyniskytta með því að spila leikinn.

Mbl.is, „Breivik þjálfaði miðið í tölvuleikjum, 19. apríl 2012.

(Það skal tekið fram að þessi grein er ekki skrifuð til að gera lítið úr þessum harmleik sem ómennið olli.)

Að halda því fram að Breivik hafi lært bardagaaðferðir í MW er gjörsamlega fáránlegt. Þessar yfirlýsingar hans eiga eftir að draga dilk á eftir sér og eru þær ekki tölvuleikjaiðnaðinum til framdráttar. Andstæðingar ofbeldisleikja fá nóg að gera núna.

Breivik lærði að færa músina í átt að vondu köllunum og hreyfa vísifingur til að hleypa af. Hann hlóð svo byssuna aftur með því að ýta á einn takka. Ef hann var með Sleight of handperkinn“ var hann ennþá sneggri að því. Ef hann vantaði fleiri skot þurfti hann aðeins að labba yfir byssur á víðavangi.

Atburðarrásin sem hann fylgdi í leiknum var fyrirfram ákveðin og hann keppti annaðhvort við gervigreind eða 12 ára krakka í Þýskalandi sem kalla mann hinum ýmsu nöfnum yfir netið á meðan spilað er.

Stríðshermir lýsir leiknum aldrei. Ekki frekar en að Saving Private Ryan sé heimildarmynd. Leikurinn er afþreying.


Skjáskot úr Call of Duty: Modern Warfare 3.

Tölvuleikur kenndi Breivik ekki að miða. Tölvuleikir kenndu honum aldrei hvernig hann ætti að beita sér. Tölvuleikir kenndu honum ekki að hlaða byssu. Hans eigin brenglaði hugur gerði honum kleift að sækja sér þessa þekkingu til þess eins að taka saklaus líf.

Ef MW kenndi honum að miða værum við öll verkfræðingar eftir síendurtekna Tetris-spilun.

Ef MW kenndi honum að miða værum við öll verkfræðingar eftir síendurtekna Tetris-spilun.

Sjálfur hef ég spilað leikinn sem á að hafa kennt fíflinu að miða. Ég þyki nokkuð góður í þessum leik en mér hefur aldrei dottið í hug að hann kenni mér meðferð skotvopna. Sem dæmi er ég með ör fyrir ofan hægra augað eftir að hafa hleypt úr riffli, kíkirinn skaust í andlitið á mér. Ég er viss um að ég hafi ekki hitt skotmarkið sem var ekki einu sinni á hreyfingu. Girðingastaur í 200 metra fjarlægð.

Tímarnir sem ég hef varið í þennan leik kenndu mér ekki að færa andlitið fjær kíkinum. Í tölvuleiknum þarf maður bara að passa að miðið sé nálægt vonda kallinum og hleypa af. Verði maður skotinn er nóg að fara í skjól í nokkrar sekúndur.

Stríðsleikir eru hin mesta skemmtun, rétt eins og ofbeldisfullar bíómyndir, en þeir ala ekki upp ofbeldismenn. Tölvuleikjanördar væru hættulegasta fólk veraldar.

Breivik er fífl sem á ekkert gott skilið en hann lærði aldrei að miða í tölvuleik eins og hann heldur fram. Ég leyfi mér að fullyrða það.

Gísli Sveinn Gretarsson
Höfundur er nemandi í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri.

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn18 Responses to Aðsend grein: Breivik og byssurnar

 1. Stjáni Frændi says:

  Sæll Gísli !

  Vel skrifað hjá þér eins og þú átt kyn til (he he :Þ)

  “Tölvuleikjanördar væru hættulegasta fólk veraldar.” skrifar þú Gísli, það er auðvitað rétt athugað og svo er ekki að sjálfsögðu, en nú vitum við að einn af hættulegustu mönnum sem fæðst hafa og búið í Noregi, er tölvuleikjanörd ?! hvað það segir okkur um hættulega menn, tölvuleiki og nörda almennt er ekki gott að segja að svo komnu máli.

  Að andstæðingar tölvuleikja, geti snúið þessu upp á hættuna af slíku leikjum er bara tímaspursmál, jafnvel byrjaðir á meðan við skrifum þetta, þá er bara að banna t.d. fréttaflutning af Al Qaida, hann hefur í dag gefið þá upp sem fyrirmynd að ýmsu í sínum undirbúningi, kanna má hvað hann hefur haft sér til matar ofl ofl.

  ABB segir að leikurinn hafi gefið sér vissa þjálfun, að miða og verða hittinn, er nú ekki trúlegt, það vitum við sem höfum gert hvortveggja, miðað með “mús” og með raunverulegri byssu í “real life” það er líklega annað sem hann á við en endilega “praksísinn”, frekar einhverskonar “mental” þjálfun, enda gerði hann mest lítið annað en að spila í um það bil eitt ár.

  En það þýðir lítið Gísli að fara í vörn fyrirfram fyrir tölvileikinn, taktu þá heldur þegar þeir byrja að jarma.

  KV
  Stjáni Frændi

 2. Sævar says:

  góð grein. Mig langar samt að koma með persónulega reynslu úr skotleikjum. Ég hef spilað þá marga og mikið, og ég hef lent í því, við vissar kringumstæður, að maður getur misst aðeins úr raunveruleikaskyninu í smástund eftir. Einkum þó ef að ég hlustaði á ákveðna tónlist á meðan, þá fannst mér ég vera alveg plöggaður úr raunveruleikanum, í nokkra klukkutíma eða lengur, eftir að maður hætti að spila. Þetta getur vel verið að sé einhver geðröskun sem veldur þessum áhrifum með þessa tónlist og tölvuleiki, en ef að því er blandað við viss efni,. og réttum (lesist röngum) áhrifavöldum getur útkoman vel orðið óhugnaleg.

 3. Drilli says:

  Áhugaverður pistill hjá þér, er að mörgueiti sammála þér en ég ætlaði nú bara að commenta á það, að ég var að heyra í fréttum rétt í þessu (þegar ég var einmitt að lesa greinina) að þessi umræddi hryðjuverkamaður hafi spilar World Of Worcraft i ár til að undirbua sig fyrir morðin. Eða svo segir fréttastofa ríkissjónvarpsinns. 🙂

  Það var nu ekki fleira, langaði bara að koma þessu að, þar sem mér fannst þetta eiga við, svona rétt í þessu augnarbliki.

  • Gísli S. says:

   Það er alveg rétt þetta með wow – eitthvað tengdist það því að hann hafi “verðlaunað” sig í eitt ár og spilað leikinn grimmt. Þannig hafi hann t.d. planað sprenginguna (?)
   Sjálfur kann ég ekkert á wow og hef því lítið um það að segja. Það sem sló mig var búturinn úr fréttinni sem tekinn er fram í greininni, að hann hafi lært að miða með hjálp leiksins. Í fyrsta lagi vegna þess að það minnti mig á söguna af vini mínum sem ég segi í byrjun og í síðara lagi vegna þess að líklega er þetta einföldun hjá fréttamanni. Hvort sem það er hjá mbl.is eða miðlinum þaðan sem hann tekur fréttina.
   Kannski má líta svo á að fréttaflutningur frá þessu máli sé einfaldaður gífurlega?
   Ætli það sé ekki rétt hjá honum Stjána í efsta kommentinu að hann hafi þjálfað sig “mentally” í þessu. Sýndarveruleikinn fór jú að vera veigameiri partur lífs hans í eitt ár. Hann hefur líklega ekki átt við að hann hafi lært að skjóta í leiknum, en fréttin heldur því samt fram.

   • Bjarki Þór says:

    Mér skilst að hann hafi “verðlaunað” sig með því að spila WoW í heilt ár. Aftur á móti var upphaflega staðið í fréttinni að hann hafi æft miðið með aðstoð WoW, en því var svo fljótlega breytt í CoD: MW. Mér skilst að fréttamaður Mbl hafi einfaldlega ruglast á leikjatitlum. M.ö.o. Hann spilaði WoW í heilt ár og segist hafa æft miðið í MW.
    Sorglegt að sjá fréttamennskuna varðandi tengsl tölvuleikja við ofbeldi, svo virðist vera að fjölmiðlar hreinlega þýði random erlendar fréttir án þess að athuga nánar hvort hlutirnir séu réttir eða ekki. En það er víst ansi algeng fréttamennska yfir höfuð að mér skilst.

 4. Cpt Obvious says:

  Það er ekkert mál að afla sér grunnþekkingu um meðferð skotvopna úr leikjum eins og COD, ef maður er með metnað 😛 Annars er þessi grein dáldið snemma á ferðini.. Engin umræða um tölvuleiki búin að skapast í kringum þetta

  • Bjarki Þór says:

   Það er augljóslega stór munur milli þess sem þú “lærir” í tölvuleikjum og raunveruleikans. Ég hef skotið úr raunverulegri byssu og get ekki sagt að mín margra ára FPS spilun hafi komið mér að einhverju gagni.

   Þvert á móti, ef þú hefur lesið erlenda fjölmiðla hefur heilmikil umræða skapast um tölvuleiki í kringum þetta mál; http://lmgtfy.com/?q=video+games+breivik

  • Daníel says:

   Er nokkuð viss um að ef aðili vill læra að nota skotvopn þá væri ekki fyrsta hugsunin að leita í tölvuleik.

   Fyrir utan að kynna sér efnið á heimasíðum á borð við Wikipedia eða spjallborð fyrir skotvopnaáhugamenn er nokkuð augljósari leið heldur en að hoppa í skotleik.

 5. addi says:

  Ef tölvuleikir endurspegluðu sig í alvörunni þá væri helmingur fólks á facebook bóndar.

 6. Romuald says:

  er ekki hægt að senda mail til mbl og benda þeim á að vera ekki svona vitlausir ?

 7. Óli says:

  Gott og vel að taka upp hanskann fyrir tölvuleikina… rannsóknir hafa hins vegar ekki sýnt fram á tengsl ofbeldis og tölvuleikja (hjá strákum) en hafa hins vegar sýnt fram á að á meðan ofbeldisverk fara fram (yfirleitt slagsmál og þess háttar ofbeldi) að þá eru tölvuleikjaspilarar bara heima að spila tölvuleiki. En það er algjör óþarfi að verja tölvuleikina því fólk með hálfa örðu af viti í kollinum veit það að tölvuleikir og ofbeldismyndir tilheyra nútímanum og geta engan veginn útskýrt ofbeldi eða fjöldamorð sem gerðust fyrir 20+ árum.

  • Bjarki Þór says:

   Vandamálið er einmitt að fólk sem spilar ekki tölvuleiki þekkir þá ekki, og áttar sig ekki á því að það er munur á því að spila leik en að gera eitthvað í raunveruleikanum. Ég myndi aldrei drepa biskup í raunveruleikanum – en það myndi hiklaust gera það í skák.

 8. Pingback: Tölvuleikir breyta þér ekki í skrímsli | Nörd Norðursins

 9. Pingback: IGI hittingur 7. júní – Umfjöllun um tölvuleiki í fjölmiðlum | Nörd Norðursins

Skildu eftir svar

Efst upp ↑