Bíó og TV

Birt þann 2. mars, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

1

Kvikmyndarýni: Legend (1985)

Rennum aðeins yfir þetta: Ridley Scott sat í leikstjórastólnum, Tom Cruise fór með aðalhlutverkið, Tim ‘aðalkarrýið‘ Curry lék illskuna uppmálaða og Jerry Goldsmith samdi tónlistina. Myndin er stútfull af tæknibrellum og glæsilegum leikmyndum, og orðrómar segja að hún hafi haft mikil áhrif á útlit og persónur Zelda-tölvuleikjanna.

En af hverju ætli myndin hafi gleymst , jafnvel meðal fantasíuaðdáenda?

Að hluta til er það vegna áratugarins sem myndin tilheyrir, enda var upphaflegu tónlist Goldsmiths skipt út fyrir stef sem samin voru af Tangerine Dream til að höfða til yngri áhorfenda á þeim tíma. Tónlistin, útlitið, og persónur myndarinnar er auðveldlega hægt að tengja við níunda áratuginn og myndin fylgir ÖLLUM klisjum sem fylgdu fantasíusprengjunni á þeim tíma. Það er einnig vegna Ridley Scott, sem var augljóslega ekki á sama blaði og handritshöfundur myndarinnar – handritið er einfalt og uppbyggt í líkingu við Star Wars. Ég tel það líklegt að hún hafi átt að vera stjörnustríð fantasíugeirans í huga höfundarins, en Ridley virðist hafa sóst eftir því að gera táknræna epíska alegoríu um baráttu mismunandi hugmyndafræða.

Tónlistin, útlitið, og persónur myndarinnar er auðveldlega hægt að tengja við níunda áratuginn og myndin fylgir ÖLLUM klisjum sem fylgdu fantasíusprengjunni á þeim tíma.

Er þetta slæmt? Nei, ekki endilega. Draga þessi ákveðnu vandamál myndina niður? Já að hluta til, vegna þess að lokaniðurstaðan tekur sig óvart mjög alvarlega og er þess vegna mikill ostur á köflum, og jafnvel útrunninn ostur í þokkabót. Í rauninni hefði myndin ekki verið nærri því jafn áhugaverð í höndum einhvers annars en Ridley Scotts. Honum tókst mjög vel að skapa bæði Disney-legan heim og myrka andstæðu hans og nánast hver einasti rammi myndarinnar er aðdáunarvert augnakonfekt. Myndin hefur einfaldlega hærra skemmtanagildi vegna útlits hennar vegna þess að hún er mjög innihaldslaus og persónurnar eru óneitanlega tómlegar- frammistaða Cruise og Sara gerðu lítið annað en að minna á hversu óáhugaverðar persónurnar voru.

Tim Curry tyggur og eignar sér hverja senu sem hann kemur fram í með gómsætum ofleik sínum. Förðunin sem hann sportar út myndina er stórkostlega ítarleg vel hönnuð og skemmtilega öðruvísi. Aukaleikararnir standa sig betur en aðalleikararnir, en þau krydda ekki mikið upp á gamansamar persónur sínar.

Leikmyndirnar og tæknibrellurnar eru stór hluti persónuleika myndarinnar og er aðal sjarma Legend að finna þar. Að sjálfsögðu eru þessir tveir þættir ekki upp á marga fiska í samanburði við það sem við getum gert með því sama í dag. Heimur myndarinnar iðar af lífi vegna þessarra hluta.

Hún er tómur en skemmtilegur 80’s ostur sem uppfyllir væntingar hungruðustu fantasíunörda og er sjónrænt séð ógleymanleg.

Ef þú sérð myndina í sama (en myrkara) ljósi og Dark Crystal og Labyrinth munt þú að öllum líkindum meta Legend meira og skemmta þér margfallt meira yfir henni. Hún er tómur en skemmtilegur 80’s ostur sem uppfyllir væntingar hungruðustu fantasíunörda og er sjónrænt séð ógleymanleg.

Ef þið viljið vita hvora útgáfuna ég fíla betur, þá vel ég bíóútgáfuna í þágu Tangerine Dream tónlistarinnar. Í þeirri útgáfu fer maður alla leið með 80s ostinum og mér finnst einfaldlega stefin þeirra mun eftirminnilegri en Jerry Goldsmith-tónlistin.

PS: Vá hvað Tom Cruise var mikið húðaður í glimmeri!

Axel Birgir Gústavsson

Deila efni

Tögg: , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



One Response to Kvikmyndarýni: Legend (1985)

Skildu eftir svar

Efst upp ↑