Leikjanördabloggið

Birt þann 4. janúar, 2012 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

0

Hvað gerðist í desember?

LNBanner

Þegar ég byrjaði að skrifa þetta blogg í september á seinasta ári lofaði ég því upp í ermina á mér að skrifa alla vegana eina færslu á viku. Þetta loforð var greinilega brotið núna yfir hátíðirnar, þar sem fjöldinn allur af búðarferðum, fjölskylduboðum og almennum letidögum, helltu sér yfir mig eins og ég veit ekki hvað. Ég mun engu að síður reyna að halda áfram að skrifa eina færslu á viku, en það gæti brugðist endrum og sinnum, og þær gætu orðið örlítið styttri en þær hafa verið hingað til. En þó svo að ég hafi ekki skrifað mikið seinasta mánuðinn hefur samt ekki áhugi minn á gömlu tölvuleikjadrasli minnkað og hefur þó nokkuð af gersemum rekið upp í hendurnar á mér á seinustu vikum. Í þessari færslu ætla ég að fara aðeins yfir það helsta sem hefur bæst við safnið hjá mér. Undir venjulegum kringumstæðum hefði ég skrifað heila færslu um hvern og einn einasta hlut sem er hér fyrir neðan, en þar sem hlutirnir eru búnir að taka svo all svakalega fram úr mér læt ég duga að skrifa stuttlega um þá bili.

#1. Tíu NES leikir

Stuttu fyrir jól sá ég að Valdi í Geisladiskabúð Valda auglýsti á Facebook síðunni sinni að hann væri kominn með nýja sendingu af NES leikjum. Það var kalt úti þennan dag og ég var bíllaus. En þar sem ég var mjög spenntur að sjá þessa nýju sendingu gerði ég það sem ég geri ekki oft, og tók strætó niður í miðbæ. Þegar ég kom til Valda var nóg að gera. Fólk var að kaupa tölvuleiki og geisladiska, og posakerfið hjá Valda var í einhverju rugli þannig röðin færðist hægt áfram. Í mörgum búðum hefði þetta ekki þótt gott, en í Geisladiskabúð Valda er alltaf svo afslappað andrúmsloft. Led Zeppelin á fóninum, skrilljón hlutir til að skoða og Valdi sjálfur náttúrulega að spjalla við alla og reita af sér brandarana. Jólastressinu er greinilega ekki hleypt inn á Laugavegi 64.

Ég náði að benda Valda á að ég hefði áhuga á að skoða NES sendinguna hans og hann rétti mér einn kassa í einu til að gramsa í. Ég veit ekki hvaðan Valdi fær leikina sína, en þeir voru flestir ef ekki allir bandarískir og margir hverjir í frekar slöppu útlitslegu ástandi. Það voru nokkrir leikir þarna umfram þá sem ég valdi sem ég hefði tekið ef þeir hefðu litið örlítið betur út. En engu að síður náði ég að kroppa út níu leiki sem mig dauðlangaði í, þar á meðal Little Nemo Dream Master, en það er einn af mínum uppáhalds leikjum. Því miður lenti ég í því þegar ég kom heim að NES tölvan mín neitaði að spila leikina, þar með talið líka þá leiki sem ég á fyrir, þannig að hún er eitthvað biluð greyið. Ég hef því ekki ennþá fengið tækifæri til að prufa neitt af þessum leikjum, en ég ætla bráðum að opna gráa skrímslið og sjá hvort ég geti ekki lagað það eitthvað. Svo má ég ekki gleyma því að seinna í vikunni bættist við Demon Sword leikurinn sem Jakob félagi minn gaf mér í afmælisgjöf. Þannig að í desembermánuði bættust 10 NES leikir í safnið mitt, og NES tölvan mín bilaði.

#2. Sinclair Spectrum tölva

Um daginn hafði Bjarki, ritstjóri Nörd Norðursins, samband við mig með góðar fréttir. Ásgeir hjá Gamestöðinni hafði lesið færsluna mína um Sinclair Spectrum leikina sem ég fann í Góða Hirðirnum, og sá aumur á mér þar sem ég hafði enga leið til þess að prufa alla þessa leiki. Þar sem að þeir voru með Sinclair Spectrum tölvu á lager hjá sér sem hafði ekkert að gera, ákváðu þeir í Gamestöðinni að gefa mér þessa tölvu í von um að ég gæti loksins prufað eitthvað af þessum (örugglega) æðislegu leikjum sem sitja inn í skáp hjá mér og safna ryki. Ég var að sjálfsögðu himinlifandi með þessar fréttir og skellti mér niður í Gamestöðina. Þar var jólaösin greinilega byrjuð, viðskiptavinir og starfsmenn voru á þeytingi út um alla búð í ýmsum erindagjörðum. En ég náði þó tali af Ásgeiri sem náði blessunarlega að finna sér smá tíma til að koma tölvunni í hendurnar á mér og sagði mér síðan að njóta vel.

Ég hef reyndar ekki enn komist í að prufa tölvuna af þeirri einföldu ástæðu að ég hef ekki enn náð að finna mér kassettutæki til að tengja við hana. En kassettutækið er notað til þess að hlaða upp leikjunum. Ég hugsaði að það yrði nú lítið mál að redda sér einu stykki kassettutæki en það hefur reyndar reynst vera bölvað vesen. Svo virðist vera sem allir séu búnir að henda gömlu tækjunum sínum eða grafa þau niðrí geymslum. Ég vona samt að ég rambi á svona tæki fljótlega í Góða Hirðirnum, þar sem mig er farið að klæja í puttana yfir því að prufa Spectrum tölvuna, en þið megið vera viss um það lesendur góðir að þegar það gerist skrifa ég heila færslu um það. En ég vill þakka Ásgeiri og starfsmönnum Gamestöðvarinnar fyrir þessa rausnarlegu gjöf og vill í leiðinni benda á að Gamestöðin selur gamla notaða tölvuleiki, og fólk sem hefur áhuga á slíku dóti ætti hiklaust að líta til þeirra í Kringluna eða skoða úrvalið á heimasíðunni þeirra (gamlir leikir eru undir Retro flipanum).

#3. Ýmislegt úr Góða Hirðirnum

Góði Hirðirinn gefur og gefur. Ég fann slatta af hlutum í Góða Hirðirnum í desember mánuði, en ég ætla ekki að lista þá alla hér heldur aðeins það besta. En það fyrsta sem ber að nefna eru þessir sex Sega leikir sem ég fann, allir ennþá í upprunalegu kössunum og allir nema einn með meðfylgjandi upplýsingabæklingunum. Fjórir af leikjunum eru reyndar íþróttaleikir sem bæði eldast yfirleitt frekar illa og eru mjög sjaldan í miklu uppáhaldi hjá mér. En Lion King og Aladdin leikirnir eru geðveikt skemmtilegir! Ég er búinn að eiga von á Sega tölvu frá útlöndum í meira en mánuð núna (vesen og löng saga, tala um það síðar) og get núna varla beðið eftir að spila þessa tvo leiki þegar tölvan loksins kemur.

Síðan fann ég fjóra pirated Famicom leiki, allir frá NTDEC sem virðist hafa verið ráðandi pirate innflytjandinn hér á landi á tíunda áratugnum. Ég var virkilega ánægður með að fá þessa leiki því ég hef aldrei hingað til fundið Famicom leiki í Góða Hirðirnum áður, og bara örsjaldan hérna á klakanum til að byrja með. Leikirnir á hylkjunum eru Donkey Kong 3, einhver tetrisklón og Bart versus the Space Mutants. Síðan er eitt hylki þarna sem auglýsir sig fyrir að vera með fjóra leiki sem eiga að vera Adventure Island, Maze Song (?), Northern Ken (Fist of the North Star) og Waterpipe 2 (Super Mario Bros). En á hylkinu er samt bara Adventure Island! Yfirleitt þegar svona fjölleikjahylki auglýsa háar tölur utan á sér má búast við töluvert færri leikjum, það er meira að segja ekki óalgengt að hylki sem fylgja með ódýrum klónum séu merkt sem 999999-in-1, en séu síðan bara með 4-7 leikjum. En ég hef aldrei vitað til þess að hylki sem auglýsi svona lága tölu sé bara með einum leik þannig þetta er frekar sérstakt hylki að mínu mati. En líklega var bara settur vitlaus límmiði utan á hylkið þegar leikurinn var framleiddur.

Síðast en ekki síst fann ég síðan Atari klóntölvu, nákvæmlega eins og fyrsta leikjatölvan sem ég átti þegar ég var fimm ára. Ef ég man rétt þá gaf tölvan sig út fyrir það að vera með 260 innbyggða leiki, en réttari tala væri kannski 50 þar sem sömu leikirnir koma aftur og aftur fyrir með örlítið breyttu nafni. Því miður fylgdi ekki straumbreytir með tölvunni þannig að ég hef ekki heldur getað prufað þessa tölvu (glöggir lesendur ættu að greina smá munstur í skrifum mínum núna). En ég er samt sem áður rosalega ánægður með að hafa fundið þessa tölvu því gamli Atari klóninn minn er löngu týndur og því verður gaman að prufa þessa ef ég á nokkurn tíman eftir að finna straumbreyti sem gengur í hana.

Desember mánuðurinn var því mjög góður við mig þegar kemur að uppgvötunum á gömlu leikjatölvudóti. Ég mun pottþétt líta betur á þessa hluti á næstunni og skrifa meira um þá, sérstaklega Spectrum og Atari tölvuna þegar ég fæ þær til að virka. En ég læt þetta duga í bili. Ég óska ykkur lesendur góðir gleðilegs nýs árs og vonum að 2012 eigi eftir að færa mér ennþá fleiri gamla tölvuleiki.

Takk fyrir lesturinn!

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:Skildu eftir svar

Efst upp ↑