Greinar

Birt þann 3. desember, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Ofbeldi í tölvuleikjum

Lengi hefur verið deilt um hvort ofbeldi í tölvuleikjum hafi slæm áhrif á spilara þeirra og ýti undir tilhneigingu til ofbeldis. Það má flokka skoðanir manna í tvo hópa; annar heldur því fram að ofbeldisleikir ýti undir árásargirni spilara og hinn hópurinn segir engin tengsl þar á milli. Skiptar skoðanir eru um málefnið og verða báðar hliðar málsins skoðaðar í þessari grein.

Dr. Guðbjörg Hildur Kolbeins er doktor í fjölmiðlafræði og kennari við Háskóla Íslands. Í tímaritinu Uppeldi er grein frá 2004 eftir Guðbjörgu sem ber heitið „Eru tölvuleikir skaðvaldur eða saklaus skemmtun?” þar sem hún tekur fyrir ofbeldisleiki og áhrif þeirra á spilara og má fullyrða út frá greininni að Guðbjörg er andstæðingur ofbeldisleikja. Í greininni eru nefndar rannsóknir sem hafa verið gerðar og sýna fram á að tengsl milli spilun barna á slíkum tölvuleikjum og árásarhneigðar. Guðbjörg tekur aftur á móti lítið mark á danskri rannsókn þar sem kemur fram að engin tengsl séu þar á milli. Börn virðast leika sér í „ofbeldisleikjum” á borð við „löggu og bófa”, sama hvort þau spila tölvuleiki eða ekki. Guðrún telur að ofbeldistölvuleikir hafi mun verri áhrif á börn en kvikmyndir þar sem áhorfandinn hefur enga stjórn á því hvað gerist næst, ólíkt tölvuleiknum þar sem spilarinn er gerandi ofbeldisverka.

Í grein Guðbjargar vísar hún í skoðanir Dave Grossmans, sem er prófessor í sálfræðiog herfræðum og er auk þess fyrrverandi ofursti í Bandaríkjaher. Grossman er mikill andstæðingur ofbeldistölvuleikja og segir slíka leiki þjálfa ungt fólk til ofbeldisverka. Grossman tekur fram fjóra þætti sem hann telur slíka leiki kenna börnum:

  • Að þykja ofbeldi vera eðlilegur hluti af umhverfi sínu,
  • Að þykja skemmtilegt að sjá ofbeldi og dauða,
  • Að skjóta sjálfkrafa á „mannverur”, og
  • Að líta upp til þeirra sem beita ofbeldi.

(Guðbjörg Hildur Kolbeins, „Eru tölvuleikir skaðvaldur eða saklaus skemmtun?”
Uppeldi 2004 17 (3), bls. 47.)

Punktar Grossmans eru heldur öfgafullir af mati margra og gagnrýnir The Police Policy Studies Council (PPSC) kenningar Grossmans harkalega þar sem milljónir manna spila ofbeldisleiki án þess að sýna fram á ofbeldisfulla hegðun.

Grossman og Guðbjörg eru meðal margra sem gagnrýna ofbeldisleiki harkalega, og þá sérstaklega leiki á borð við Grand Theft Auto (GTA) leikjaseríuna, sem margir telja vera ein sú grófasta í tölvuleikjasögunni. Í GTA IV er grafík leiksins orðin ansi raunveruleg, og geta spilarar drepið nánast hvern sem er í leiknum. Vopnaúrval leiksins er gífurlegt, þar sem spilarinn getur m.a. valið milli skammbyssu, haglabyssu, riffils, eldvörpu og handsprengja. Megin þema leiksins er í einfölduðu máli; að drepa fólk og keyra um á stolnum bílum. GTA IV er einn vinsælasti tölvuleikur allra tíma og var hann fljótt uppseldur hér á landi þegar hann kom í verslanir í lok apríl 2008. Leikurinn hefur verið mjög umdeildur vegna ofbeldis en hann byggist aðallega á hegðun og ákvörðunum spilarans (t.d. ef spilarinn skýtur saklaust fólk þá reynir lögreglan að handsama hann, en ef spilarinn fer eftir lögum er hann eins og hver annar bæjarbúi). Spilun leiksins er mjög opin og má segja að spilarinn skapi umhverfi leiksins.

Einn helsti andstæðingur GTA-seríunnar er lögfræðingurinn Jack Thompson. Hann kennir ofbeldistölvuleikjum um marga ofbeldisglæpi (þar á meðal skotárásir í skólum) og segir hann að leikjaframleiðendur eigi að axla ábyrgð á verkum sínum (tölvuleikjunum). Ef miðað er við hve gróft ofbeldisefni er hægt að nálgast í gegnum aðra miðla (t.d. internet,sjónvarp og kvikmyndir), er varla hægt að gera undantekningu á tölvuleikjum með því að banna ofbeldisleiki. Leikurinn er alls ekki ætlaður börnum og er það á ábyrgð forráðarmanna og söluaðila að slíkir leikir, líkt og GTA IV, komist ekki í hendur þeirra sem ekki hafa aldur til.

Lítið vit er í að ásaka ofbeldistölvuleiki, eitthvað dýpra hlýtur að búa að baki, t.d.sálfræðilegir örðuleikar einstaklinga. Undir þetta tekur dómari í einu af þeim málum sem Jack Thompson ásakaði ofbeldisleiki á borð við Doom, Quake og Resident Evil fyrir að hafa fengið14 ára gamlan nemanda til að hefja skotárás á saklausa borgara. Þó ekki finnist bein tengsl milli ofbeldisleikja og ofbeldishegðunar, þá eru slíkir leikir bannaðir börnum (þ.á.m. á Íslandi). Það er algjörlega á ábyrgð forráðamanna að halda börnum frá ofbeldisefni, sama í hverskonar miðli það birtist, samkvæmt Barnaverndarlögum sem tókugildi 1. júní 2002:

94. gr. – Skyldur foreldra og forráðamanna.

Foreldrar eða forráðamenn barna skulu sjá til þess að börn hlíti ákvæðum þessa kafla um útivistartíma, þátttöku í sýningum og skemmtunum og fyrirsætu- og fegurðarsamkeppni og virði aldursmörk og annað í því sambandi. Þeim ber jafnframt, eftir því sem í þeirra valdi er, að vernda börn gegn ofbeldis- og klámefni eða öðru slíku efni, m.a. með því að koma í veg fyrir aðgang þeirra að því.

Það á ekki að vefjast fyrir fólki að sumir tölvuleikir eru bannaðir börnum eða innihalda ofbeldisfullt efni þar sem merkingar tölvuleikja eru áberandi á leikjahulstrum. Við þetta má bæta að nýverið (2008-2009) tóku gildi lög sem kveða á um aukið eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum.

 

PEGI merkingar á tölvuleikjum vara neytendur við innihaldinu.


Söluaðilar ofbeldisefnis (tölvuleikja, kvikmynda, o.s.frv.) hafa bætt eftirlit í verslunum sínum, sem gerir börnum erfiðara að nálgast ofbeldisefni nema í fylgd með foreldra eða forráðarmanni. Talsmenn tölvuleikjaiðnaðarins, The Entertainment Software Association (ESA), benda á að flestir foreldrar eru meðvitaðir um hverskonar tölvuleiki börnin þeirra spila. Þeir benda einnig á að ofbeldisleikir eru spilaðir víða og ekkert samhengi vera milli glæpatíðni og spilun ofbeldistölvuleikja, og frekar eigi að rannsaka þætti sem gætu verið orsakir ofbeldisverka. Surgeon General of the United States, the Washington State Department of Health og ástralska ríkisstjórnin eru meðal þeirra sem hafa tekið undir þessi orð ESA.

Atli Viðar Bragason og Elsa Kristjánsdóttir taka undir neikvæð áhrif ofbeldisleikja í lokaritgerð sinni í sálfræði, „Tölvuleikjaspilun og kvikmyndaáhorf framhaldsskólanema: viðhorf til ofbeldis og persónuleikaeinkenni.” Þar kemur fram að spilun ofbeldisleikja ýti undir jákvæðara viðhorfs til ofbeldis, auk þess sem spilarar slíkra leikja sýni frekar andfélagslega hegðun. En er rétt að saka tölvuleiki um slíka hegðun? Það má spyrja sig hvort einstaklingar hafi sýnt slíka hegðun áður en þeir byrjuðu að spila ofbeldistölvuleiki. Eins og bent er réttilega á í ritgerð Atla og Elsu þá skortir langtímarannsóknir á þessu sviði, aftur á móti hafa mun fleiri og nákvæmari rannsóknir verið gerðar á kvikmyndaáhorf, m.a. áhorf ofbeldismynda. Jafnvel eru til dæmi um að gerendur hafi framkvæmt sama ofbeldisverknað og þeir sáu í kvikmynd. Það er óhætt að segja að slíkan ofbeldisverknað myndi gerandinn ólíklega fremja ef hann hefði ekki séð tiltekið ofbeldisatriði í kvikmynd, en aftur á móti má spyrja sig hvort sá hinn sami myndi fremja annarskonar ofbeldisglæp í staðinn?

Það er áhugavert að í óformlegri skoðanakönnun sem ég stóð fyrir 2008 sem var gerð meðaltölvuleikjaspilara hér á Íslandi kemur fram að einungis tveir af 175 þátttakendum skilgreina sig sem ofbeldisfulla. Bent hefur verið á að þeir sem spila ofbeldisleiki eigi það til að sýna frekar árásargirni en aðrir, auk þess gengur þeim ver í skóla og fremja frekar afbrot. Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar benda vissulega á að tengsl séu á milli þessara vandamála og spilun ofbeldisleikja en ekki hefur verið sýnt fram á hvort ofbeldisleikir hafa þessi áhrif á börn og aðra. Dæmið gæti litið öðruvísi út; þeir einstaklingar sem eru árásargjarnir og gengur illa í skóla sækjast frekar í ofbeldisleiki en aðrir. Einnig getur verið að þeir sem sækjast í mikla örvun eða gengur illa í skóla sýni frekar árásargirni og sækjast í ofbeldisfullt efni. Þannig má spyrja sig hvort slakar einkunnir í skóla fái menn frekar til að fá aukinn áhuga á tölvuleikjaspilun, frekar en að tölvuleikir ýti undir slakar einkunnir hjá þeim sem spilatölvuleiki?

Dr. Jeffrey Goldstein, prófessor hjá Háskólanum í Utrecht, hefur m.a. rannsakað áhrif ofbeldisleikja. Jeffrey bendir á að krakkar gera greinamun á raunverulegu ofbeldi og ofbeldi í tölvuleikjum. Ofbeldi í tölvuleikjum er ekki notað til að fegra ofbeldi, heldur til að ýta undir ákveðin áhrif hjá spilara leiksins, t.d. spennu eða hroll. Sama aðferð er notuð í kvikmyndum í nákvæmlega sama tilgangi og í ofbeldistölvuleikjum.

Vinsældir ofbeldisleikja má rekja til þess að strákar spila frekar tölvuleiki en stelpur og sækjast þeir frekar í spennu. Þegar börn og unglingar horfa á ofbeldi í tölvuleikjum gera þau sér grein fyrir því að um tölvuleik er að ræða en ekki raunveruleika. Jeffrey bendir á könnun þar sem segir að mun fleiri þykir ofbeldi í kvikmyndum vera raunverulegra og ógeðfelldara en í tölvuleikjum, þetta fær spilara ofbeldisleikja enn frekar til að skilja muninn á raunveruleik og tölvuleik.

Að lokum má benda á að fjölmiðlar eiga sinn þátt í að sverta ímynd tölvuleikja þar sem þeir gleypa reglulega í sig efni án frekari rannsókna. Þetta mátti meðal annars sjá í framhaldi fjöldamorðanna í Noregi fyrr á þessu ári þar sem þó nokkuð var fjallað um tölvuleikjaspilun ódæðismannsins – og var jafnvel um tíma talað um að banna sölu á tölvuleikjum á borð við Call of Duty: Modern Warfare 2 vegna þessa.

Bjarki Þór Jónsson

Heimildir:

Hluti úr BA ritgerð í sagnfræði; Nörd norðursins eftir Bjarka Þór Jónsson, 2009.

Atli Viðar Bragason og Elsa Kristjánsdóttir, Tölvuleikjaspilun og kvikmyndaáhorf framhaldsskólanema: viðhorf [BA-ritgerð í sálfræði], 2004.

Goldstein, Jeffrey, „Violent Video Games”. Handbook of Computer Game Studies, 2005.

Guðbjörg Hildur Kolbeins, „Eru tölvuleikir skaðvaldur eða saklaus skemmtun?” Uppeldi 2004 17 (3).

The Police Policy Studies Council (PPSC), „The Dave Grossman Debate”. <www.theppsc.org/Grossman/Main-R.htm>, sótt 01.12.2011.

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑