Bíó og TV

Birt þann 19. janúar, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Bestu tölvuleikjatilvísanir í kvikmyndum

Í rauninni væri auðveldara að setja saman lista yfir verstu tölvuleikjatilvísanirnar í Hollywood þar sem augljóst er að menn þar hafa lengi haft lítið álit á tölvuleikjum. Í dag eru kvikmyndir hins vegar byrjaðar að virða miðilinn meira þökk sé þeim sem ólust upp með klassískum tölvuleikjum og hafa brotið sér leið inn í bransann – annars væru myndir á borð við Scott Pilgrim Vs. The World ekki til.

Gott er samt að verðlauna raunverulega metnaðinn sem sumar myndir sína þessum ákveðna skemmtanamiðli og til þess er þessi listi gerður. Það er kominn tími til að heiðra bestu tölvuleikjatilvísanirnar í kvikmyndum (hingað til):

 

Skrítnasta tilvísunin: Ghostbuster  2 – NES Advantage

Ég varð að hafa eina einkennilega tilnefningu, en Ghostbusters 2 treður inn NES Advantage  fjarstýringunni á skrítinn hátt: Draugabanarnir nota þessa ákveðnu fjarstýringu til þess að stjórna frelsisstyttunni um miðbæ New York borgar. Það er eitthvað svo óendanlega furðulegt við það að Nintendo-vara sé notuð til að stýra einum þekktasta minnisvarða Bandaríkjasögunnar og það sem telst vera þjóðartákn Bandaríkjanna í augum flestra New York-búa. Er Nintendo að gera sig stóra í augum Kananna kanski?

 

5. The Wizard – Super Mario 3

Á tíma þar sem eina leiðin til að sjá nýja spilun úr óútgefnum tölvuleik var í gegnum sjónvarp eða skjáskot í Nintendo Power-blöðunum tók kvikmyndin The Wizard hugmyndina á hærra plan þar sem afhjúpun eins eftirvæntasta leiks þess tíma, Super Mario 3, var einn stærsti sölupunktur myndarinnar.

Leikurinn var heimsfrumsýndur í kvikmyndinni þar sem persónurnar kepptust til sigurs í lokin, þar komu jafnvel fram ýmiss svindl og brögð sem mörgum hefði ekki dottið í hug fyrr en löngu eftir útkomu leiksins. Fyrir flesta krakka og spilara á þessum tíma var þetta ástæðan fyrir því að fara á myndina- ein stór auglýsing fyrir það sem síðar varð að einum söluhæsta tölvuleik allra tíma.

 

4. City Hunter – Street Fighter

Það er einungis til ein ásættanleg Street Fighter mynd, en það er japanska teiknimyndin Street Fighter 2: The Animated Movie. Ég hef lúmskt gaman af Street Fighter: The Movie og fannst Street Fighter: The Legend of Chun Li algjört miðjumoð. En tilvísanir í þessa langlífu tölvuleikjaseríu enda ekki þar, heldur er að finna ansi skemmtilega senu í myndinni City Hunter þar sem persóna Jackie Chans sér umheiminn í nokkrar mínútur eins og að persónurnar séu Street Fighter persónur.

Sjálfur fer Jackie í gervi E. Honda, Guile og að lokum sem Chun Li (hehe) þegar hann berst við Ken. Og fyrir þá sem eru algjörir Street Fighter-aðdáendur ættu þeir að leita uppi kvikmyndina Future Cops frá sama leikstjóra, en það er fyrsta leikna kvikmyndin þar sem Street Fighter persónur koma fram.

 

3. Tron – Tölvuleikjaspilun áttunda og níunda áratugarins

Í raun virkar heimurinn í Tron eins og framtíðarsýn níunda áratugarins á hvernig netfjölspilunarleikir myndu líta út löngu áður en þeir urðu að veruleika. Þar sem spilarar geta ráfað um, átt samskipti við aðra spilara og óspilanlegum persónum og þurfa leysa þrautir og leiki inná milli til þess að ná takmarki sínu. Tron er þó í raun ein stór tilvísun í tölvuleikjahönnun og spilasali áttunda og níunda áratugarins. Myndin varð einnig til þess að leikir voru gerðir eftir myndinni og eru enn spilaðir á netinu í dag – þetta má sko kalla sigur í sambandi tölvuleikja og kvikmynda.

 

2. Scott Pilgrim Vs. The World – Earthbound

Ég ætla að viðurkenna að ég er í algjörum minnihluta  í umræðum um Scott Pilgrim Vs. The World, þar sem mér líkaði ekki myndin. Að mínu mati er hún troðin, inniheldur einhverja verstu one-linera sem ég hef heyrt og hún er alls ekki jafn klók og margir telja hana vera. Ég skal þó viðurkenna að margar tilvísanirnar í tölvuleiki þeirrar myndar eru mjög lúmskar og ég var lengi að tengja þessa saman:

Staðurinn þar sem illmenni myndarinnar, Gideon, heldur sig á er nefndur eftir Chaos Theater úr frábæra Nintendo-leiknum Earthbound. Og það sem betra er og til að fullkomna tilvísunina þjónar staðurinn sama tilgangi og í leiknum: þar spilar hljómsveitin Runaway Five að kvöldi og nóttu til, en í myndinni er það hljómsveit Scotts, Sex Bob-omb (önnur tölvuleikjatilvísun), sem spilar þar.

 

1. Terminator 2: Judgement Day – Missile Command

Þessi tilvísun vísar nánast beint í hvað er í húfi í kvikmyndaseríunni og að örlögin séu óumflýjanleg. Missile Command er frábær þrautaleikur frá níunda áratugnum þar sem markmiðið var að forðast heimsendi í ljósi kjarnorkustríðs, en spilarinn var settur í það hlutverk að forða sex borgum frá þeim örlögum- oftar en ekki kom að því að fórnir voru óumflýjanlegar og stríðinu líkur í raun aldrei.  Leiknum líkur ekki fyrr en allar borgir hafa verið þurrkaðar út og er því markmiðið að halda út sem lengst, en það er nákvæmlega það sem fyrstu þrjár myndir Terminator seríunnar fjalla um.

Þetta á reyndar betur við um Terminator 3, en ef þetta er tekið sem framtíðarskuggi þeirrar myndar og örlaganna sem eru óumflýjanleg í seríunni, má þetta teljast snilldarleg tilvísun sem passar gjörsamlega í þemu og sögu Terminator-myndabálksins.

Einnig mæli ég með því að fólk kynni sér leikinn, sögu hans og áhrifin sem Kalda stríðið og leikurinn höfðu á höfund leiksins; aldrei hef ég heyrt um jafn listrænar ástæður fyrir tölvuleikjagerð og jafn hnitmiðaða en sérstæða samfélagsrýni í tölvuleik áður.

Axel Birgir Gústavsson

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑