Leikjanördabloggið

Birt þann 20. janúar, 2012 | Höfundur: Kristinn Ólafur Smárason

0

Hvað gerir leikjatölvur retro?

LNBanner

Þeir sem spila gamla tölvuleiki eru jafnan kallaðir retrogamers á ensku, en orðið retro gefur til kynna að verið sé að spila eitthvað sem er orðið gamalt en jafnframt klassískt. Eftir að ég fann þessa Sega Saturn leiki um daginn hef ég mikið verið að velta því fyrir hvað gerir tölvu eða tölvuleik retro? Samkvæmt Wikipediu þá er retro: „… a culturally outdated or aged style, trend, mode, or fashion, from the overall postmodern past, that has since that time become functionally or superficially the norm once again.“ Ég veit ekki alveg með seinustu setninguna í þessari skilgreiningu. Hún á alla vegana ekki við retrogaming að mínu mati, enda hef ég ekki séð nýjar leikjatölvur grípa til þess að gefa út leiki á hylkjum aftur eða snúa við þróuninni frá þráðlausum fjarstýringum yfir í snúrufjarstýringar.

 Ég hef mínar hugmyndir um hvað gerir tölvur og þeirra fylgihluti retro, en ég byggi það álit algerlega á minni skoðun og það þurfa ekki allir að vera sammála því. En þeir eiginleikar sem retrotölvur búa yfir að mínu mati eru eftirfarandi:

  1. Tölvan er alla vegana tveggja leikjatölvukynslóða gömul. Tölvurnar sem eru í gangi í dag eru að sjálfsögðu nýja kynslóðin og tölvurnar sem voru þar á undan eru bara gamla kynslóðin. Allt sem kemur þar á undan hefur möguleika á að vera retro.
  2. Tölvuleikirnir fyrir tölvuna eru á leikjahylkjum, diskettum, kassettum, eða einhverjum öðrum miðli en er normið í dag sem eru geisladiskar, DVD og BluRay (svo ekki sé minnst á stafrænar leikjaútgáfur).
  3. Tölvuleikirnir fyrir tölvuna eru í tvídídd. Leikir geta samt verið í þrívídd ef um er að ræða notkun á vector graphics eða svokallaða gerviþrívídd sem er í raun tvívídd.
  4. Öllum uppfærslum og stuðning við tölvuna hefur verið hætt af framleiðenda eða umboðsaðila tölvunnar. Það er ekki lengur hægt að kaupa nýja hluti fyrir hana nema um sé að ræða klónframleiðslu eða gamla hluti sem hafa gleymst í geymslu.

Þessar skilgreiningar mínar eru byggðar á minni tilfinningu fyrir því hvað retro tölvuleikir og tölvur eiga að vera, og ná þær allar yfir fjórðu kynslóð leikjatölvna og þær kynslóðir sem koma á undan. En þessi skilgreining býður upp á visst vandamál þegar kemur að fimmtu kynslóð leikjatölvna. Leikjatölvurnar sem tilheyra fimmtu kynslóðinni eru; Sega Saturn, Panasonic 3DO, Sony Playstation, Nintendo 64 og Atari Jaguar. Allar tölvurnar falla undir fyrstu og fjórðu skilgreinguna, en þegar kemur að skilgreiningu tvö og þrjú vandast málið. Aðeins tvær af þessum fimm tölvum notuðust ekki við geisladiska sem leikjamiðil, en það voru Nintendo 64 og Atari Jaguar. Allar tölvurnar buðu hins vegar upp á leiki í sannri þrívídd, en þó mis mikið. Þannig að mikið af fimmtu kynslóðinni eru alveg á mörkunum (samkvæmt mínu mati) með að vera gullstimplaðar retro tölvur.

Er hægt að segja að leikjatölvur séu mis mikið retro, eða er þetta spurning um að vera retro eða vera ekki retro. Ég er samt dáldið ósamkvæmur sjálfum mér, því mér finnst Sega Saturn, Panasonic 3DO og Atari Jaguar vera miklu meiri retro tölvur en Nintendo 64 og Playstation. En það hefur örugglega mikið með það að gera að þessar þrjár tölvur voru ekki næstum jafn vinsælar og hinar tvær, og það að þessi fyrirtæki eru ekki að framleiða leikjatölvur í dag. Að því leyti finnst mér eins og Dreamcast tölvan eigi að hafa sess meðal retro leikjatölvna, en samt uppfyllir hún ekki einu sinni fyrsta skilyrðið sem ég sjálfur set upp, enda af sömu kynslóð og Playstation 2 og Xbox.

Svo er það líka söfnunargildið. Sjálfsagt hefur það minnst með þessar pælingar að gera, en hlutir sem eru sjaldgæfir eða óalgengir eru einhvern veginn meira retro í mínum huga. Þegar til dæmis NES og Mega Drive tölvurnar voru hvað vinsælastar hérna á Íslandi, þá geri ég ráð fyrir að þær hafi yfirleitt verið keyptar af foreldrum fyrir krakkanna sína. En í dag með aukinni neyslumenningu og uppkominni kynslóð af fullorðnum tölvuleikjaspilurum þá eru tölvurnar meira keyptar af spilurunum sjálfum. Þeir halda þá jafnan lengur utan um tölvurnar eða koma þeim til annara í gegnum sölusíður á netinu (Ég mana ykkur til að fara á Bland.is og leita að „PS2“). En gömlu NES tölvurnar hafa eflaust endað í geymslu og síðan á haugunum eftir að ungarnir voru flognir úr hreiðrinu, enda þá frekar en í dag verið álitnar sem bara enn eitt raftækið sem hafði ekki tilgang lengur, eins og gamalt 14″ túbusjónvarp, vídjótæki eða útvarp án geislaspilara.

Ég hugsa að eftir nokkur ár þegar áttunda kynslóð leikjatölvna er komin út, eigi krakkar sem ólust upp með sjöundu kynslóðinni (PS3/Xbox 360/Wii) og sáu kannski rétt svo í rassgatið á sjöttu kynslóðinni (PS2/Dreamcast/Xbox/GameCube) eftir að líta á sjöttu kynslóðina sem retro tölvur. Atari, NES, Mega Drive og tölvur af fjórðu kynslóð og neðar verða þá jafnvel álitnar sem forngripir frekar en eitthvað sem er retro. svona svipað og ég horfi á gömlu Pong tölvurnar frá áttunda áratugnum. Ég efa samt að ég eigi nokkurn tíman eftir að geta litið á til dæmis Playstation 2 sem retrovél, enda átti annar hver maður svona tölvu og svo er til svo mikið af þessu að söfnunargildið er nánast ekkert (enn sem komið er).

Það er samt greinilega ekki neitt eitt rétt í hvað er retro og hvað ekki, enda allt frekar huglægt og fer eftir nostalgíuviðmiðum hvers og eins. En ef einhver hefur álit á þessum hugleiðingum mínum þá hefði ég gaman af að heyra það.

Takk fyrir lesturinn!

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:



Skildu eftir svar

Efst upp ↑