Leikjarýni

Birt þann 25. nóvember, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Leikjarýni: Bioshock 2

Þegar buddan tekur að léttast þurfa leikjanördarnir stundum að sækja í eitthvað gamalt og gott sem hefur fallið í verði eða sem hægt er að gera skipti á. Það góða er að þrátt fyrir að grafíkin og tæknin á bak við leikina hafi tekið stökk á sumum sviðum (t.d. andlit í LA Noire) þá eru margir leikir ennþá mjög frambærilegir þrátt fyrir að  þeir séu orðnir 1-4 ára gamlir. Sérstaklega núna þegar PS3 og Xbox360 eru að fara á eftirlaun bráðlega. Þetta er semsagt ný gagnrýni fyrir nýspilaðan gamlan leik sem tekur mið af því hvað þykir flott og gott í dag. Hugsanlega koma fleiri svona gagnrýnisgreinar í framtíðinni.

Smá upprifjun á Bioshock leikjunum: Bioshock kom út í ágúst 2007, Bioshock 2 kom út í febrúar 2010 (svo hann er ekki svo gamall) og Bioshock Infinite sem margir eru spenntir fyrir, þ.á.m. ég, hefur ekki enn fengið útgáfudag en við fáum að vita meira á næsta ári. Þangað til mæli ég með 15 mínútna leiklingnum (demo) sem var á E3 2011.

Ég verð að játa það að Bioshock serían er í miklu uppáhaldi hjá mér, ég spilaði fyrsta leikinn á Xbox 360 og kláraði öll afrekin (achievements). Þennan leik spilaði ég á PS3.

Bioshock 2 gerist 10 árum eftir atburði fyrsta leiksins og fyrir þá sem þekkja ekki til seríunnar þá byggir Bioshock heimurinn mikið á stemningu og umgjörð fimmta áratugsins í Bandaríkjunum þ.e.a.s. léttri tónlist og dans og gleði eftirstríðsáranna. En í staðinn fyrir að setja spilarann í þetta umhverfi þegar gleðin var sem mest, fær hann timburmennina; fyrrum Útópíu, neðansjávarborg sem var byggð á stórum draumum en er nú fallin spilaborg. Þetta er dáldið eins og myndin The Shining, staður sem á sér glæsilega sögu sem Jack hverfur stundum til þegar hann missir vitið smátt og smátt, en er í raun aðeins afskekkt hótel í nútímanum.

Bæði Bioshock og Bioshock 2 gerast í sama umhverfi, neðansjávarborginni Rapture. Smátt og smátt er fyllt í eyðurnar varðandi hvað hefur gerst á þessum 10 árum, aðallega í gegnum hljóðsnældur (audiotapes) sem spilarinn finnur á víð og dreif. Á þessum snældum heyrir maður í Andrew Ryan, stofnanda borgarinnar, og fleiri persónum og gefur það leiknum draugalegan brag, líkt og maður sé að heyra bergmál frá fortíðinni.

Í raun hefur ofsatrúarleiðtoginn Sofia Lamb tekið við af Andrew Ryan sem aðal „vondi kallinn“. Hún er sjálf að missa tökin en neitar að horfast í augu við það og áhangendur hennar ganga um og ráðast á allt og alla. Vegna þess hve umhverfi leikjanna er líkt er hætt við að þeim sem spiluðu Bioshock gætu fundist þeir hafa verið þarna áður, umhverfið sjálft er það sama en grafíkin og annað er orðið betra (t.d. ef þú ferð á kaf í vatni sérðu vatnið renna niður hjálminn sem þú horfir í gegnum).

Í þessari föllnu borg spila eiturlyf stóra rollu en þau kallast ADAM og gefa neytandanum möguleika á alls kyns yfirnáttúrulegum hæfileikum en hafa hina óþægilegu hliðarverkun að gera mann vitstola. En það er ekki þitt vandamál sem söguhetju vegna þess að þú ert svokallaður „Stóri Pabbi“ eða „Big Daddy“ sem eru verndarar „Little sisters“;  barnsungra stúlkna sem geta safnað ADAM úr líkum fólks með stórri nál. Stórir pabbar eru hálfgerðir uppvakningar þ.e.a.s. fyrrum mennskir en erfðafræðilega stökkbreyttir, í sérhönnuðum búningum sem eru vatnsheldir og með stóran bor í stað hægri handar.

Ef þér finnst ofangreind lýsing frekar drungaleg þá er það ekki skrýtið en þetta versnar. Þrátt fyrir að þú sem Stóri Pabbi sért verndari Litlu Systur þá er bara ein Litla Systir sem þú tengist og takmark leikjarins er að finna hana. Öllum öðrum Litlu Systrum getur þú annað hvort bjargað eða hreinlega drepið (kallað harvested í leiknum) fyrir ADAM þannig að upp koma siðferðislegar klemmur í leiknum. Munurinn á milli góðs og ills er nær enginn og það er eitt aðalsmerki Bioshock seríunnar.

ADAM er, eins og áður sagði, notað til að kaupa yfirnáttúrulega hæfileika (eitthvað sem myndi kallast galdrar í öðrum leikjum en er kallað PLASMIDS í Bioshock heiminum) eins og að geta skotið eldkúlum, eldingum, froststraumum, býflugnagerum sem leita að óvinum (mitt uppáhald), lagt gildrur og fleira. Síðan getur þú bætt þessa galdra þannig að þeir fá ýmsar aukaverkanir t.d. elding leiðir í hóp af óvinum eða að geta gert sérhæfðar gildrur. Einnig geturðu notað alls kyns hefðbundin vopn og eitt aðalsmerki Bioshock seríunnar hefur verið sú að nota vopn og galdra strategískt. Gott dæmi er að ef óvinir eru ofaní vatni þá skýturðu eldingu í vatnið fyrir smá grillveislu. Einnig er hægt að frysta óvinina og svo lemja í þá með bornum til að búa til ísklumpa út í drykk að þínu vali. Fyrir vana spilara mæli ég með að stilla á hæsta erfiðleikastig; leikurinn er frekar auðveldur annars og það er fátt skemmtilegra í leiknum en að skipuleggja erfiða bardaga fram tímann, leggja niður gildrur, snúa óvinum á móti hvor öðrum úr laumi osfrv. Í leiknum ráðast oft margir óvinir að þér (eða litlu systurinni sem þú verndar) og þá borgar sig að vera tilbúinn (leikurinn gefur þér tækifæri á því.)

Bioshock 2 hefur fjölspilunarhluta (multiplayer) ólíkt forrennaranum. Vanalega í svona leikjum er fjölspilun bætt við án mikillar umhugsunar en í þessum leik kemur á óvart hversu skemmtileg og úthugsuð fjölspilunin er. Eftir því sem þú spilar meira styrkist karakterinn þinn og þú hefur úr meiru að moða. Einnig eru borðin vel gerð og stundum fær einhver keppendana möguleika á að vera Stóri Pabbi og þá reyna allir að ná honum niður þar sem hann getur gert stórskaða á stuttum tíma. Fyrir þá sem hafa áhuga á að ná öllum afrekunum á Xbox360 eða bikurum (trophies) á PS3 þá er fjölspilunin tímafrekasti hlutinn.

Greinarhöfundur prófaði tvisvar að komast í fjölspilunarleik, í fyrra skiptið fann ég engan til að keppa við en í annað skiptið náðist fullur hópur. Semsagt það er ekki hægt að stóla á að geta alltaf komist í leik en það er ekki vonlaust þrátt fyrir aldur leiksins. Hugsanlega mun fólk spila hann eitthvað áfram þar til Bioshock Infinite kemur út.

Hér er á ferðinni einstakur FPS sem er ólíkur öllum öðrum leikjum. Grafíkin og umhverfið er mjög vel gert, hljóð og tónlist einnig, endingin er í meðallagi og spilunin frábær. Núna fæst þessi leikur frekar ódýr og er vel þess virði, þá sérstaklega fyrir þá sem hafa ekki spilað fyrsta leikinn.

Einkunn: 8,5

Steinar Logi

Deila efni

Tögg: , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnSkildu eftir svar

Efst upp ↑