Fréttir

Birt þann 17. ágúst, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

1

E3 2011: Sony

Hin árlega tölvuleikja- og leikjatölvusýning E3 (Electronic Entertainment Expo) var 7. – 9. júní síðastliðinn. Sýningin er ein sú stærsta sinnar tegundar og úr mörgu að velja. Hér höfum við tekið saman það helsta sem kom úr kynningunum frá leikjatölvu- og tölvuleikjarisunum þrem; Microsoft, Nintendo og Sony.

 

SONY

Stór hluti af kynningu Sony fjallaði um nýju handheldu leikjavélina frá þeim; PlayStation Vita. En auk þess var sýnt sýnishorn úr væntanlegum leikjum í PlayStation og lögð áhersla á framtíð þrívíddarsjónvarpa og möguleika PlayStation Move. Hilmar Pétursson framkvæmdastjóri íslenska leikjafyrirtækisins CCP tilkynnti framtíð tölvuleiksins DUST 514.
Starfsmenn Sony byrjuðu á því að biðjast afsökunar á vandræðagangi PlayStation Network (PSN) sem lá niðri um tíma vegna árása tölvuþrjóta. Þeir þökkuðu notendum fyrir þolinmæðina og stuðninginn sem þeir hafa fundið fyrir.

 

 

NÝIR LEIKIR

Á kynningunni var sýnt brot úr spilun Uncharted 3. Leikurinn leit mjög vel út og á eflaust eftir að falla vel í kramið hjá þeim sem hafa spilað Uncharted leikina áður. Uncharted 3: Drake’s Deception er væntanlegur í PlayStation 3 í byrjun nóvember á þessu ári og mun styðja einstaklings – og fjölspilun.
Þriðji leikur Resistance seriunnar, Resistance 3, var einnig kynntur og er væntanlegur í PlayStation 3 í september. Leikurinn er framhald af fyrri leiknum og er sögutími hans árið 1957. Leikurinn mun styðja PlayStation Move og verður auk þess fáanlegur í sérstökum pakka á tilboðsverði. Pakkinn samanstendur ef leiknum, PlayStation Move, PlayStation Eye og byssu (Sharpshooter).
Körfuboltasnillingurinn Kobe Bryant var fenginn til að spila NBA 2K12 sem mun veita PlayStation Move stuðning. Einnig var sýnt úr InFamous 2 (sem er kominn út), StarHawk, Sly Cooper (2012),  Bioshock Infinite, Star Trek og Saints Row 3.

 

DUST 514

Hilmar Pétursson framkvæmdastjóri íslenska leikjafyrirtækisins CCP tilkynnti að framtíð tölvuleiksins DUST 514 yrði í samstarfi við Sony og að leikurinn yrði aðeins fáanlegur í PlayStation og mun styðja PlayStation Move að einhverju leiti.

Hilmar Pétursson framkvæmdastjóri íslenska leikjafyrirtækisins CCP tilkynnti að framtíð tölvuleiksins DUST 514 yrði í samstarfi við Sony og að leikurinn yrði aðeins fáanlegur í PlayStation

Leikurinn er fyrstu persónu skotleikur og tengist MMO (Massively Multiplayer Online) leiknum EVE Online sem er einnig frá CCP. Það eru liðin tvö ár frá því að CCP tilkynnti að DUST 514 væri í vinnslu og yrði eingöngu fyrir leikjatölvu(r). Það hefur aftur á móti ekki fengist staðfest fyrr en núna hvaða leikjatölva eða leikjatölvur yrðu fyrir valinu. Viðbrögðin á spjallborði Íslenska PlayStation samfélagsins (psx.is) voru lítil sem engin en á spjallborði Íslenska XBOX samfélagsins (xbox360.is) heyrðust nokkrar óánægju raddir og furðuðu margir sig á ákvörðun CCP að velja PlayStation frekar en Xbox 360. Aðrir skildu valið þar sem Microsoft virðast vera með ansi strangar reglur varðandi netspilun á Xbox Live.Leikurinn verður unninn í nánu samstarfi með Sony og leikurinn mun fá sérstakt Home svæði í PlayStation 3. Prufuútgáfan (Beta) af DUST 514 kemur út næsta haust og leikurinn sjálfur vorið 2012.

 

ÞRÍVÍDD

Nokkrir eldri leikir fá að skína á ný, en á kynningunni tilkynntu Sony að það væri væntanleg þrívíddarútgáfa af God of War leikjunum og einnig af tölvuleikjunum ICO og Shadow of the Colossus.

Sony leggur mikla áherslu á möguleika og framtíð þrívíddar á sviði afþreyingar. Þeir tilkynntu að innan skamms yrði fáanlegur 3D sjónvarpsskjár og 3D gleraugu á mjög sanngjörnu verði svo að sem flestir hefðu möguleika á því að nálgast þessa upplifun. Það verður jafnframt boðið upp á að spila tveggja manna leiki á sama skjánum með notkun gleraugna án þess að skipta honum í tvennt (splitscreen). Spilari númer eitt horfir á skjáinn og sér eina mynd á meðan spilari númer tvö horfir á sama sjónvarpið en sér aðra mynd. Þannig má segja að þessi eini skjár breytist í tvo með þrívíddartækninni.

 

PLAYSTATION MOVE

Aukin áhersla verður lögð á möguleikana sem hreyfistýring PlayStation Move hefur upp á að bjóða. Leikir munu í auknum mæli styðja Move með einum eða öðrum hætti. Þetta þýðir ekki að þeir sem nota hefðbundnar fjarstýringar þurfi að skipta alfarið yfir í Move, heldur munu leikir bjóða upp á að ákveðnir hlutar leiksins geti spilast með aðstoð Move. Leikir á borð við Dust 514, NBA2K12, Resistance 3, LittleBig Planet, Bioshock Infinite og Star Trek munu styðjast við PlayStation Move. Leikurinn Medieval Move spilast alfarið í gegnum Move. Leikurinn nýtir möguleika Move á fjölbreyttann hátt, en fátt nýtt er þar á ferð.

 

PLAYSTATION VITA

Sony kynnti arftaka PlayStation Portable (PSP). Nýja handhelda leikjatölvan ber nafnið PlayStation Vita (PSV) – vita þýðir líf á latínu – en leikjatölvan var áður undir heitinu Next Generation Portable (PSN). Með PSV vill Sony tengja saman leikjaspilun og samskipti vina saman í eina græju. PSV er með OLED snertiskjá, snertistýringu á bakhliðinni, tveimur stýripinnum (analog sticks), hefðbundnu aðgerðartökkunum, tvær myndavélar (eina framan á og önnur aftan á) og öflugri en PSP. Það eru yfir 80 leikjatitlar í vinnslu og meðal þeirra eru; Uncharted: Golden Abyss, Ruin, Modnation Racers, Street Fighter X Tekken, LittleBig Planet og fleiri.

 

 

 

Leikjatölvan getur tengst PlayStation 3 (PS3) og geta meðal annars átta spilarar spilað saman í gegnum netið – í gegnum PSV og PS3. Í tölvuleiknum Ruin getur spilarinn spilað leikinn í PSV og haldið svo áfram að spila hann í PS3 og öfugt. Það er að segja tölvurnar muna hvar spilarinn var staddur í leiknum og leikurinn spilast í báðum tölvunum. PlayStation Vita kemur í verslanir um næstu jól og verður fáanleg í tveimur útgáfum; Wi-fi útgáfa sem mun kosta $249/€249 og 3G útgáfa sem kostar $299/€299. Miðað við núverandi gengi á Evrunni, íslenska tolla og önnur gjöld má gera ráð fyrir því að PSV mun kosta yfir 50.000 kr. á Íslandi.

– Bjarki Þór Jónsson

Deila efni

Tögg: , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



One Response to E3 2011: Sony

  1. Pingback: Afmælispistill | Nörd Norðursins

Skildu eftir svar

Efst upp ↑