Tölvuleikir

Birt þann 17. janúar, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

15

22 bestu leikirnir á Sinclair Spectrum 48k

Leikjatölvan ZX Spectrum verður 30 ára núna í ár. Af því tilefni ætla ég, sem gamall leikjanörd, að leyfa mér smá nostalgíu og rifja upp bestu leikina sem voru gefnir út á Sinclair Spectrum 48k á fyrri hluta áttunda áratugarins þegar tölvan var upp á sitt besta.

Að spila leikina í dag getur verið ansi pirrandi ef maður er vanur nútímaleikjum og ástæðan er tvíþætt. Sú fyrri er augljós; grafík, hljóð og stærð leikja var ekki upp á marga fiska. Í annan stað voru þeir mun erfiðari en leikir í dag þ.e.a.s. leikir voru hannaðir þannig að spilarinn drapst ótal sinnum áður en hann lærði á eitthvað borð eða leystir tiltekna þraut (sem er kannski ástæðan fyrir því að undirritaður er í dag aðdáandi leikja eins og Demon’s Souls og Dark Souls).

Að spila leikina í dag getur verið ansi pirrandi ef maður er vanur nútímaleikjum og ástæðan er tvíþætt. Sú fyrri er augljós; grafík, hljóð og stærð leikja var ekki upp á marga fiska. Í annan stað voru þeir mun erfiðari en leikir í dag…

Sinclair Spectrum eða ZX Spectrum kom út árið 1982 í Bretlandi og varð fljótlega vinsæl hér á landi. Sama ár kom Commodore 64 út í Bandaríkjunum og upphófst mikil samkeppni milli tölvanna. Amstrad leikjatölvan kom svo út tveimur árum seinna. En Spectrum virtist hafa vinninginn í vinsældum hér á landi og ein meginástæðan var sú að það var þvílíkt flóð af leikjum sem gengu manna á milli því það var einstaklega einfalt að afrita Spectrum leiki á kassettur og lítið um afritunarvarnir (copy protection).

Svo það sé á hreinu stendur k í Spectrum 48k fyrir kB. Það er hreint ótrúlegt að hugsa til þess í dag að leikirnir notuðu svo lítið vinnsluminni og talsvert hugmyndaflug hefur þurft til þess að búa þá til með þessum takmörkunum. Margar hugmyndirnar sem komu fram í þessum klassísku leikjum sjást enn þann dag í dag. Það er lygi líkast en leikir eru enn að koma út á þessa tölvu, en árið 2010 komu út 90 leikir.

Vendum okkur í upptalninguna og ef það er eitthvað hér sem vekur áhuga þá er auðvelt að finna þessa leiki á netinu og marga er einnig hægt að spila þar. Ein helsta síðan er World of Spectrum og þar er hægt að finna marga herma (emulators), upplýsingar um leikina og þar fram eftir götunum. Önnur er ZX Spectrum þar sem hægt er að spila leikina í vafra (notast við Java). Upphaflega ætlaði ég að hafa leikina í öfugri röð frá 22 til 1 en það er ómögulegt að gera upp á milli þeirra þar sem 30 ár eru liðin síðan ég spilaði þá síðast, þannig að listinn er í stafrófsröð:

 

Aliens

Það sem ég man helst frá þessum leik er að hönnuðurnir náðu algerlega hinu þrúgandi umhverfi og stemningu Alien myndanna, sem er einstakt afrek fyrir þennan tíma (ekki skemmdi fyrir að maður hafði frjótt ímyndarafl á þessum tíma). Spilarinn stjórnaði liðinu Ripley, Bishop, Vasquez og fleirum og gekk um geimskipið, opnaði dyr og skaut á Alien skrímslin og reynir að verða ekki étinn.

 

Arkanoid

Leikur sem byggir á Breakout leikjunum þar sem spilarinn er með „spaða“ sem hann hreyfir til vinstri og hægri og kúlu sem eyðir múrsteinum við snertingu. Það er heilmikill fjölbreytileiki í Arkanoid miðað við forvera hans; spaði spilarans þ.e.a.s. geimskipið getur skotið, sumir múrsteinarnir hverfa ekki fyrr en eftir margar snertingar, spilarinn getur fengið fleiri en eina kúlu o.s.frv.

 

Atic Atac

Það má segja að þetta sé einn af fyrstu Diablo leikjunum. Spilarinn velur sér wizard, knight eða serf og gengur um kastala í leit að fjársjóðum og leið út. Spilarinn missir kraft ef hann snertir eitthvað af fjölmörgu skrímslunum sem eru í kastalanum og líka smátt og smátt með tímanum, en hægt er að finna mat til að ná lífskraftinum upp. Tímamótaleikur þegar hann kom út.

 

Boulder Dash

Frumlegur leikur þar sem spilarinn er hetjan Rockford, hálfgerð mannleg moldvarpa sem grefur sig í gegnum jörðina til þess að ná fjársjóðum. Hætturnar eru stórir grjóthnullungar, skrímsli og gildrur. Ótal framhaldsleikir voru gerðir og Bomberman serían sem varð vinsæl seinna líktist þessum leik mjög.

 

Chuckie Egg

Chuckie Egg byggði á eldri pallaleikjum (platform) og þá helst Manic Miner. Spilarinn þarf að safna 12 eggjum í hverju borði áður en tíminn rennur út og leikurinn varð erfiðari og erfiðari (það voru örfáir sem kláruðu leiki eins og þessa, það var t.d. enginn vistunarmöguleiki).

 

Commando

Byggt á Arnold Schwarzenegger mynd með sama nafni. Spilarinn er málaliði sem ræðst inn á óvinasvæði með hríðskotabyssu og handsprengjur. Af hverju? Því það er það sem Arnold gerði! Í stíl við myndina slátrar spilarinn fullt af óvinum sem eins-manns-her og þeir verða erfiðari því lengra sem spilarinn kemst.

 

Deathchase

Þessi leikur er gott dæmi um það sem hægt er að gera með litlu vinnsluminni, því að þessi notaði ekki meira en 16k. Spilarinn er mótorhjólakappi sem eltist við aðra mótorhjólakappa í gegnum skóg. Ef spilarinn klessir á tré  drepst hann. Þetta er allt og sumt en þetta virkaði. Ef það er eitt orð sem lýsir þessum leik þá er það hraði eða eins og mikill spekingur sagði eitt sinn: „Hraði, ég er hraði“ (Leiftur McQueen).

 

Football Manager

Líklega fyrsti sinnar tegundar, enda gefinn út 1982. Serían hélt áfram nokkra leiki en var svo endurvakin í þeirri mynd sem þekkist núna árið 2005. Fyrir fótboltaunnendur var þetta alger snilld. Spilarinn valdi lið, keypti og seldi leikmenn, raðaði í lið, fylgdist með gróða og fékk að sjá helstu atburði hvers leiks fyrir sig í „Óla prik“ grafík. Einfalt og gott.

 

Frankie Goes to Hollywood

Öðruvísi ævintýraleikur þar sem spilarinn labbar um í borginni Liverpool, en hljómsveitin FGTH var þaðan. Takmark spilarans er að komast til Pleasuredome (plata FGTH frá 1985 hét Welcome to the Pleasuredome). Á leiðinni þarf spilarinn að komast í gegnum nokkra smáleiki (minigames) eins og morðmál sem þarf að leysa. Spilarinn þarf að ná 99% árangri í eftirfarandi „eiginleikum“: sex, war, love and faith. Ég hlustaði á nokkur gömul FGTH og þeir eru bara ansi þéttir ennþá.

 

Jetpac

Jetpac er skotleikur með pallaleiksívafi og getur spilarinn svifið um með aðstoð „jetpack“ sem hann ber á bakinu. Í hverju borði þarf spilarinn að finna eldsneyti fyrir geimflaugina sína og skjóta niður alls kyns geimverur sem ráðast á hann í hrönnum. Leikurinn snýst um stig og á þessum tíma var mikið keppt um stigamet.

 

Jetset Willy

Framhald af Manic Miner, en nú var spilarinn í nokkurs konar pallaheimi, í stað þess að þurfa að klára eitt borð (skjáfylli) til að komast á það næsta mynduðu borðin einn heim sem spilarinn gat ferðast á milli. Þetta var byltingarkennt á þessum tíma. Leikurinn var einnig þekktur fyrir það að vera fyrstur með afritunarvernd í formi heilmikils litaspjalds (sjá mynd) sem fólk dundaði sér svo við að kópera og selja sjálft. Hann var líka þekktur fyrir að vera einn af fyrstu leikjunum með mikið magn lykilorða (cheat codes) inni í leiknum sem gerði ýmsa hluti mögulega svo sem endalaus líf o.s.frv.

 

Loderunner

Svo einfalt samt svo mikil snilld. Hérna snýst allt um spilunina. Spilarinn er Óli prik fígúra sem þarf að ná í gullklumpa til að klára hvert borð fyrir sig. Allan tímann eru aðrir Óli prik að eltast við spilarann of ef þeir snerta hann þarf að byrja upp á nýtt. Borðin samanstanda af múrsteinum, stigum og línum og einstaka sinnum gildrum. Leikurinn er mjög vel úthugsaður en það sem gerði hann einstakann á sínum tíma er að maður gat búið til borð fyrir vini sína. Þetta var í fyrsta sinn sem ég hafði séð eitthvað svoleiðis og það var alveg yndislegt að skiptast á að gera djöfulleg borð og spila borð annarra.

 

Lords of Midnight / Doomdark’s Revenge

Oblivion / Skyrim síns tíma. Hlutverkaleikur þar sem spilarinn ferðaðist um stórt landsvæði og skoðaði hella, turna, þorp og fleira á ferð sinni. Að sjálfsögðu var hann takmarkaður miðað við leiki nútímans en hönnuðurnir byggðu upp áhugaverðan heim með því að láta mikið lesefni fylgja leikjunum.

 

Manic Miner

Matthew Smith var hálfgerð rokkstjarna eftir að hafa búið þennan leik til og Jet Set Willy sem voru öðruvísi pallaleikir en sést höfðu áður. Manic Miner var sá fyrsti með tónlist í leiknum sjálfum og heilmargir leikir sem komu seinna voru byggðir á honum. Skondið að hugsa til þess að sú mekaník að flýta sér yfir eitthvað svæði áður en jörðin gaf eftir og spilarinn hrapaði hafi fyrst (líklega) komið á sjónarsviðið þarna og er enn notað í dag í t.d. Uncharted leikjunum. Það er áræðanlega fullt af svona litlum spilunarfítusum sem koma frá einhverjum af þessum gömlu leikjum.

 

Maziacs

Völundarhúsleikur með hlutverkaspilsívafi. Völundarhúsið er aldrei eins í hvert sinn sem  spilaður er nýr leikur og til að leysa það þarf spilarinn að finna fjársjóð. Skrímsli eru á leiðinni og spilarinn getur fundið sverð sem hægt er að nota einu sinni. Á leiðinni finnur hann fanga sem geta lýst réttu leiðina upp í smá tíma. Einfaldur og skemmtilegur leikur.

 

Sabre Wulf / Underwurlde / Knight Lore

Fyrirtækið Ultimate Play the Game var gæðamerki í þá daga og þetta var aðalserían þeirra. Þessir leikir voru völundarhúsa-leikir og voru þekktir fyrir það að vera með góða grafík og litadýrðin var mikil. Völundarhúsaleikir voru algengir á Spectrum og oftar en ekki í 3D sem er eins og áður sagði byggðir á ísómetrísku sjónarhorni.

 

Stop the Express

Það var eitthvað mjög ferskt við þennan leik þegar hann kom út á sínum tíma. Þú varst strákur með ljóst og mikið hár (spurning hvort þetta hafi verið Cloud Strife að stimpla sig inn) sem hljópst ofan á lest og reyndir að ná fyrsta vagninum. Á meðan þarftu að flýja illmenni og beygja þig á réttum augnablikum. Einnig geturu gripið fugla og sleppt þeim á vondu kallana sem gerir það að verkum að þeir detta af lestinni. Þetta var svínslega erfitt eins og allt annað á þessum tíma en mjög skemmtilegt.

 

The Hobbit

Textaævintýri en með einni mynd í hverju borði fyrir sig sem á þessum tíma þýddi stórkostleg grafík. Textaævintýri virkuðu þannig að leikurinn stjórnaðist út frá því sem spilarinn skrifaði. Ef hann skrifar „go east“ fer hann austur, ef hann skrifar „open door“ þá opnast hurðina o.s.frv.

Það að geta verið Fróði var nóg fyrir marga upprennandi nörda. Á þessum tíma var ekki hægt að fara á netið og finna lausnina og þar að auki passaði fólk sig á að gefa ekki upp of mikið í tölvublöðum o.s.frv. Þannig að þú og vinir þínir voru stundum marga daga  að leysa einhverjar þrautir til að komast áfram í leiknum.

Setningin „Thorin sits down and sings about gold“ sást ósjaldan og varð seinna hálfgert „internet meme“ hjá þeim sem þekkja leikinn.

 

Tir Na Nog / Dun Darach

Nöfnin vísa til írskra goðsagna og þessir leikir eru ævintýraleikir eða arcade adventure eins og svo margir á þessum tíma. Þú ert Cuchulainn, og ert í raun dauð sál sem ferðast um í landinu Tir Na Nog. Leikheimurinn er mjög stór miðað við aðra á þessum tíma og fjölbreytilegur, hægt er að finna hella, ferðast í gegnum skóga og þorp osfrv. Leysa þarf margar erfiðar þrautir til að komast áfram í leiknum.
Seinni leikurinn, Dun Darach, kom út seinna en fjallar um hetjuna Cuchulainn áður en hann dó og atburðina sem leiddu til dauða hans. Semsagt mjög háfleygt efni miðað við þessa frumstæðu leikjavél.

 

T.L.L. – Tornado Low Level

Spilarinn stjórnar Tornado flugvél sem flýgur um og leitar uppi hernaðarskotmörk. Leikurinn þótti flottur að því leyti að hann var í 3D (sem þýddi ísómetrískt sjónarhorn). Spilarinn þarf að fljúga lágt til að hitta á skotmörk og passa sig að rekast ekki á byggingar og annað sem á vegi hans verður.

 

Trashman

Trashman er forveri Paperboy leikjanna sem margir ættu að kannast við. Spilarinn er ruslamaður sem er sendur í ákveðna götu til að safna ákveðnum fjölda ruslatunna og tæma úr þeim í ruslabílinn. Spilarinn getur bankað uppá hjá fólki og fengið þjórfé, hann þarf að vara sig á hundum og bílum og þar fram eftir götunum (hehe götunum).

 

Yie Ar Kung-Fu

Slagsmálaleikur og Tekken síns tíma. Spilarinn er nokkurs konar Bruce Lee og berst á móti ýmsum óvinum. Svo sem ekki mikið annað að segja en spilunin var skemmtileg og leikurinn kom út þegar Bruce Lee myndirnar voru vinsælar hjá ungum strákum.

 

 

 

 

Steinar Logi

Myndir: World of Spectrum

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



15 Responses to 22 bestu leikirnir á Sinclair Spectrum 48k

Skildu eftir svar

Efst upp ↑