Bíó og TV

Birt þann 8. maí, 2012 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: The Avengers

Þá er komið að tímamótamynd úr kvikmyndaheimi myndasagna; fyrsta víxlaða ofurhetjumyndin, en víxlun (crossover) er daglegt brauð í heimi nútíma myndasagna. Þetta hefur verið blautur draumur allra helstu kvikmynda- og myndasögunörda síðast liðin fjögur ár með heilmikla sögulega uppbyggingu, og eru stórlaxar til stuðnings bæði fyrir framan og aftan myndavélarnar. Að lokum var nördakonunginum, Joss Whedon, fenginn til að binda lokahnykkinn með stæl. The Avengers var biðarinnar virði og skilur heilmikið eftir sig, hvort sem það eru tröllvaxnar væntingar fyrir framtíð seríunnar (möguleikar Marvel eru nú óteljandi), aðdáun af litríkri og persónuríkri uppskeru, eða hversu endur áhorfanleg myndin er.

The Avengers eyðir engum tíma, hún skemmtir frá upphafi til enda án trafala. Innihaldið er ríkt af karakter, stefnu og litríkum persónum. Þið verðið glöð að vita hversu vel myndinni vegnar að staldra aldrei of stutt eða of lengi hjá ákveðnum persónum. Myndin deilir sýningartíma sínum og vægi persónanna jafnt, sem er ekkert lítið erfitt fyrir verkefni sem þetta, þar sem persónurnar eru fjölmargar og sumar hafa fengið meiri tíma til að þróast fyrir þetta þrekvirki en aðrar.

Hugsanlega það besta sem Whedon gerði með The Avengers var að veita myndinni persónutengt þema; hvað býr í þeim, hið góða og hið slæma.

Hugsanlega það besta sem Whedon gerði með The Avengers var að veita myndinni persónutengt þema; hvað býr í þeim, hið góða og hið slæma. Skuggar fortíðarinnar hrjá suma og flestir reyna að lifa með því hverjir þeir eru og því sem þeir hafa ollið í gegnum tíðina. Það er leiðinlegt að sjá hetjur sem standa sig með 100%  sæmd alla daga, þannig að The Avengers brýtur þau niður í mannfólkið á bak við ofurkraftana til að færa okkur persónurnar sem við kolféllum fyrir á síðustu fjórum árum. Hasarinn græðir heilmikið á þessu því við finnum fyrir tengingu á milli þeirra. Munurinn á  þeim sem persónur speglast vel í því hvernig þau takast á við formúlubundnu átökin sem koma fram í þriðja hluta myndarinnar.

Það er í þessum síðasta þriðjungi sem myndin fær að skína almennilega. Þar er New York-borg gerð að risavöxnum vígvelli og hasarinn er keyrður í botn. Fram að síðasta þriðjungnum fer myndin sparlega með hasarsenurnar og í smærri skömmtum svo að við verðum ekki útbrennd þegar okkur er hent í orrustuna- og hún virkar þá einnig MUN stærri fyrir vikið. Tæknibrellurnar eru frábærar, en á köflum finnst mér þær vera á of miklu iði þannig að ég get illa greint hvað sé að gerast, þetta er einn af helstu veikleikum Whedons eins og sést m.a. í síðustu kvikmynd kappans, hinni feikigóðu Serenity.

Allir leikararnir bera fram sína bestu takta í hlutverkunum sem hafa gert flest þeirra að nöfnum sem heimurinn kannast vel við. En það er nýliði seríunnar, Mark Ruffalo, sem Bruce Banner og græni hlunkurinn sem stelur gjörsamlega senunni og sannar að hann á heima í þessum stjörnuprýdda leikarahópi. Frammistaða Ruffalos er bæði markvís og krydduð þannig að mér fannst ég fá margar hliðar á persónunni sem ég hafði ekki séð áður, hvað þá álíka vel túlkaðar og hér. Það bætir einnig úr skák að bæði Banner og Hulk eru stórskemmtilegir á ólíka vegu, Whedon hefur svo sannarlega fundið út hvernig á að nota græna jötuninn almennilega á hvíta tjaldinu.

Kímnigáfa myndarinnar er óaðfinnanleg, tímasetningin brandaranna er vel meðhöndluð af handriti Whedons og túlkuð álíka vel af orkuríka leikarahópi myndarinnar. Ekki var við  öðru að búast í höndum Whedons, en honum fylgja einnig önnur kennimerki hvort sem þau virka í svona mynd eða ekki. Sem betur fer forðast hann að gera allar persónurnar að gáfumiklum húmoristum, sem hann er oft þekktur fyrir- hvort sem það er gott eða slæmt. Allar persónurnar eru samsamar sjálfum sér og ég er vægast sagt verulega glaður með það.

The Avengers er þéttur og stórskemmtilegur pakki sem höfðar til margra og tekst með afbrygðum vel flest allt sem hún reynir. Stútfull af persónuleika, sjarma, og sjónarspili sem ætti ekki að svíkja neinn. Þetta er myndasögumynd sem verður þekkt fyrir það að brjóta heilmörg blöð í sögu ofurhetjumynda og það verður spennandi að sjá hvað tekur við fyrir seríuna fyrst þessari uppbyggingu er lokið.

Axel Birgir Gústavsson

Tengt efni:
Deila efni

Tögg: , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Skildu eftir svar

Efst upp ↑