Birt þann 19. janúar, 2018 | Höfundur: Magnús Gunnlaugsson
Spilaárið 2017 gert upp
Það er mjög vinsælt að gera topplista í lok hvers árs og fólk keppist við að tala um hvað þeim þótti vera best á nýliðnu ári. Ég skil það mjög vel og það er oft góð leið fyrir fólk að uppgötva eitthvað sem hugsanlega fór framhjá þeim hvort sem um ræðir sjónvarpsþættir, kvikmyndir, tónlist eða borðspil. Í þessari grein kem ég þó hinsvegar ekki til með útlista mitt mat á bestu spilunum sem komu út árið 2017 einfaldlega vegna þeirrar ástæðu að ég hef ekki spilað nógu mörg spil sem komu út á árinu. Í staðinn langar mig að sýna ykkur nokkrar myndir og segja ykkur frá ýmsum tölulegum upplýsingum sem ég hef viðað að mér.
Ég setti mér það markmið að spila 10 spil 10 sinnum á árinu og notaði til þess notaði ég smáforritið BG-Stats en það leyfir mér að halda utanum allar mínar spilanir, hvar, hvenær og með hverjum.
Ég ætla að stikla á stóru og leyfa svo myndunum að tala sínu máli og í lokin sést hvernig tókst til með markmiðið og hver markmiðin fyrir 2018 séu.
- 180 – Fjöldi skráðra spilana yfir árið.
- 52 – mismunandi spil eða akkúrat eitt nýtt spil á viku
- 20 – Staðir sem ég spilaði á m.a í New York borg, á Hofsósi og Kaffi Flóru í Laugardalnum
- 70 – Fjöldi einstaklinga sem ég spilaði með en sjö helstu spilafélagar mínir eru með á bilinu 20-45 skráðar spilanir hver
- 34% – Vinningshlutfallið af þessum 180 spilunum, klárlega eitthvað sem ég þarf að bæta.
- 2 – Fjöldi þátta af Kind fyrir Korn hlaðvarpsþætti sem fóru í loftið.
- 23 – Færslur sem birtust eftir mig hér á Nördinu.
- Fimm mest spiluðu spilin á síðasta ári voru í eftirfarandi röð:
- Parade – 24 skipti
- Arkham Horror:LCG – 19 skipti
- Pandemic Legacy: Season 1 – 19 skipti
- Kingdom Builder – 18 skipti
- The Manhattan Project: Energy Empire – 7 skipti
Einsog sést tókst mér því miður ekki að klára 10×10 áskorunina fyrir árið 2017. Ég var kominn langleiðina með að klára þetta í upphafi Nóvember mánaðar en þá einhvernveginn stoppaði allt saman. Þetta var mjög krefjandi áskorun en gaf mér góða tilfinningu fyrir því hvaða spil ég og vinir mínir höfum sérstaklega gaman að því að spila og hvað okkur líkar síður við. Það er svo skemmtileg tilviljun að fjögur af þeim fimm spilum sem ég hef spilað hvað mest hafa fengið sínar umfjallanir hér á Nörd Norðursins.
Áhugi minn á spilum hefur aukist jafnt og þétt og hef ég reynt að gera mitt besta til að kynna spil sem frábæra og skemmtilega dægradvöl. Ég var svo heppinn að fá að starfa tímabundið í Nexus yfir mestu jólaönnina og leiðbeina fólki við val á spilum ýmist handa sjálfum sér eða sem gjöf. Mér fannst gaman að geta miðlað af eigin reynslu og heyra þakkirnar frá fólki sem var skiljanlega ráðvillt því spil þarf að velja af kostgæfni og það skiptir öllu máli að spilið hæfi þekkingu og áhugasviði þess sem eignast spilið.
Markmið 2018
Ég setti mér tvennskonar markmið fyrir árið 2018. Í stað þess að spila tíu spil tíu sinnum ætla ég stytta það markmið og spila tíu spil fimm sinnum en bæta við annarri áskorun í staðinn sem er að spila a.m.k 50 ný spil á þessu ári. Listarnir eru þó ekki fullkláraðir þar sem ekki er búið að velja öll spilin á 10×5 listann og nýju spilunum verður svo bara bætt eftir því sem þau týnast í sarpinn.
Að lokum langar mig að þakka ykkur lesendum fyrir að lesa greinarnar og/eða hlusta á hlaðvarpið Kind fyrir Korn. Svo langar mig einnig endilega að vita hver ykkar markmið fyrir 2018 eru og hvað stóð uppúr á árinu 2017 að ykkar mati?