Greinar

Birt þann 6. mars, 2017 | Höfundur: Magnús Gunnlaugsson

Board Game Stats – Hið fullkomna app fyrir borðspilanördinn!

Oft þegar maður er kominn á kaf í eitthvert áhugamál þá á maður það til að finna fyrir löngun til að halda utanum einhverskonar tölfræði af ýmsu tagi. Í mínu tilviki er það að halda utan um hve mörg spil ég á, hvenær ég spila, með hverjum og jafnvel hvar. Hversu mörg stig fékk ég í tilteknu spili og hvort mér hafi tekist að bæta mitt persónulega met.

Síðan í maí 2016 hef ég notast við smáforrit (e. app) sem kallast BG Stats og er enn sem komið einungis fáanlegt á iOS ($2.99). Ég veit þó að verið er að vinna að Android útgáfu fyrir forritið. Fyrir Android notendur bendi ég á Scorepal en í fljótu bragði virðist það sækja innblástur til BG Stats og virka svipað. Hvort Windows útgáfa af BG-Stats sé einnig á leiðinni skal ósagt látið. Mig langar að lýsa fyrir ykkur minni upplifun af BG Stats, hvernig það virkar og alla þá fjölbreyttu eiginleika og tölfræði sem hægt er að rýna í, sér og öðrum til skemmtunar.

Til að byrja með er best að tengja BG Stats við Boardgamegeek (Boardgamegeek, hér eftir BGG, má lýsa sem IMdB fyrir borðspil) með notendanafninu þínu og með því veita forritinu aðgang að öllum spilum sem þú ert með skráð í listum einsog owned, previously owned, played games, o.fl. Auk þess sem það býður uppá að flytja með viðbætur (e. expansions). Þegar því er lokið munu allar skráðar spilanir sem þú setur inn í forritinu einnig vera skráðar inná BGG reikninginn þinn ef þú svo kýst.

Í grunninn er forritið sára einfalt í notkun eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi:

Hvernig skrá skal spilanir í BG Stats

BG Stats býður upp á þrenns konar viðbætur (e. in-app-purchases) og kostar hver þeirra $0,99.

Áskoranir (e. challenges) gerir þér kleift að útbúa lista af ákveðið mörgum spilum sem þú ætlar að spila ákveðið mörgu sinnum. Mjög vinsælt er að takast á við svokallaða 10×10 áskorun þar sem maður velur sér tíu spil og þarf að spila þau a.m.k tíu sinnum innan ákveðins tímaramma, oftast eitt ár. Hægt er að stilla hvenær áskorunin skal hefjast og hvenær henni skal ljúka. Fyrir þá allra hörðustu er hægt að stilla á sérstakt „hardcore challenge“ sem veldur því að ekki er hægt að eiga við stillingar áskorunarinnar eftir að búið er að setja hana upp.

Hér að neðan má sjá að ég hef lokið 23 spilunum af 100 og búinn að uppfylla kvótann fyrir Parade þetta árið.

Önnur viðbótin er Innsýn (e. insights/deep stats). Í þessari viðbót getum við farið nánar í tölfræðina á ýmsum hlutum eins og:

  • Sérstökum spilurum og hvernig þeir eru að standa sig
  • Skoða sigurhlutföll í hverju spili fyrir sig, hæstu / lægstu stig eða meðalstig í ákveðnu spili.
  • Skoða tölfræði mánuð fyrir mánuð eða ár fyrir ár
  • Hvort spilað sé með tveimur, þremur, fjórum eða fleiri spilurum.
  • Hvaða vikudaga er oftast spilað.
  • Lengsta sigurganga
  • Hve oft leikmaður sem er að spila í fyrsta sinn sigrar eða hve oft leikmaður sem byrjar sigrar.
  • Og margt fleira!

Þriðja viðbótin er svo skýjalausn (e. cloud sync). Ef þú ert með forritið á fleiri en einu tæki þá samhæfast skráningarnar á öllum tækjum auk þess að þú ert með öruggt afrit af öllum þeim gögnum sem þú hefur skráð inní forritið. Ég hef ekki enn sem komið er prófað þessa lausn þrátt fyrir tveggja vikna frían reynslutíma en fyrir ykkur sem eruð áhugasöm um þessa viðbót mæli ég með því að smella á hlekkinn hér.

BG Stats er eitt mest notaða smáforritið í símanum mínum á eftir vekjaraklukkunni minni og FB/Messenger. Hægt er að taka myndir inní forritinu og tengja við hverja spilun, skrifa lítinn textabút og taka fram hvort spilað sé með viðbótum eða húsreglum. Engu máli skiptir hvort verið sé að spila samvinnuspil (e. co-op) eða hvort spil séu sigruð með ýmist hæsta eða lægsta skori, það eru stillingar fyrir þetta allt saman. Smáforritið er í stöðugri þróun og má fylgjast með uppfærslum ýmist á FB-síðu BG Stats eða BG Stats Guildinu á BGG.

BG Stats kostar $2.99 í App Store og er skyldueign fyrir alla borðspilanörda!

Að lokum langar mig svo að minnast á síðu sem kallast Nemestats.com en það má segja að þessi heimasíða sé í raun Desktop-útgáfan af BG Stats. Þeir sem sjá um Nemestats koma ekkert að forritinu nema að því leyti að hægt er að tengja BG Stats við Nemestats rétt eins og Boardgamegeek.

Það sem Nemestats býður þó uppá umfram BG Stats og BGG eru allskonar afrek (e. achievements) sem menn geta reynt að ná. Hægt er að búa til hópa með mismunandi spilavinum og þannig haldið sérstaka tölfræði utan um ákveðna spilara og séð hvernig þeir standa sig gegn hvor öðrum. Notendur safna ákveðnum Neme-stigum sem svipar til Elo-kerfis (Stigakerfi sem notað er í keppnisleikjum eins og skák) og því hægt sjá hversu erfiðir andstæðingar þínir eru m.v fjölda Nemestiga.

Aðgangur að Nemestat er öllum opinn án endurgjalds.

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑