Spil

Birt þann 27. febrúar, 2017 | Höfundur: Magnús Gunnlaugsson

Spilarýni: The Manhattan Project: Energy Empire

Spilarýni: The Manhattan Project: Energy Empire Magnús Gunnlaugsson

Samantekt: Gríðarlega vel heppnað verkstjórnunar spil. Spilið er einfalt í uppsetningu og kennslu.

4.5

Mjög gott!


Einkunn lesenda: 4.5 (1 atkvæði)

Það er alltaf spennandi en um leið ákveðin áhætta fólgin í því að styrkja spil í gegnum Kickstarter heimasíðuna vinsælu. Snemma á síðasta ári ákvað ég að veðja á  The Manhattan Project: Energy Empire.

Spilið er sjálfstætt framhald af samnefndu spili The Manhattan Project frá Minion Games en í því síðarnefnda keppast leikmenn í umhverfi seinni heimstyrjaldarinnar að því að byggja upp stærri og betri sprengjur en önnur heimsveldi.

Í Energy Empire er búið að færa spilið í nútímalegri búning. Tækninni hefur fleygt fram og orkuframleiðsla hefur aukist gríðarlega með tilkomu kola, olíu og klofningu atómsins. Framúrstefnulegar, umhverfisvænar orkuframleiðslur eins og sólar- og vatnsaflsvirkjanir reyna að ná fótfestu og gríðarleg umhverfisslys eiga sér stað sem valda hnattrænum áhrifum.

INNIHALDSGÆÐI

Það er greinilegt að það hefur ekkert verið til sparað þegar kom að því búa til kubbana, tunnurnar og táknin í Energy Empire.

Það er greinilegt að það hefur ekkert verið til sparað þegar kom að því búa til kubbana, tunnurnar og táknin í Energy Empire. Olíutunnurnar eru þungar í hendi og stálbitarnir, þrátt fyrir að vera úr viðI eru fallega mótaðir og stálgráir. Borðið sjálft er vel skipulagt og reitirnir auðskiljanlegir. Spil sem tákna löndin sem leikmenn geta stjórnað hafa stutta reglusamantekt á bakhliðinni um hvernig hver umferð gengur fyrir sig sem auðveldar regluútskýringar og hjálpar nýjum leikmönnum að átta sig á gangverki spilsins.

Öll spil sem tákna byggingar sem leikmenn geta keypt eru fallega myndskreytt og passlega þykk. Reglubókin er gríðarlega vel uppsett og gangverk spilsins er vel útskýrt í bæði máli og myndum. Auk þess er reglur fyrir einstaklingsspilun (e. Solo-Play).

HVERNIG SKAL SPILAÐ

Í upphafi spils velja leikmenn á milli tveggja landa sem dregin eru með slembivali, af þeim tíu sem fylgja spilinu, til að byggja upp orkuveldi á mis umhverfisvæna máta. Leikmenn þurfa að nýta byrgðir (e.resources) sínar skynsamlega, styrkja innviði sína; iðnaðar, viðskipta og stjórnskipan (e. industry, commerce & government), byggja upp orkuver og komast til metorða hjá Sameinuðu Þjóðunum til þess að ná sigri. Hvert land notar mismunandi byrgðir til að klífa upp metorða stigann og sá sem er fyrstur á lokareitinn fær þrjú bónusstig. Sá leikmaður sigrar sem hefur flest stig í lok leiks.

Í upphafi spils velja leikmenn á milli tveggja landa sem dregin eru með slembivali, af þeim tíu sem fylgja spilinu, til að byggja upp orkuveldi á mis umhverfisvæna máta.

Hver leikmaður fær sérstakt spjald þar sem leikmenn geta geymt verkamenn, orkuplatta (e. Energy), orkuteninga og allar byrgðir sínar sem eru fimm talsins, peningar, plast, járn, vísindi og olía. Auk þess eru 15 reitir sem skipt eru upp í þrisvar sinnum fimm línur og tákna  loft, land og sjó en leikmenn koma til með að þurfa að menga þessa reiti á ýmsum tímapunktum í spilinu. Ýmist þegar leikmenn kaupa sér nýjar byggingar eða framleiða orku.

Þegar leikmenn þurfa að menga umhverfi sitt taka þeir gasgrímu tákn úr sérstökum stafla sem ég myndi kalla á okkar ylhýra máli Hnattræn áhrif (e. Global Impact track). Um leið og einn af þessum sex stöflum klárast er fyrsta kortið sem veldur Hnattrænum áhrifum lesið og stig eru gefin fyrir ómengaða reiti af annaðhvort lofti, landi eða sjó. Því næst eru byggingar í einhverjum af þremur svæðunum (iðnar, viðskipta eða stjórnskipan) fjarlægðar og nýjar koma í staðinn og að lokum koma fram áhrif sem ýmist hafa góð eða slæm áhrif á borðið eða aðgerðir leikmanna. Plast og stálbitum er hugsanlega bætt á alla reiti á borðinu, leikmenn geta fengið fleiri verkamenn eða lent í kjarnorkuregni sem mengar umhverfi leikmanna enn meira.

Alls fylgja með 16 kort sem valda Hnattrænum áhrifum og eru dregin þrjú græn og þrjú rauð í slembivali í upphafi leiks. Reitir og byggingar gera leikmönnum þó kleift að skoða þessi spil og geta því leikmenn gert ráðstafanir með því að hreinsa upp viðeigandi umhverfisreiti eða framleitt orku á réttum tímapunkti til að hagnast sem mest á áhrifum þessara spila.

Ef menn eiga ýmist tvo verkamenn eða tvo orkuplatta eða einn of hvoru þegar leikmenn ákveða að framleiða orku geta leikmenn náð sér í afreksplatta (e. Achievement). Leikmenn mega hafa að hámarki fimm afreksplatta og gefur hver og einn þeirra einungis fimm stig þ.e 25 stig hámark fyrir fimm fullnýtta platta. Þessir afreksplattar gefa þér markmið til að vinna að þar til leik lýkur t.d að eiga amk fimm peninga í lok leiks, vera búinn að ráða til þín amk fimm verkamenn eða eiga eitt stykki af hverri byrgð í lokin.

UPPLIFUN

Energy Empire er verkstjórnunar spil í sínum hefðbundna skilningi og fylgir flestum reglum sem einkenna slík spil að undanskildum tveimur hlutum. Leikmenn geta nýtt sér reiti sem aðrir leikmenn hafa þegar notað en þurfa að borga með sérstökum orku-plöttum, sem eru tímabundnar byrgðir, og stafla þeim hærra en sá er síðast nýtti sér reitinn. (sjá mynd að ofan) Í öðru lagi er aldrei nokkurskonar „lok umferðar-aðgerð“ þ.e að leikmenn fjarlægi verkamenn sína allir í einu af borðinu og ný umferð hefst. Í staðinn geta leikmenn hvenær sem er ákveðið að framleiða (e. Generate) orku og fjarlægja þá alla verkamenn og orkuplatta sína af borðinu og kasta því næst sérútbúnum teningum sem fylgja spilinu til að ákvarða hve mikla orku og hverskonar orku; hvort það sé umhverfisvæn sólar- og vatnsfalls orka eða mengandi kjarnorka, kol eða olía sem þeir framleiða og hvort þeir þurfi að menga umhverfi sitt.

Það skiptir því máli að tímasetja orkuframleiðslu sína vel í samræmi við hve mikið aðrir leikmenn hafa notað af sínum verkamönnum og orkuplöttum, til þess að geta fengið reiti á sem ódýrastan máta. Þetta gefur spilinu frábært flæði og dregur úr því að leikmenn velji sérstaklega þá reiti sem henta andstæðingum betur heldur en þeim sjálfum þar sem allir reitir eru öllum opnir, gefið að menn eigi næga orku til að stafla upp. Orkuplattarnir eru einnig nýttir til að virkja byggingar sem leikmenn hafa eignast.

Leikmenn geta farið mismunandi leiðir til sigurs. Menn geta kosið að halda umhverfi sínu sem minnst menguðu eða farið í gríðarlega kjarnorkuframleiðslu og kolabrennslu til að eignast sem mesta orku í hverri umferð en með tilheyrandi afleiðingum.

Leikmenn geta farið mismunandi leiðir til sigurs. Menn geta kosið að halda umhverfi sínu sem minnst menguðu eða farið í gríðarlega kjarnorkuframleiðslu og kolabrennslu til að eignast sem mesta orku í hverri umferð en með tilheyrandi afleiðingum. Hægt er að kaupa byggingar ýmist með peningum eða byrgðum sem geta unnið saman á frábæran máta og rúllað áfram eins og smurð vél. Þó er sá galli á gjöf Njarðar að til að virkja byggingu úr viðskiptasvæðinu þarf leikmaður einnig að vera með verkamann í viðskiptasvæðinu á borðinu, hið sama gildir með iðnaðar og stjórnskipunar byggingar. Þetta er regla sem á það til að gleymast þegar leikmenn eru að gera og getur því orðið til þess að leikmenn geri ólöglega leiki sem fattast svo kannski ekki fyrr en of seint.

SAMANTEKT

The Manhattan Project: Energy Empire er í heildina á litið gríðarlega vel heppnað verkstjórnunar spil og er ég mjög sáttur með að hafa keypt spilið í gegnum Kickstarter. Spilið er einfalt í uppsetningu og kennslu. Það skalast í lengd við fjölda spilara en nýtur sín best með fjóra til fimm leikmenn og verður samkeppnin meiri og stigafjöldinn lægri og þéttari skv. minni upplifun.

Langflestar aðgerðir leikmanna gefa þeim stig hvort sem það er að vera með hreint umhverfi, kaupa orkuteninga og byggingar, klífa metorðastigann hjá SÞ eða ná sér í afreksplatta. 90% af þessum stigum eru þó ekki talin fyrr en í lok leiks og því geta leikmenn átt erfitt með átta sig á raunverulegri stöðu sinni á meðan leik stendur.

Spilið á því fyllilega skilið 4,5 kjarnorkur af 5 mögulegum!

Myndir: BoardGameGeek

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑