Birt þann 19. nóvember, 2017 | Höfundur: Steinar Logi
Leikjarýni: Star Wars Battlefront II
Samantekt: Flottur leikur en vantar fínpússun og með vanhugsað verðlaunakerfi
3
Vonbrigði
Star Wars: Battlefront 2 er framhald Star Wars Battlefront sem kom út árið 2015 og… bíðið aðeins, það er fíll hérna í herberginu sem ég þarf aðeins að skrifa um. Netið hefur verið algjörlega rauðglóandi yfir þessum leik, sérstaklega samfélagssíðan Reddit, þar sem athugasemd frá starfsmanni EA sló met því að vinna sér inn flesta mínusa (dislikes) frá notendum (nálægt 68 þús. núna) og AMA (Ask me anything) með þremur hönnuðum frá DICE fór líka um þúfur.
Forsagan er sú að spilarar sem komust snemma í leikinn fundu út að það tók þúsundir tíma að ná í allt sem leikurinn bauð upp og 40 tíma að ná í hetjur eins og Svarthöfða og Loga . EA brást við og minnkaði kostnaðinn við að opna fyrir hetjurnar en minnkaði líka sum verðlaunin þannig að þrátt fyrir að þetta væri smá bæting þá voru þetta bara nokkrir dropar á eldhafið.
Málið er að það er búið að vera stigvaxandi pirringur hjá leikjasamfélaginu því að leikir eru alltaf að teygja sig lengra og lengra fram í að græða aukapening og EA var þegar óvinsælt fyrirtæki. Þeir og aðrir eru að gera það sama og ókeypis leikir hafa gert á snjalltækjum en með leiki á fullu verði. Óskrifaða reglan sem Battlefront 2 brýtur (þeir eru samt langt frá því að vera þeir fyrstu) er að þeir sem eyða pening fá alls konar bónusa sem gerir spilunina auðveldari. Þetta er það sem t.d. Overwatch hefur passað sig á því að allt aukadót sem kemur úr „loot boxes“ er bara til sýnis og hefur engin áhrif á spilun, bara útlit (ekki það að ég sé að vernda Blizzard, þeir eru mjög bíræfnir í þessum málum). Þrátt fyrir að EA / DICE hafi lagað kostnað hetjanna eru „loot boxes“ og þar með bónusarnir eru áfram mjög sjaldgæfir og það er greinilegt að þetta virkilega hæga verðlaunakerfi var upprunalega hannað til að fólk missti þolinmæðina og eyddi pening. DICE hefur m.a. afsakað þetta með því að segja að þeir pari spilurum í leiki ekki bara út frá styrkleika heldur líka út frá hlutum en það er ekki það sem málið snýst um. Reyndar vorkennir maður dáldið Svíunum í DICE sem lenda á milli steins og sleggja og mega ekki segja og gera allt sem þeir vilja því að risinn EA og enn stærri risinn Disney eru að horfa yfir öxlina á þeim.
það er búið að vera stigvaxandi pirringur hjá leikjasamfélaginu því að leikir eru alltaf að teygja sig lengra og lengra fram í að græða aukapening
Mótspyrnan hefur verið það mikil að það var ákveðið 17. nóvember sl. að taka þessa virkni (microtransactions) úr leiknum, líklega vegna þrýstings Disney, en það var einnig tekið fram að þetta muni koma aftur með einhverjum breytingum. Fyrir suma hefur þetta dregið úr reiðinni en margir telja að það verði einfaldlega beðið eftir að fólk gleymi þessu og þá sett inn aftur. Gallinn fyrir leikinn sjálfan er að eftir situr þetta mjög hæga verðlaunakerfi, sem þeir vonandi taka í gegn eins og Need for Speed: Payback gerði nýlega (en þeir hafa líka verið gagnrýndir fyrir álíka leikjahönnun).
Mótspyrnan hefur verið það mikil að það var ákveðið 17. nóvember sl. að taka þessa sölu (microtransactions) hreinlega úr leiknum
Star Wars Battlefront 2 er, eins og sá fyrri, aðallega fjölspilunarleikur. Það er smá „campaign“ þ.e.a.s. leikur með söguþræði fyrir einn spilara sem tekur kannski 5-6 tíma að klára og er í raun langt „tutorial“. Maður fær að sjá helstu staðina og frægu persónur leiksins og greinilega á að vekja áhuga á fjölspilun sérstaklega ef maður tekur „endinn“ með í reikninginn. Talsetningin er góð (fyrir utan að Lando Calrissian virkar blindfullur) en það var ekki mikið lagt í þennan hluta leiksins. Sú staðreynd að ég hafði samt yfirleitt gaman af þessu er vitnisburður þess hve Star Wars heimurinn er heillandi. Það er alltaf jafn gaman að sjá frægu staðina úr leiknum eins og kastala Maz Katana, taka þátt í geimorrustu eða sjá gamla vini eins og nafna minn Loga geimgengil. Maður hugsar til Visceral Games með söknuði því að fyrirhugað var að þeir myndu gera Star Wars leik í anda Uncharted en EA lokaði því miður á það.
Það er smá „campaign“ þ.e.a.s. leikur með söguþræði fyrir einn spilara sem tekur kannski 5-6 tíma að klára
Helsti kosturinn við leikinn er hversu vel hann lítur út og staðirnir virka raunverulegri en í þeim fyrri t.d. stríðssvæðin þar sem maður sér eyðilegginguna allt í kring en þeir eru líka fallegir eins og „kóralrifs“ plánetan Pillio sem kemur fyrir í sögunni. Staðirnir spanna öll tímabil Star Wars og við fáum Naboo, Starkiller Base, Kamino, Takodana, Yakku, Javin 4, Death Star II, Endor, Hoth, Kashyyk og Tatooine. Þannig að það eru fleiri staðir en í Battlefront (2015) en það er ekki hægt að velja svæði í fjölspilun sem hefði verið skemmtilegra því að fljótlega vill maður fara á sín uppáhaldssvæði. Það eru ekki bara fleiri staðir núna heldur líka fleiri karakterar, fleiri vopn og fleiri bónusar.
Helsti kosturinn við leikinn er hversu vel hann lítur út
Þessir bónusar eru í formi Stjörnukorta (Star Cards) sem koma fyrir í algengum til mjög sjaldgæfum útgáfum (common-uncommon-rare-epic) og þau geta aukið einhvern hæfileika eða gefið þér nýjan. Stjörnukort er hægt að setja á allt núna þ.e.a.s. farartæki, hermenn og hetjur / andhetjur. Í fyrstu geturðu verið með eitt stjörnukort á t.d. hetjunni þinni en allt að þrjú þegar styrkleikastigið verður meira (level 10). Einnig er hægt að hanna sín eigin stjörnukort með „crafting parts“. Gjaldmiðillinn í leiknum kallast „credits“ en svo eru líka kristallar (crystals) sem er ekki hægt að kaupa eins og er því að það var gjaldmiðillinn sem var a.m.l. keyptur með alvöru pening.
Spilunin sjálf er ekkert alslæm, allt sem þú stjórnar hefur 3 eiginleika sem þurfa að kólna niður áður en þú getur notað þá aftur. T.d. hefur venjulegur hermaður (assault) handsprengju, radarskot sem nemur óvini þar sem þú skýtur og tímabundinn berserksgang með haglabyssu. Geimskipin hafa líka 3 eiginleika til að verjast eða sækja. Það er hægt að skipta út þessum hæfileikum og það er ákveðið frelsi við að þróa það sem þú vilt; t.d. hermann með bestu handsprengjurnar.
Stór hluti af leiknum byggist á Bardagastigum (Battle Points). Þú færð þau fyrir að spila leikinn vel t.d. ná að drepa marga óvini eða vinna að takmarkinu. Þessi stig geturðu svo notað til velja sterkari hermenn og á endanum hetjurnar sjálfar eða farartækin þeirra. Þetta er ágætis útfærsla, einhvern veginn þarf að koma í veg fyrir að allir velji Svarthöfða eða Fálkann (í geimorrustum) í byrjun. En strax og þú notar stigin þá eru þau farin þannig að næst þarftu að velja venjulegan hermann. Maður þarf að læra á hetjurnar því að þær eru með stórt „X“ á bakinu á sér og það þýðir ekki bara að taka „Leeroy Jenkins“ á þetta.
Það er alveg hægt að hafa gaman af Battlefront 2 og DICE hafa reynslu í þessum efnum sem nýtist vel
Fjölspilun skiptist í eftirfarandi leikjagerðir:
Galactic Assault – 40 spilarar: Hérna upplifir maður stóra orrustu þar sem eitt liðið sækir og hitt verst. Nokkuð kaótískt en getur verið skemmtilegt.
Starfighter Assault – 24 spilarar: Þú velur þér geimskip og þetta er uppáhaldið mitt. Mikil bæting frá því í Battlefront (2015), það eru fjölbreytilegri takmörk og hraðinn er meira. Maður er fljótari að komast aftur í bardagann eftir dauða; hljóð og umhverfi er til fyrirmyndar.
Heroes vs. Villains – 8 spilarar: Hérna eru 3 and-hetjur á móti þremur hetjum og hér er mikilvægt að vinna sem lið til að sigra. Það er alltaf einn ákveðinn sem er skotmark sem gefur stig þannig að liðin þurfa að verja einn af sínum eða brjótast í gegnum varnir hinna. Það virðist vera jafnvægisvandamál í þessari leikjategund, t.d. er mjög erfitt á sumum stöðum að eltast við Boba Fett þar sem hann er eini með eldflaug á bakinu og getur falið sig á ýmsum háum stöðum.
Strike – 16 spilarar: Stuttir leikir með ákveðnum takmörkum sem skiptast í umferðir (rounds).
Blast – 20 spilarar: Þetta er „deathmatch“ Battlefront 2 þar sem hvort liðið hefur 100 líf skipt á milli allra sem spila (þannig að byrjendur sem deyja oft geta haft mikil áhrif á niðurstöðuna).
Það er alveg hægt að hafa gaman af Battlefront 2 og DICE hafa reynslu í þessum efnum sem nýtist vel. Sérstaklega finnst mér það gefa leiknum mikið hversu vel hann lítur út og auðvitað er það Star Wars heimurinn sjálfur sem heillar manni svo að það er ákveðið forskot þarna í gangi. Ég hef ekki lent í tæknilegu veseni eins og sumir hafa kvartað yfir á Xbox one (spilaði á PS4 Pro) en varð var við önnur vandamál. Það helsta eru ósýnilegu endamörkin sem eru út um allt og geta verið virkilega pirrandi. Maður reynir að taka einhvern krók en skyndilega verður skjárinn grár og maður hefur tíu sekúndir til að snúa aftur til takmarksins. Ásamt því að vera pirrandi þá er þetta stundum algerlega óskiljanlegt, maður getur verið nálægt öðrum spilurum en samt heldur þetta áfram að tikka þar til maður „drepst“. Einnig eru hleðslutímar frekar langir milli leikja en sem betur fer ekki í leikjunum sjálfum.
Undirritaður spilaði fyrri leikinn talsvert og það sem situr eftir við þennan er að það var í raun ekki það miklu bætt við hann. Jú, það er aðeins meira af öllu en söguparturinn sem maður spilar einn í gegn er ekki það merkilegur og allt þetta stjörnukorts-verðlaunakerfi er alltof mikið litað af græðgi og of hægfara í núverandi mynd. Þess vegna er ég ansi hræddur um að þessi endist ekki það mikið, nema fyrir hörðustu aðdáendur, því hann er of líkur þeim fyrri. Það hefði verið gaman að sjá hönnuðina taka meiri áhættur t.d. með því að gera sterkari söguþráð, gefa fólki möguleika á að spila bara uppáhaldssvæðin sín eða bara prófa eitthvað nýtt.
Leikurinn er rétt yfir meðallagi í núverandi mynd
Þetta er ekki alslæmur leikur, t.d. hefur sonur minn ásamt vinum hans skemmt sér konunglega og þeim gæti ekki verið meira sama um allt þetta drama. Þeir spila á móti eða með hverjum öðrum í “arcade” hlutanum þar sem maður þarf ekki að vera nettengdur og getur valið þann karakter sem maður vill. En fyrir flesta þá er þetta ekki nógu gott og hann endar sem leikur rétt yfir meðallag í núverandi mynd en mikið vona ég að DICE fái að laga verðlaunakerfið án þess að rukka fyrir það og koma með ókeypis viðbætur til að friða okkur spilarana. En það er kannski borin von.