Fréttir

Birt þann 20. nóvember, 2017 | Höfundur: Magnús Gunnlaugsson

Wizards kynna spilið Betrayal at the House on the Hill: Legacy

Wizards of the Coast (WotC) og Rob Daviau hafa tekið höndum saman og tilkynntu að spilið Betrayal: Legacy sé væntanlegt í lok árs 2018, en þetta var tilkynnt á PAX Unplugged hátíðinni sem fram fór um helgina.

Rob Daviau aðstoðaði við hönnun Betrayal at the House on the Hill árið 2004 þegar hann vann fyrir Hasbro. Í Betrayal: Legacy koma leikmenn til með að skoða hús fullt af reimleikum rétt einsog í grunnspilinu. Spilið mun innihalda forsögu (e.prologue) og því næst þrettán kafla sögu sem mun spanna nokkra áratugi. Leikmenn setja sig í hlutverk fjölskyldumeðlima sem flytja inn í húsið sem koma til með að eldast og líklega deyja innann veggja húsins og því ekki ólíklegt að nokkrir þeirra munu herja á afkomendur er líða tekur á spilið.

Legacy spil er nýtt form spila þar sem djúp áhersla er lögð á söguupplifun og þær ákvarðanir sem leikmenn taka í hverju spili hafa varanleg áhrif í því næsta. Dæmi um slíkt er að leikmenn þurfi að skrifa á leikborðið, setja límmiða á leikborðið, kort og aðra hluti sem fylgja spilinu og í einstaka tilvikum jafnvel rífa og eyðileggja ákveðin spil!

Það verður áhugavert að sjá hvernig þeim mun takast upp með að gæta jafnvægis í  Betrayal:Legacy því helsti galli BatHotH var hve misöflugar sumar sögurnar voru eða hversu seint eða snemma „The Haunt“ byrjaði. Þetta yrði einnig í fyrsta skipti þar sem svikaragangverkið (e.traitor mechanic) yrði nýtt í Legacy spili. Það eru margar spurningar sem vakna og varðandi hvernig þeir munu útfæra spilið.

  • Munu leikmenn á einhverjum tímapunkti verða varanlegir draugar, uppvakingar og varúlfar?
  • Munu ákveðnar flísar í spilinu verða sérstaklega notaðar í uppsetningu og svo breytist húsið smátt og smátt í stað óreglunar sem einkennir grunnspilið?
  • Mun spilið reyna ýta undir hlutverkaleik (e.roleplaying) og að leikmenn reyni fremur að spila eftir upplifun fjölskyldumeðlima í stað þess að reyna hámarka líkur á sigri?

Það væri einnig gaman að vita hverjir koma til með að rita aðalsöguþráðinn í spilinu, það væri stórkostlegt ef að rithöfundar eins og Stephen King eða Clive Barker kæmu að gerð spilsins. Eða handritshöfundar frá Hollywood. Grunnspilið einkennist nefnilega af B-myndar hryllingi sem gefur því ákveðinn blæ sem á sína spretti en ef ég ætla að leggja það á mig að spila í gegnum allt Betrayal:Legacy þá væri ég líklegri til þess ef ég vissi að þaulreyndir hryllingssagna/mynda höfundar hefðu fengið að setja sitt mark á spilið.

Þetta eru einfdaldlega mínar pælingar en mér þætti frábært að lesa ykkar hugsanir í kommentakerfinu hér fyrir neðan.

Heimild: http://www.dicetowernews.com/wizards-of-the-coast-and-rob-daviau-announce-betrayal-legacy/47926

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑