Bíó og TV

Birt þann 21. maí, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Godzilla (2014)

Eitt er víst, öskrið er almennilegt.

Ég sjálfur fæddist árið 1983. Fólk á mínum aldri kynntist aldrei neinni Godzilla menningu eða þess háttar, enda konungur skrímslanna aldrei verið það frægur á klakanum. Þannig að þegar Roland Emmerich kom með sína útgáfu af Gojira árið 1998, var það í raun í fyrsta sinn sem ég hafði séð eitthvað Godzilla tengt. Þetta leit allt vel út á pappír, Emmerich var nú einu sinni maðurinn sem hafði fullmótað sumar stórmynda formúlur með Independence Day árið 1996 (Jurassic Park var svo til fyrsta stórmyndin sem sýndi var um sumar sem sýndi fram á einhvern gróðamöguleika, en Independence Day mótaði formúluna sem mjög margir hafa afritað síðan þá; nokkrir karakterar, flest allt séð frá mennsku sjónarhorni, gera stór-atburði tengjanlega með því að láta hlutina koma fyrir fólk sem áhorfandanum á að þykja vænt um, og fleira), og var hann nú kominn aftur með einhverja stærstu mynd ársins 1998.

Því miður, eins og oft vill verða, reyndist Godzilla myndin hans Emmerich vera fullbúin þunnum persónum og asnalegum söguþræði, þrátt fyrir að líta vel út. Það helsta sem ég man eftir þeirri mynd er hversu oft leiðinlega lagið hans P Diddy var spilað í útvarpinu hérna heima.

En nú er veröldin önnur. Eftir brösulega byrjun teiknimyndasögu-kvikmynda, sem fól meðal annars í sér gjörsamlega glataðar útgáfur af Fantastic 4 og Daredevil, þá fann Cristopher Nolan sögustíl sem fólk virtist elska í útgáfu sinni af Leðurblökumanninum (alltaf asnalegt að nota íslenska heitið) árið 2005 með Batman Begins. Jarðbundin frásögn, haldið í sterkan realisma og raunverulegar afleiðingar. Eða eins og menn vilja kalla þetta í USA: „It was gritty.“

Nolan fann reyndar ekkert upp hjólið þar, heldur hélt áfram að byggja á því sem aðrir höfðu gert á undan honum, Tim Burton gerði Batman mynd sína árið 1989 á hátt sem enginn annar hafði gert, en í þá tíð voru ofurhetjur frekar öðruvísi. Wolverine í X-Men myndunum kom með heift og reiði sem fólk elskaði, og sagði það stúdíóunum að það væri áhugi á raunverulegri sýn á kvikmyndir í nördaflokknum.

Godzilla

Gareth Edwards, leikstjóri Godzilla (2014), hefur tekist að gera kvikmynd um risastórt kjarnorkuskrímsli sem varið er í að sjá. Myndin hefst á svipmyndum úr „kjarnorkutilraunum“ Bandaríkjamanna á sjötta áratug síðustu aldar, en það reynist hafa verið tilraunir þeirra til að aflífa risaskrímslið Godzilla. Mér finnst alltaf gaman að sjá þegar bíómyndum tekst að blanda raunverulegum atburðum skemmtilega inn í söguþráð kvikmynda, eins og X-Men: Days of Future Past hefur verið að gera með myndböndum sínum, eins og að blanda Magneto inn í Kennedy morðið.

Godzilla sjálfur er frábær í sinni eigin mynd. Konungur skrímslanna ber nafn með réttu, og sparar myndin okkur það að sjá hann í allri sinni dýrð fyrr en um að helmingurinn af myndinni er liðinn. Ég elska þegar leikstjórar hafa kjarkinn í að sleppa því að drekkja okkur í því sem er flottast við þeirra mynd. Pacific Rim sem kom út í fyrra var akkúrat andstæðan við þessa frásagnaraðferð, en þeir klesstu skrímslum og vélmennum upp við okkur frá liggur við fyrsta atriði. Godzilla reynir frekar að temja sér Spielberg-lega þolinmæði í að sýna okkur konunginn sjálfann, Godzilla. Eins og Spielberg gerði vatnið ógnvænlegt í Jaws, eða að maður fékk aldrei að sjá nákvæmlega allt sem var í gangi hjá David Fincher í Se7en, þá sér ímyndunaraflið okkar um það að bæta upp á móti. Við fáum að sjá þó nokkuð meira af hinum skrímslunum sem eru í Godzilla, en þegar við loksins fáum að sjá uppistaðinn og önugan Godzilla, þá er það meiriháttar nörd-tastic stund.

Godzilla

Mannfólkið í myndinni stendur sig því miður ekki jafn vel í að selja söguna. Maður hefði haldið af stiklunum að dæma að Bryan Cranston væri í aðalhlutverki, enda engin lifandi mannvera sem elskar ekki Walter White. En það er Kick-Ass sjálfur, Aaron Taylor-Johnson sem fer með aðalhlutverkið sem Ford Brody (Spielberg-legt nafn einhver?), sonur vísindamannsins Joe Brody sem Bryan Cranston leikur.

Bryan Cranston er frábær í myndinni, og tekst með mjög litlu að gera allar sínar senur áhugaverðar. En Aaron Taylor-Johnson er furðulega flatur, með svipbrigðis fjölda sem hægt er að telja á fingrum annarar handar. Elizabeth Olsen sem kona Fords hefur úr rosalega litlu að moða, sem er sök handritsins en ekki hennar. Hún gerir hinsvegar það mesta með það sem hún hefur, og þarna á ferð er góð leikkona sem mætti fá betri hlutverk, verður gaman að sjá hana sem Scarlet Witch í nýju Avengers myndinni.

Sá merki karakter leikari David Strathairn (Good Night, and Good Luck, L.A. Confidential) fer með hlutverk aðmírálsins William Stenz, sem hefur það helsta hlutverk að segja okkur áhorfendum hvað er í gangi, og Ken Watanabe er einna helst bara með einn svip alla myndina þrátt fyrir að vera frábær leikari í flest öllu sem hann leikur í.

Godzilla_03

Þessi mynd er algjörlega þess virði að sjá í bíó. Öskur Godzilla er það flott að ekki er hægt að dæma um það nema það sé heyrt í almennilegum hátölurum. Til að nefna þá notuðu hljóðblöndunarmenn þessarar myndar hátalara samstæðu sem var 4 sinnum 6 metrar og blöstuðu úr henni til að fá tilfinningu um kraftinn sem Godzilla gæti haft yfir að búa. Því miður hefði myndin getað verið mikið betri ef að mennsku karakterarnir hefðu verið jafn góðir og vel skrifaðir og þeir eru t.d. í Jurassic Park. Alltof oft var Aaron Taylor-Johnson ekki að skila senum sínum þannig að áhorfandinn lifði sig inn í söguþráð myndarinnar, meðan að það litla sem Bryan Cranston gerir er gull.

Eitt sem pirraði mig hinsvegar var hljóðkerfið í sal 3 í Egilshöllinni. Þegar maður getur farið í Laugarásbíó og upplifað ótrúlega flott hljóð með frábæru jafnvægi af háum tónum og bassa, fer það þó nokkuð í taugarnar á mér þegar ég borga mig inn í eitthvað af bíóhúsum Sambíó-anna, að finna hvað þeir hafa illa stillta sali. Þegar ég fór á Star Trek: Into Darkness í fyrra í sal 2 í Egilshöll þurfti ég að síga mér niður í sætið mitt því háu tónarnir voru það hátt stilltir að það skar í eyrun á mér. Og núna sat ég yfir stiklunni úr X-Men: Days of Future Past í svona fjórða sinn og vantaði allt „úmf“ (bassann, lágu tónana) í sjón, og háu tónarnir voru of hátt stilltir. Sem einskært heimabíó nörd, og mikill elskandi þess að fara í bíó bara yfirhöfuð, myndi ég óska þess að Sambíóin tækju sig saman og endurstilltu salina sína hljóðlega séð, gera pínu meira varið í þetta hjá þeim.

En öskrið maður… Öskrið er flott.

 

Höfundur er Benedikt Jóhannesson

 

Deila efni

Tögg: , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑