Greinar

Birt þann 19. maí, 2014 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Pælingar morgundagsins: Skýlendingar

Í gegnum árin eru alltaf mjög svipaðir tölvuleikir sem kitla í fingurgómana og kveikja í ævintýraþrá. Oftar en ekki eru svipaðir leikir sem verða fyrir valinu, hvort sem það eru hinir endalausu skot- og íþróttaleikir eða uppfærslur sem eiga að gera spilun leiks aðeins betri í dag en í gær. Einnig er fólk að verða kröfuharðara á tölvuleiki og hvað það vill fá út úr spiluninni. Betri gæði, góðann söguþráð, skemmtilega spilun. Listinn er óendanlegur! Kröfurnar eru stundum frekar kjánalegar og ósanngjarnar, en auðvitað hafa allir rétt á sinni skoðun og fá að deila henni með öðrum á Veraldarvefnum.

Í langan tíma hefur ein leikjasería verið jafn heillandi og hún er fráhrindandi, en það er Skylanders. Fyrir þá sem ekki vita um þessa seríu þá byggist hún á að leikur er keyptur, síðan þarf að kaupa kalla (ef þeir fylgdu ekki með) og síðan sérstakan pall svo hægt sé að nota kallana í leiknum. Ekki nóg með það þá er hægt að kaupa endalaust mikið af þessum fígúrum og því getur spilunin orðið frekar dýr. Hvers vegna í ósköpunum ætti nokkur lifandi sál að vilja spila þennan leik, sem gerir lítið annað en að plokka peninga úr veskinu. Því var nokkuð um blendnar tilfinningar í gangi þegar fjárfest var í Wii tölvu þar sem Skylanders fylgdi með, auk palls og svo heppilega vildi til að þrír kallar voru nú þegar til á heimilinu. Ekki var farið með miklar væntingar í leikinn og ekki verið að búast við neinu sérstöku.

SkylandersLeikurinn hefur komið alveg fáranlega á óvart og það er erfitt að viðurkenna að þetta er örugglega með skemmtilegri tölvuleikjum sem þetta nörd hefur spilað. Það er svo gaman að spila þennan leik með yngri kynslóðinni og er klárlega leikur sem foreldrar ættu að hafa gaman af að spila með börnum sínum. Spilun leiksins er mjög einföld en samt furðulega skemmtileg og sérstaklega gaman að spila með Wii fjarstýringu. Skopskyn leiksins er kjánalegt en samt skemmtilegt, söguþráðurinn einfaldur en samt áhugaverður og er mjög auðveld að gleyma sér þegar spilun er í gangi. Auðvitað er þessi leikur ekki fyrir alla og margir vilja meina að þetta sé aðeins barnaleikur og alls ekki fyrir eldri kynslóðina. Sama hver skoðun hvers og eins er þá er klárt mál að spilun mun halda áfram á þessu heimili og mjög líklega verður fjárfest í Spyro á einhverjum tímapunkti.

 

Höfundur er Helgi Freyr Hafþórsson,
fastur penni á Nörd Norðursins og nemi í fjölmiðlafræði.

 

 

Deila efni

Tögg: ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑