Birt þann 25. júní, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Gullöld myndasögunnar
Myndasögur, bandarískar myndasögur sérstaklega, fóru í gegnum ákveðin og afmörkuð tímabil þar sem má greina sérstakan stíl og hugmyndafræði. Oft eru þessi tímabil nefndar „aldir“ og þá er um að ræða gullöldina, silfuröldina, bronsöldina og myrköldina. Aldirnar eru mislangar, sumir vilja til dæmis meina að myrköldin sé ennþá í gangi,en hún hefst um miðjan níunda áratuginn. Ef til vill mun þetta tímabil vera brotið upp af fræðingum og kannski höfum við gengið inn í nýja öld í dag (öld atburðanna kannski).
Gullöldin hefst 1938 þegar Superman birtist í Action Comics nr.1 og varð fljótlega svo vinsæll að menn fóru að prófa fleiri ofurhetjur, Batman og The Human Torch kom út 1939, Flash 1940, Wonder Woman, Aquaman og Captain America 1941, og svo mætti lengi telja.
Superman var þó ekki fyrsta ofurhetjan sem birtist í myndasögum, þann heiður eiga Dick Tracy, Buck Rogers og Flash Gordon, sem allir komu fram um 1930. Flash Gordon varð meira að segja svo vinsæll að nokkrar bíómyndir fyrir krakka voru framleiddar 1936.
En með hjálp Superman urðu ofurhetjur uppáhald Bandaríkjamanna í stríðinu. Þær börðust margar með hermönnum bandamanna, Captain America gaf Hitler á túllann og Human Torch flaug gegn Japönum. Oft er litið á þessar myndasögur með eftirsjá eða nostalgíu, þær eru einfaldari, auðveldari eða skemmtilegri. Superman leikur sér að því að berjast gegn nýrri ógn í hverri viku og hann er svo nýstárlegur að það þarf ekki að flækja hlutina. Hver þarf flókna óvini og plott þegar Hitler er að brenna Evrópu? Eftir seinni heimsstyrjöldina breyttist hinsvegar ýmislegt. Sumar hetjurnar áttu erfitt uppdráttar, The Human Torch , Flash og Captain America hurfu af sjónarsviðinu eftir nokkur erfið ár.
Gullöldin hélt samt ótrauð áfram og hugmyndauðgin var gífurleg á fimmta og sjötta áratugnum. Hryllings- og vísindaskáldskapsmyndasögur litu dagsins ljós og urðu gífurlega vinsælar. Ofurhetjurnar urðu að deila miðlinum og vinsældir þeirra döluðu. Glæpasögur, ástarsögur og smásögur toguðu og teygðu myndasöguna fram og til baka. Ofurhetjan átti ekki myndasögurnar á þessum tíma og hægt er að finna glæsilega demanta nútíma skáldskaps frá þessum tíma. Teikningarnar urðu betri með fullkomnari tækni, og viðfangsefnið varð myrkara og hryllilegra. Ofurhetjur áttu erfitt með að berjast á móti og litu hálf ankannalega út við hliðina á rotnandi líkum og beinagrindum hrollvekjunnar. En íhaldssöm öfl í Bandaríkjunum voru ekki par sátt við að krakkar væru að lesa þess konar ósóma. Í anda McCarthy stefnunnar var helstu framámönnum í myndasögugeiranum gert að mæta fyrir framan þingið og svara fyrir af hverju þeir væru að segja krökkum sögur af múmíum og uppvakningum.
Þetta blað hefði aldrei fengið CCA stimpillinn þökk sé orðsins „terror“ í titlinum. Að sama skapi má sjá skrímsli og lekandi blóð sem hefði aldrei verið samþykkt. Eftir CCA hurfu hryllingsblöðin næstum algerlega frá sjónarsviðinu.
Það var úr þessum jarðvegi sem The Comics Code Authority spratt upp og lagði í rúst góðan hluta af iðnaðinum. Í stuttu máli lagði CCA útgefendum línurnar um hvað mætti og mætti ekki nefna og fjalla um í myndasögum. Aðeins myndasögur sem stóðust strangar kröfur CCA fengu blessun stofnunarinnar, en án þess gat reynst örðugt að selja blöðin. Flestar búðir neituðu að hafa blöð sem ekki höfðu á sér þennan „gæðastimpil.“ Sögur máttu ekki sýna spillta löggæslumenn, hið góða varð að sigra, gróft ofbeldi var bannað, blót, blóð og nekt var bönnuð ásamt vampírum og varúlfum. Myndasögur máttu ekki hafa „horror“ eða „terror“ í titlinum eða vekja samúð með glæpamönnum og konur mátti ekki teikna með „óeðlilegum útlínum.“
Í stuttu máli drap CCA meirihluta myndasagna, glæpasögur og hrollvekjur áttu erfitt uppdráttar þegar ekkert hræðilegt mátti sjást eða gerast og engar spilltar löggur voru til í heiminum. Myndasagan átti skyndilega mjög erfitt uppdráttar. En ofurhetjurnar fengu annað tækifæri. Ofurhetjurnar voru í raun nákvæmlega það sem íhaldsömu öflin vildu. Ofurmennskar hetjur sem berjast gegn glæpum og óvinum ríkisins. Þær gátu verið fyrirmyndir sem kenndu börnum rétt hugarfar og hegðun. Ofurhetjan reis úr rústum iðnaðarins, undir vökulu auga CCA.
Og þannig endar gullöldin, Myndasögurnar eru ekki lengur saklausar og frjálsar og héðan í frá virðist aðeins ein leið opin.
Silfuröldin hefst síðan 1956 þegar Flash birtist á ný á síðum DC Comics og setur af stað breytingar í iðnaðinum og tryggir ofurhetjunni alger völd yfir miðlinum.
Gullöldin var frjór tími, myndasögur voru ekki endilega dæmdar til að vera miðill ofurhetja eins og raunin varð. Höfundar sáu möguleikana í miðlinum og reyndu allt fyrir sér. Ákveðinn stíll varð til, einfaldir og hreinir litir, Ofurkarlmennskulegar hetjur birtust og urðu að fyrirmyndum silfuraldarinnar.
Í stríðinu var einfalt að vita hver var hetjan, en eftir stríðið fór myndasagan að þróast í aðrar áttir. Það er gaman að ímynda sér hvað hefði getað átt sér stað ef miðlinum hefði verið leyft að þróast að vild í Bandaríkjunum. Í Evrópu kom Tinni og Ástríkur, Lukku láki og fleiri hetjur. Myndasagan festist ekki í skikkju ofurhetjunnar en skapaði sér sína eigin rödd.
Höfundur er Kristján Már Gunnarsson,
rithöfundur og nemi við Háskóla Íslands.