Bíó og TV

Birt þann 24. júní, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: Upside Down (2012)

Það vill oft verða þannig að þær kvikmyndir sem virðast eiga möguleika á að setja ný viðmið og hafa áhrif á kvikmyndagerð framtíðarinnar fari framhjá flestum á þeim tíma sem þær koma út. Ekki eru þær allar gallalausar og þvert á móti geta þær verið algjört flopp. En það sem lifir áfram er ekki það sem fór úrskeiðis, heldur það sem kom á óvart og tókst betur en hjá þeim sem áður hafa reynt við þrautina. Í þessu tilviki er um að ræða sýn á heim sem, eins og yfirleitt, er eins konar spegilmynd af okkar eigin. Heim þar sem að eðlisfræði virkar öðruvísi og þar sem tvær plánetur sem deila einni sól eru tengdar með risastórri byggingu. Þrátt fyrir nálægð þeirra eru tilfallandi vandamál sem flestum dettur í hug ekki til staðar, enda er þetta fantasíuheimur. Þyngdarafl hverrar plánetu sér til þess að hver einasti hlutur sem sækir uppruna sinn þangað dregst að henni og skapar það, ásamt pólitískum ráðstöfunum, mikla skiptingu á milli þessara samfélaga. Ein er auðug og hin fátæk, bannað er að eiga í ástarsambandi við aðila frá hinni plánetunni og aðeins einn staður sameinar þetta fólk, en það er bygging fyritækisins TransWorld sem tengir pláneturnar. Margir eru eflaust nú þegar búnir að missa athyglina og er það skiljanlegt. En þó þetta hljómi eins og algjör steypa þá er margt athyglisvert í heiminum sem birtist í myndinni Upside Down.

Um er að ræða fransk-kanadíska ástarmynd sem gerist í fantasíuheimi sem notast við mörg þemu úr vísindaskáldskap og tekur sér nokkuð mikið skáldaleyfi þegar kemur að eðlisfræði, þrátt fyrir mikla áherslu á þyngdarafl. Juan Solanas, sonur argentíska leikstjórans Fernando E. Solanas, leikstýrði og skrifaði myndina en í aðalhlutverkum eru Kirsten Dunst, Jim Sturgess og Timothy Spall. Myndin hefur ekki enn verið sýnd hér á landi, en var raunar frumsýnd fyrir tæpu ári síðan í Kasakstan, af öllum löndum. Þó hún virki ekki ódýr þá eru engin risastúdíó á bak við myndina og virðist ætlunin hafa verið að byggja upp orðspor fyrir myndina áður en hún yrði sýnd í Bandaríkjunum. Ég veit ekki hversu vel það hefur gengið en hún hefur fengið mjög misjafna dóma. Í rauninni allan skalann, en myndin er nefnilega nokkuð á þann veginn að fólk annað hvort elskar hana eða hatar. Það virðist aðallega snúa að því hvort fólk telji mikilvægara: framvindu sögunnar eða sjónarspilið, en meira um það hér á eftir.

Upside Down

Upside Down fjallar um tvær manneskjur frá sitt hvorri tvíburaplánetunni sem að fyrir tilviljun hittast á afskekktum stað sem gerir þeim kleift að tala saman og jafnvel ferðast yfir til hinnar plánetunnar. Sagan er sögð frá sjónarhorni Adam, sem býr á fátækari plánetunni (yfirleitt kölluð Down Below) og vinnur við að þróa eigið yngingarkrem með hjálp dufts frá býflugum sem fá fæðu sína úr blómum beggja pláneta. Sem ungur drengur hittir hann stelpuna Eden frá Up Above og þau enda á því að verða ástfangin. En Adam var ekki lengi í Paradís og einn daginn kemst upp um þau. Í skotárás missir hann reipið sem hún ferðast til hans með og áður en hún kemst til baka á sína plánetu dettur hún og fær mikið höfuðhögg. Það er nefnilega svo að ástarsambönd á milli pláneta eru harðbönnuð og því er forboðin ást þeirra stöðvuð af lögreglunni. Seinna kemst Adam að því að Eden er enn á lífi og vinnur í byggingunni sem tengir pláneturnar saman. Hann reddar sér starfi þar og reynir að komast í samband við hana, en það sem hann veit ekki er að höfuðhöggið varð til þess að hún missti minnið og því er ást þeirra ekkert nema draumur, eða hvað?

Upside Down

Mörg kunnugleg þemu birtast í Upside Down, en forboðin ást er rauði þráður myndarinnar. Hin dystópíska heimssýn sem einkennir Down Below minnir nokkuð á bókina Nineteen Eighty-Four eftir George Orwell, en í þessu tilviki er skiptingin breið og vísar sumpart til Berlínarmúrsins, aðskilnaðarstefnu Suður-Afríku og kúgun þróaðra ríkja á þeim vanþróuðu. Biblíuvísanir eru einnig nokkuð augljósar, en aðalpersónurnar heita Adam og Eden. Því þarf ekki mikið ímyndunarafl til að giska á hvernig fer og reyndar er það sagt í byrjun myndarinnar hver boðskapur hennar sé þannig að greinilega er tilgangur hennar ekki að koma á óvart. Og þó…

Það sem kemur jú flestum á óvart er hversu stórkostlega flottur myndræni hluti Upside Down er. Tæknibrellurnar eru að mestu leyti mjög vel heppnaðar, en í örfáum tilvikum virka þær pínu hálfkláraðar. Umhverfið sem okkur birtist er virkilega fallegt og mikið sjónarspil fylgir því að sjá nánd plánetanna og þær andstæður sem einkenna þær. Stíllinn minnir þannig séð nokkuð á leikstjórann Terry Gilliam, en er töluvert hefðbundnari en það sem finnst í súrrealískum kolli hans. Birtingin á því óvenjulega þyngdarafli sem þar er að finna er líka mjög athyglisverð, en margar pælingar eru settar fram sem möguleikar á nýtingu þyngdaraflsins. Til dæmis má nefna yngingarkremið sem Adam þróar þar sem þyngdaraflið er notað til að lyfta upp húðinni og koma á því jafnvægi. Öfug rigning er fyrirbæri sem sést á hæstu fjöllum og mörg rými innan Transworld byggingarinnar nýta þyngdarafl beggja pláneta. Það getur því verið fyndið að fylgjast með samskiptum fólks þar á milli. Grafíska hlið myndarinnar rammar söguna virkilega vel inn, en gallinn er sá að ramminn er töluvert meira spennandi en saga myndarinnar. Hér er um að ræða hefðbundna ástarsögu í stórmerkilegum og hrífandi heimi sem skyggir á þá fáu eiginleika sem hún hefur upp á að bjóða. Ef sagan byði upp á dýpri sýn inn í heiminn og stöðu þeirra innan hans gæti myndin risið langt fyrir ofan meðalmennskuna sem einkennir söguna. Upside Down birtist manni í fyrstu sem vísindaskáldsaga en þar sem hún byggir á mjög fantasískum grunni hefði verið sniðugt að gera meira úr honum og leyfa undrum sjónarspilsins að vinna betur með sögunni.

Upside Down

Sjón er sögu ríkari og persónulega gef ég kvikmyndum með sterka myndræna nálgun fleiri sénsa til að hrífa mig. Ég get auðveldlega notið myndar sem að leggur litla áherslu á söguþráð en mikla á kvikmyndatöku og umgjörð. Því fílaði ég myndina í heildina, þó að klisjurnar hafi dregið hana niður. Einnig fannst mér nokkur atriði frekar ótrúverðug í samhengi við lögmál eða reglur heimsins og þó ég kunni ekki að meta of miklar útksýringar þá vantaði stundum upp á slíkt til að lögmálin gengju upp. Þegar uppi er staðið er Upside Down samt skemmtileg pæling og mikið augnakonfekt, en innihaldið hefði mátt vera bragðmeira.

 

Höfundur er Andri Þór Jóhannsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑