Bækur og blöð

Birt þann 16. september, 2011 | Höfundur: Nörd Norðursins

1

Fjórða besta vísindaskáldsaga allra tíma!

Jóhann Þórsson fjallar um FIMM BESTU VÍSINDASKÁLDSÖGUR ALLRA TÍMA.

Árið er 2131. Fimmtíu árum áður lagði loftsteinn ítölsku borgirnar Padua og Verona í rúst, og í kjölfarið var ákveðið var að setja á fót SPACEGUARD, verkefni sem miðaði að því að láta gervitungl fylgjast með smástirnum í sólkerfinu til að fyrirbyggja að svona lagað gæti gerst aftur. Rendezvous With Rama byrjar á því að SPACEGUARD greinir hlut sem kemur inn í sólkerfið á ógnarhraða, og við nánari athugun kemur í ljós að hann getur ekki verið náttúrulegur. Ráðmenn ákveða síðan að senda þurfi skip til að kanna þetta en sökum þess hversu hratt hluturinn, sem fær nafn Hindu-guðsins Rama, ferðast þarf að gera það í flýti, áður en Rama fer aftur út úr sólkerfinu. Það fara í gang miklir útreikningar á ljós-endurkasti Rama, snúningi og þyng og niðurstaðan er sú að Rama sé 50 kílómetra langur hólkur, holur að innan, grár og mattur að utan. Það hefur því verið staðfest að maðurinn er ekki einn í geimnum.

Rendezvous With Rama byrjar á því að SPACEGUARD greinir hlut sem kemur inn í sólkerfið á ógnarhraða, og við nánari athugun kemur í ljós að hann getur ekki verið náttúrulegur.

Af tilviljun er skipið Endeavour eina geimskipið staðsett þannig að það geti náð til Rama áður en það hverfur bakvið sólina og skýst í burtu vegna áhrifa aðdráttarafls hennar.

Commander Norton, aðalsöguhetja bókarinnar, er skipsherra Endeavour. Hann ber ábyrgð á því að fljúga að Rama, lenda á hólknum (sem snýst um sjálfan sig á miklum hraða) og rannsaka þessa fyrstu sönnun þess að maðurinn sé ekki einn í geimnum. Hann og áhöfn Endeavour eyða svo bókinni í að rannaka þennan hlut, að utan og innan.

Rendezvous With Rama kom út 1972 og vann bæði Hugo og Nebula verðlaunin það árið. (Taka skal fram að allar bækur sem unnið hafa bæði verðlaunin teljast skyldulesning).  Framvinda hennar felst í því hvernig Norton og menn hans fara að því að rannsaka Rama en einnig er mikið fjallað um pólitíkina í kringum Rama. Einn uppáhaldshluti minn í bókinni er það þegar stjórnendur plánetunnar Merkúrs (menn hafa sest að á tunglinu, Mars og Merkúr í sögusviði bókarinnar) ákveða að senda kjarnorkusprengju að Rama, og viðbrögð Nortons við því.

 

 

Umhverfinu inni í Rama eru gerð afar góð skil og Clarke passar sig á því að hafa allt sem vísindalega réttast, til dæmis er ekkert þyngarafl í miðjum hólknum, en vegna þess að hann snýst um sig miðjan er svo gott sem „eðlilegt“ aðdráttarafl á veggjum hans. Hann lýsir vel því þegar Norton stendur á „botni“ Rama og horfir „upp“, en inni í hólki er í raun ekkert upp og niður, það fer allt eftir því hvar maður stendur. Mesta spennan í bókinni felst í leit Norton að einhverju lífi í Rama, og tilraunum hans til að komast að því hver bjó ferlíkið til, og í hvaða tilgangi.

Vísindaskáldskapur skiptist gjarnan í flokka. Einn þeirra er svokallaður „hard science fiction“, en þar skiptir miklu máli að vísindin í vísindaskáldskapnum séu nokkuð rétt. Ferðalög á nálægt ljóshraða, geimverur með yfirnáttúrulega hæfileika, menn í kuflum með sverð úr geislum og annað þvíumlíkt er ekki vel liðið í hard sci-fi geiranum. Rendezvous With Rama er klárt dæmi um hard science fiction. Bókin er vel, en ekkert endilega fallega, skrifuð og ætti að höfða til allra sem hafa gaman af vísindaskáldskap. Í raun er Rendevous With Rama týpísk „first-contact“ saga, en ber af þeim flestum, helst vegna þess hve vandlega Arthur C. Clarke heldur sig við vísindin. Það er þó um leið einnig helsti galli bókarinnar. Clarke vandar sig svo við að viðhalda forvitni og undrun lesandans (og gerir það vel) að hann virðist gleyma að láta persónurnar hafa persónuleika. En þetta er smávægilegur galli. Bókin er spennandi, áhugaverð og heldur manni við efnið allan tímann, fram að frábærum endi.

Rendezvous With Rama er fjórða besta vísindaskáldsaga allra tíma.

Jóhann Þórsson


Deila efni

Tögg: , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



One Response to Fjórða besta vísindaskáldsaga allra tíma!

  1. Pingback: Vísindaskáldskapur « Jóhann Þórsson

Skildu eftir svar

Efst upp ↑