Birt þann 20. maí, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins
0Vísindaskáldsögur fyrir lengra komna
Fyrir nokkrum vikum skrifaði ég stutta grein og mælti með vísindaskáldssögum fyrir þá sem þekktu lítið til í þeim bókaflokki. Mig langaði að fylgja henni eftir og benda á bækur fyrir hinn almenna furðusagnalesanda. Mikill fjöldi bóka kom til greina en ég ákvað að velja nýlegri sögur, sú elsta er frá 1989. Gaman væri að heyra hugmyndir annarra og hvet ég fólk eindregið til að mæla með góðum vísindaskáldsögum í athugasemdum.
Hyperion – Dan Simmons
Hyperion er sérstök saga sett fram sem rammasaga utan um sex minni frásagnir. Hver þeirra er sögð af einstaklingi í hópi pílagríma sem ferðast að Tímahvelfingunum á plánetunni Hyperion. Simmons hefur gífurlegt ímyndunarafl og gefur því algert frelsi. Seglskip ferðast á landi, risavaxinn tré fljúga um geiminn og óstöðvandi stálrisar saxa niður heilar herdeildir. Ólíkt mörgum vísindaskáldsagnahöfundum þá lærði Simmons tungumál en ekki raungreinar. Þetta sést í mörgum tilvitnum hans í skáldið Keats. Hann veltir sér heldur ekki upp úr tæknilegum útfærslum á hugmyndum sínum. Bókin er sú fyrsta af fjórum og finnst mér hún bera af í samanburði við framhöldin. Þau eru meira í ætt við klassískar geimóperur og með hefðbundnu frásagnarsniði. Ef þið hafið gaman af Hyperion mæli ég samt með því að kíkja á hinar.
Snow Crash – Neal Stephenson
Sumir segja að Neil Stephenson sé besti vísindaskáldsagnahöfundur síðustu ára. Ég veit ekki hvort ég sé sammála því en bók hans Snow Crash er einkar merkileg. Frá fyrstu málsgreininni grípur textinn mann og sleppir aldrei taki. Hetja sögunnar er pitsasendillinn Hiro Protagonist. Hann býr í Los Angeles framtíðarinnar sem er lagalaust frjálshyggjusamfélag og ekki lengur hluti af Bandaríkjunum. Einstaka hópar mynda sjálfstæð yfirráðasvæði og glæpagengi ráða ríkjum. Söguþráðurinn er nokkuð flókinn en atburðarásin hefst þegar að nýtt eiturlyf, í formi tölvukóða, verður á vegi Hiro. Fíkniefninu er dreift í sýndarheimi á internetinu en hefur líkamleg áhrif á notendur. Stephenson er góður penni sem býr til skemmtilega grófar persónur. Ég mæli einnig með bók hans Cryptonomicon og þeir sem eru mjög hrifnir geta líka lesið The Diamond Age, sem mér fannst þó helst til of skrítin.
Altered Carbon – Richard Morgan
Altered Carbon er reifari í klassískum Noir stíl. Höfundurinn, Richard Morgan, býr til heim þar sem menn vista vitund sína í litlum minniskubbum áfestum við hryggjasúluna. Ef áverkar eða sjúkdómar leiða til dauða er fólk vakið upp í glænýjum líkama eins og ekkert hafi í skorist. Ævaforn og moldríkur maður, sem á að hafa framið sjálfsmorð, ræður söguhetju bókarinnar, Kovacs, til að rannsaka meint sjálfsmorð. Kovacs er grjótharður nagli sem leggur allt á sig til að komast að sannleikanum. Þetta er skemmtileg bók sem ég kláraði á tæpum þremur dögum. Get ekki annað en mælt með henni. Morgan hefur einnig skrifað framhöld sem ég á eftir að lesa en þó skal tekið fram að Altered Carbon er algerlega sjálfstæð. Hef aldrei skilið af hverju hún hefur ekki verið kvikmynduð, líklega hefur gróft ofbeldi sögunnar eitthvað með það að gera. Skilst samt að Hollywood sé að vinna í málinu.
A Fire Upon the Deep – Vernor Vinge
Hópur manna á flótta undan ævafornri illsku, sem mannkynið hefur óvart sleppt úr áralangri prísund, brotlendir á óþekktri plánetu. Á henni búa geimverur í miðaldarsamfélagi en þær myrða hluta mannanna. Verurnar eru ferfætlingar og lifa fjórar til átta saman sem ein eining. Tvær stríðandi fylkingar taka sitt hvort mannsbarnið og nýta þekkingu þeirra í bardögum sín á milli. Þessi bók minnir stundum á ævintýrabækur í ætt við Hringadrottinssögu. Hún er einkar skemmtileg og kom mér mjög á óvart. Höfundinum tekst að búa til spennandi atburðarás, sem hrífur frá fyrstu síðum bókarinnar. Samfélag þessara skrítnu geimvera er ótrúlega áhugavert og persónusköpunin er á köflum hreint ótrúleg. Ég stefni á að lesa framhöld sögunnar við fyrsta tækifæri.
Old Man’s War – John Scalzi
John Perry er 75 ára ekkill sem hefur tækifæri til þess að verða aftur tvítugur. Eini gallinn er að hann þarf að þjóna í her mannkyns í nokkur ár. Ef John lifir af endalausa bardaga við geimverur er honum veitt nýtt upphaf sem ungur maður. Söguhetjan er augljóslega tilbúinn í þetta og gengur á vit ævintýranna. Bókin er, sérstaklega framan af, æðislegur lestur. Farið er yfir viðbrigði þess að vera gamall maður einn daginn og ungur hinn næsta. Margir hafa borið bókina saman við The Forever War sem er alls ekki slæmt. Sagan tekur á þeim breytingum sem Perry verður fyrir og hvernig mannkynið myndi nota svona tækni ef það hefði vald á henni. Gaman að segja frá því að ferðamáti manna um alheiminn í þessari bók er einkar frumlegur og vísindalega mjög áhugaverður.
Ólíkt listanum sem ég setti fram í Vísindaskáldsögur fyrir byrjendur þá hefur engin af þessum bókum verið kvikmynduð. Þær hafa allar fengið góðar viðtökur, náð miklum vinsældum og unnið til verðlauna, þrjár þeirra meir að segja fengið Hugo verðlaun. Því mæli ég eindregið með að þið lítið á þær. Hérna eru svo nokkrar aðrar bækur sem ég get mælt með: The Left Hand of Darkness (Ursula K Le Guin), Forever War (Joe Haldeman), Rendezvous with Rama (Arthur C. Clarke), Gateway (Fredrik Pohl), The Mote in God’s Eye (Niven & Pournelle), The Moon is a Harsh Mistress (Robert A Heinlein), The Stars My Destination (Alfred Bester) og Foundation (Isaac Asimov).
Höfundur er Einar Leif Nielsen,
rithöfundur.