Bækur

Birt þann 17. apríl, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Vísindaskáldsögur fyrir byrjendur

Ég hef alltaf gaman af því að mæla með góðri bók en sérstaklega skemmtilegt er að benda á góða vísindaskáldsögu. Málið getur þó vandast ef lesandi þekkir lítið til þeirra bókmennta.

Margir sem hafa gaman af bíómynd eins og District 9 eru ekki alltaf tilbúnir að lesa Dune eftir Frank Herbert. Því sumum bregður við að vera þrýst inn í flókinn bókmenntaheim sem inniheldur geimverur, vélmenni, fjarhreyfingu (e. telekinesis) og ótal nöfn sem þeir hafa aldrei heyrt áður. Betra er því að lofa lesendum að upplifa aðgengilegri bækur fyrst um sinn. Ef viðkomandi líkar lesturinn má fara út í alvarlegri sálma.

Mig langaði því að búa til stuttan lista fyrir þá sem þekkja lítið til vísindaskáldsögunnar. Þið sem eruð vel að ykkur í þessum bókaflokki skuluð endilega koma með ykkar tillögur í athugasemdum. Hér eru nokkrar hugmyndir fyrir áhugamanninn (sem og hinn lengra komna lesanda).

 

Sci-Fi_Enders_GameEnder‘s Game eftir Orson Scott Card

Ef það er ein bók sem alltaf slær í gegn, þegar ég mæli með henni, þá er það Ender‘s Game. Sagan gerist í framtíð þar sem mannkynið er í stríði við geimverur. Ungur drengur, Ender Wiggin, er sendur í herskóla, þar sem verið er að þjálfa hershöfðingja í baráttunni gegn geimveruógnvaldinum. Eitthvað er við þessa sögu sem virðist höfða til margra og er hún af mörgum talin ein besta vísindaskáldsaga allra tíma. Þrátt fyrir að hún innihaldi geimverur og geimskip er sögusviðið einangrað og kæfir ekki lesendur í nýjum hugtökum. Persónurnar eru vel skrifaðar og textinn grípandi. Helsta gagnrýni við bókina tengist ekki sögunni heldur persónulegri skoðun höfundar um málefni samkynhneigðra. Fólk verður að gera það upp við sig sjálft hvort að slíkt hafi áhrif eða ekki. Ef svo er þá eru ýmsar síður á netinu þar sem hægt er að ná í eintak fyrir „næstum“ ekki neitt.

 

Hitchhickers GuideHitchhiker’s Guide to the Galaxy eftir Douglas Adams

Þessi saga var upphaflega útvarpsleikrit, síðar metsölubók, svo sjónvarpsþáttur og nýlega bíómynd. Eitthvað er við The Hitchhiker‘s Guide to the Galaxy sem krefst þess að menn reyni að koma henni til skila á sem fjölbreyttastan máta. Hún er fyndnasta bók sem ég hef lesið og var á sínum tíma skyldulesning í menntaskóla. Þetta er háðsádeila á hina hefðbundnu geimóperu en við upphaf bókarinnar er jörðinni eytt vegna framkvæmda við stjörnuhraðbraut. Aðalsöguhetjan, Arthur Dent, sleppur þó naumlega vegna tilstuðlan besta vinar síns, sem er geimvera. Þetta kemur Arthur afskaplega mikið á óvart en útskýrir um leið ótrúlega mikið. Félagarnir halda svo af stað í leit að svari við hinni endanlega spurning um lífið, alheiminn og allt annað. Sagan fær fólk til að hlægja upphátt. Upplagður lestur fyrir þá sem skilja ekki hvað er svona merkilegt við töluna 42.

 

Slaughterhouse FiveSlaughterhouse Five eftir Kurt Vonnegut

Sumir vita kannski ekki að Vonnegut var afkastamikill vísindaskáldsöguhöfundur. Margar af hans helstu sögum eru furðusögur þrátt fyrir að vera flokkaðar sem bókmenntir af sérfræðingum samtímans. Hér er á ferðinni súrealísk tímaferðalagssaga sem er einstaklega vel skrifuð og áhrifamikil. Margir telja hana vera besta verk Vonnegut og eitt hans persónulegasta. Hetja sögunnar er Billy Pilgrim miðaldra maður sem á það að til að fara í tímaferðalög. Hann upplifir aftur meðal annars dvöl sína sem stríðsfangi í Dresden í seinni heimstyrjöldinni og verður vitni að eyðileggingu borgarinnar (nokkuð sem Vonnegut sjálfur upplifði). Þrátt fyrir að vera undarlega uppsett þá er lesturinn skemmtilegur enda höfundurinn þekktur fyrir færni sína.

 

I RobotI, Robot eftir Isaac Asimov

Til að byrja með er réttast að benda á að þessi bók hefur lítið með Will Smith bíómyndina að gera. Hér er á ferðinni smásagnasafn en límið sem heldur sögunum saman er frásögn sögumanns á formi viðtals. Smásagnaformið hentar oft vel fyrir óreynda lesendur og leyfir þeim að kynnast heimi Asimov betur með hverri sögu. Sögusviðið er 21. öldin og reynir höfundur kryfja hið mannlega eðli og breytingar sem innleiðing vélmenna hefur á það. Sagan þar sem þrjár meginreglur vélmenna kom fyrst fram er í þessari bók en þær eru sterkur þráður í skáldskap Asimov. Þetta er ein af frægustu bókum höfundarins og virkilega skemmtileg lesning.

 

Jurassic ParkJurassic Park eftir Michael Crichton

Margir reka kannski upp stór augu hér en Crichton var allra vinsælasti vísindaskáldsagnahöfundur 10. áratugarins og mjög aðgengilegur sem slíkur. Þessi vinsæla saga var auðvitað grunnur af bíómynd Spielberg. Crichton getur verið full tæknilegur á köflum en lesturinn er spennandi og skemmtilegur. Í Júragarðinum býr höfundurinn til samtíma ævintýraheim þar sem risaeðlur eru vaktar aftur til lífsins. Jafnframt reynir hann að styðja hið stórkostlega með raunverulegum vísindum. Aðrar bækur Crichton henta einnig vel fyrir þá sem eru að byrja lesa vísindaskáldsögur.

 

Þessi listi er auðvitað ekki tæmandi og einungis mín persónulega skoðun. Nokkuð skondið er að allar þessar bækur hafa verið kvikmyndaðar (Ender‘s Game verður frumsýnd í nóvember á þessu ári). Fyrir þá sem þekkja lítið til en vilja kynnast vísindaskáldsskap betur má auk þess benda á Brave New World (Aldous Huxley), 2001 (Arthur C. Clarke), The Time Machine (H G Wells), Lucifer’s Hammer (Niven & Pournelle), Doomsday Book (Connie Willis), Fahrenheit 451 (Ray Bradbury) og Flowers for Algernon (Daniel Keyes). Síðustu tvær eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér.

Tengt efni: Vísindaskáldsögur fyrir lengra komna

 

 

Höfundur er Einar Leif Nielsen,
rithöfundur.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , , , , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórnComments are closed.

Efst upp ↑