Bíó og TV

Birt þann 21. janúar, 2013 | Höfundur: Nörd Norðursins

0

Kvikmyndarýni: The Hidden (1987)

Kvikmyndin The Hidden, frá árinu 1987, er ein af þessum myndum sem ég horfði mjög oft á í minni æsku. Í langan tíma var þessi spóla á heimilinu okkar af einhverri ástæðu og nýtti ég mér það óspart. Fyrr á þessu ári keypti ég hana loksins á DVD enda hafði hún verið á hálfgerðum óskalista í hausnum á mér í langan tíma. Og sem fyrr, hef ég horft á hana nokkrum sinnum síðan ég fékk diskinn í hendurnar. Hvað er það við þessa mynd sem dregur mig að henni?

Á götum Los Angeles borgar gengur geimvera berserksgang, hlustar á þungarokk, stelur bílum, rænir banka og drepur hvern sem verður á vegi þess; nema hvað enginn veit að þetta er geimvera og aðeins alríkislögreglumaðurinn Lloyd Gallagher (Kyle MacLachlan) hefur vitneskju um þessa veru. Gallagher fær hjálp frá Tom Beck (Michael Nouri), rannsóknarlögreglumanni, við að leita geimveruna uppi. Veran flakkar milli manna og veldur miklum usla í gegnum borgina á meðan Beck er úti í kuldanum og talsvert ósáttur að hafa Gallagher með í eftirdragi.

Þessi mynd er stórskemmtileg og blandar saman mörgum þáttum úr hinum ýsmu kvikmyndaflokkum. Hún er fyrst og fremst spennumynd en er einnig hrollvekja og vísindaskáldskapur þótt létt sé farið með þann hluta myndarinnar. Það sem lyftir þessari mynd yfir meðalmennskuna er hversu gott handritið er og myndin tekur sig þónokkuð alvarlega því annars væri þessi mynd auðgleymanleg.

Þessi mynd er stórskemmtileg og blandar saman mörgum þáttum úr hinum ýsmu kvikmyndaflokkum.

Þegar maður hugsar aðeins meira um geimveruna og hegðun hennar finnst manni skrítið að hann hafi augastað á þingmann sem ætlar að bjóða sig fram sem forseta. Veran vill greinilega virðingu og völd en hvað er svona gaman við að vera forseti? Hún gæti ekki lengur stolið bílum, rænt banka og drepið fólk en gæti þó hlustað á þungarokkið sem yrði smá sárabót.

The Hidden

Það má síðan nefna manninn á bakvið brellurnar fyrir geimveruna, en hann er Kevin Yagher en hann hefur komið að nokkrum af A Nightmare on Elm Street myndunum, Child’s Play og Tales from the Crypt þáttunum. Leikstjórinn, Jack Sholder, hitti einmitt Yagher þegar hann gerði A Nightmare on Elm Street 2: Freddy’s Revenge.

Tónlist er stór partur af myndinni, bæði lögin sem heyrast í ýmsum græjum ásamt kvikmyndatónlistinni sem er samin af Michael Convertino. Tónlistin er rafræn en er þó í senn undarleg og ljúf á móti yfirgengilegu slagverki þegar allt fer til fjandans.

 

Um DVD diskinn:

Myndin er í breiðtjaldsforminu 1.85:1, endurkóðuð fyrir öll sjónvörp, og við fáum bæði upprunalegu ensku einóma 2.0 hljóðrás ásamt nýrri 5.1 hljóðrás. Það fylgir aðeins enskur texti með kvikmyndinni. Það er einnig hægt að horfa á myndina í 4:3, skjáhlutfalli hefðbundins sjónvarpsskjás.

The Hidden

Filman er í frekar góðu ásigkomulagi en hún hefur ekki verið hreinsuð neitt þar sem mjög mikið er af blettum sem koma upp hér og þar en aldrei sem eyðileggur áhorfið. Myndgæðin eru fín en þó vantar mjög uppá skýrleika myndarinnar ef allt annað en nærmynd er á skjánum. Sömuleiðis hefur verið skerpt á myndinni sem kemur niður á gæðum en er þó aldrei í líkingu við slæm dæmi eins og DVD diskana fyrir Die Hard: With a Vengeance og Star Wars: Episode 1 – The Phantom Menace.

Hljóðgæði myndarinnar eru aðeins betri og á nýja 5.1 hljóðrásin vinninginn þó svo að hún virki meira eins og víðóma hljóðrás með umhverfisáhrifum í lágmarki. Skilrúmið milli hljóðrásanna að framan eru áheyranleg og sama má segja um bassann en þar sem enn er verið að vinna með einóma rás frá níunda áratugnum þá hljómar sumt frekar tómlega. Einóma hljóðrásin er samt góður kostur fyrir þá sem vilja upplifa myndina eins og hún var gefin út og hún er í talsvert hærri hljóðstyrk svo ef maður er að flakka á milli hljóðrása þá þarf maður að hækka og lækka oft.

The Hidden

Það er umtal með leikstjóranum sjálfum, Jack Sholder ásamt öðrum kvikmyndaleikstjóra sem kom ekki að gerð myndarinnar, Tim Hunter. Leikstjórinn er ekki hræddur við að segja sínar skoðanir og til dæmis er hann ekki hrifinn að leik nokkurra aukaleikaranna í myndinni. Einnig segir hann frá samskiptaörðugleikum hans og eins aðalleikara myndarinnar en lýsir hrifningu og aðdáun sinni á leikaranum Kyle MacLachlan. Það er mikið um fróðleik um framleiðslu myndarinnar að finna hér og er nánast talað allan tímann nema helst þegar dregur að enda myndarinnar. Margir hafa lýst óánægju sinni á umtali leiksjórans en í raun er þetta óvenjulega frískandi að heyra að þetta er ekki alltaf dans á rósum að vera á tökustað. Eitt undarlegt gerðist, þá segist leikstjórinn hafa fjarlægt eina línu úr myndinni sem var greinilega ekki gert. Síðan í lokin er sagt að handritshöfundurinn hafi sett nafnið sitt aftur á verkið, en hann var ósáttur við breytingarnar og notaði dulnefni sem sést í myndinni. Það gekk mikið á við gerð þessara mynd og synd að það skuli ekki vera meira aukaefni sem fer dýpra en þrátt fyrir það er þetta gott umtal sem sleppir óþarfa lýsingum á því sem er að gerast á skjánum eða endalaust skjall.

Margir hafa lýst óánægju sinni á umtali leiksjórans en í raun er þetta óvenjulega frískandi að heyra að þetta er ekki alltaf dans á rósum að vera á tökustað.

Einnig er að finna nokkrar senur af myndbrellum í vinnslu sem voru ekki notaðar í myndinni og fylgir umtal með leikstjóranum þar sem ekkert hljóð fylgdi með myndefninu. Hann skýrir frá því hvers vegna þessar brellur voru ekki notaðar og nefnir einnig viðbrögð eins leikarans þegar hann sá brúðuna sem var gerð eftir honum.

Upprunalegu stikluna er einnig að finna á disknum ásamt lista yfir myndir aðalleikaranna tveggja og leikstjórans. Þar er að finna fleiri stiklur fyrir A Nightmare on Elm Street 2: Freddy’s Revenge, Twin Peaks: Fire Walk With Me og One Night Stand.

The Hidden

The Hidden er ekki besta mynd í heimi en hún er heldur ekki flókin og heldur sig við efnið. Þetta er ekta „strákamynd“ sem inniheldur hraðskreiða bíla, byssur og þungarokk. Ég man að ég heyrði Roger Ebert kvikmyndagagnrýnanda í einu viðtali í spjallþætti að þetta væri hans „guilty pleasure“. Það er ekkert í þessari mynd sem maður ætti að skammast sín fyrir því myndin er ekki algjörlega heilalaus.

Og eitt enn, ég vil vara fólk við því að horfa á The Hidden 2 því hún er alveg hræðilega léleg. Tengingin við fyrri myndina er ekki mikil þó svo að það sé notast við síðustu 10 mínúturnar úr fyrri myndinni sem byrjunina á seinni myndinni. Það er til DVD diskur sem inniheldur báðar myndirnar á einum diski og fyrri myndin heldur í megnið af aukaefninu á þeim diski.

 

Höfundur er Jósef Karl Gunnarsson,
fastur penni á Nörd Norðursins.

 

Deila efni

Tögg: , , , , , ,


Upplýsingar um höfund:

Birt af ritstjórn



Comments are closed.

Efst upp ↑