Fréttir

Birt þann 14. júní, 2022 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Mikill verðmunur milli tölvuleikjasetra

Í dag bjóða þrír staðir á höfuðborgarsvæðinu upp á aðgang að tölvum þar sem rík áhersla er lögð á tölvuleikjaspilun og rafíþróttir. Þetta eru staðirnir Gzero (Ground Zero), Skemmtisvæði Smárabíó og Arena Gaming. Gert er ráð fyrir því að fjórði staðurinn opni síðar á þessu ári og er um að ræða 800 fer­metra raf­í­þrótta­höll við Hall­veigar­stíg sem ber heitið Heimavöllur, eða Turf. Hægt er að lesa nánar um Heimavöll á Vísir.is.

Þegar verðskrá staðanna þriggja er borinn saman kemur í ljós mikill verðmunur. Ódýrastir eru Gzero sem rukka 700 kr. fyrir einn klukkutíma í spilun, þar á eftir kemur Skemmtisvæði Smárabíós þar sem einn klukkutími í spilun kostar 1.095 kr. og hæsta verðið er hjá Arena Gaming þar sem klukkutíminn kostar 1.150 kr.

Verð miðast við þann 14. júní 2022

Hér er einungis verið að horfa á hrátt verð á stökum leikjatíma en aðstaða, þægindi, tækjabúnaður, tilboð, viðburðir, staðsetning og fleira getur haft áhrif á hvaða staður hentar hverjum og einum.

Hér er einungis verið að horfa á hrátt verð á stökum leikjatíma en aðstaða, þægindi, tækjabúnaður, tilboð, viðburðir, staðsetning og fleira getur haft áhrif á hvaða staður hentar hverjum og einum. Gzero býður til að mynda upp á lang besta verðið en þar er til dæmis hægt að kaupa sér 10 klukkutíma í spilun á 4.800 kr. á meðan jafn margir klukkutímar kosta 9.490 kr. hjá Arena Gaming. Gzero er með sérstakt tuttugu ára afmælistilboð í júní og júlí þar sem 6 klukkutímar kosta 2.200 kr. og hefur staðurinn lagt áherslu á að halda verðinu lágu. Arena Gaming er aftur á móti með áberandi stóra og nútímalega aðstöðu og býður upp á veitingar í gegnum veitingastaðinn Bytes þar sem hægt er að panta pizzur, borgar, bjór og fleira. Arena eru einnig duglegir að bjóða upp á fjölbreytt úrval af viðburðum, má þar nefna Roblox partý, Rivals of Aether mót, Quake kvöld og þann 31. júlí verður Íslandsmót í StarCraft 2 svo eitthvað sé nefnt. Skemmtisvæði Smárabíós býður upp á fjölbreyttustu skemmtunina en þar er ekki aðeins hægt að leigja rafíþróttasvæði, í Skemmtisvæðinu er einnig hægt að skella sér í sýndarveruleika, fara í lasertag, syngja í karaoke, halda upp á afmæli og svo er stutt að fara í Smárabíó og þá veitingastaði sem eru staðsettir í Smáralind. Allir þessir þrír staðir hafa því sína sérstöðu.

Mynd: Wikimedia Commons

Deila efni

Tögg: , , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑