Fréttir

Birt þann 23. júlí, 2020 | Höfundur: Bjarki Þór Jónsson

Hellblade II gerist á Íslandi

Tölvuleikurinn Hellblade II mun gerast á Íslandi. Þetta kom fram í tilkynningu í dag frá tölvuleikjafyrirtækinu Ninja Theory sem þróar og framleiðir leikinn. Ekki er langt síðan að íslensk náttúra fékk að njóta sín í stórleik en leikjaheimurinn í Death Stranding sækir meðal annars innblástur frá íslenskri náttúru.

… einn af stofnendum Ninja Theory segist fyrst hafa fengið hugmynd um að gera framhald af Hellblade eftir að hafa heimsótt Ísland …

Leikjahönnuðurinn Tameem Antoniades sem er jafnframt einn af stofnendum Ninja Theory segist fyrst hafa fengið hugmynd um að gera framhald af Hellblade eftir að hafa heimsótt Ísland og upplifað þá mögnuðu nátturu sem hér er að finna. Tameen ákvað í kjölfar heimsóknarinnar að nota Ísland sem tökustað fyrir nýja leikinn og byggja leikjaheiminn í Hellblade II á raunverulegum íslenskum stöðum.

Ninja Theory fékk aðstoð frá Saga film við að finna staði sem passa við söguþráð leiksins og sá fyrirtækið Quixel um að skanna hluti og svæði og útfæra yfir á stafrænt form til þess að nota í leiknum. Hljóðvinnslan fór einnig fram í íslenskri náttúru og vonast Tameen að með því að byggja umhverfi leiksins á raunverulegum staðsetningum muni fyrirtækið ná að fanga þá töfra sem okkar sérkennilega, fallega og um leið hættulega land hefur upp á að bjóða, líkt og Tameen segir í myndbandi sem fyrirtækið birti í dag á YouTube-rás sinni.

Senua’s Saga: Hellblade II var upphaflega kynntur árið 2019 og staðfest hefur verið að leikurinn komi út á PC (Windows), Xbox One og nýjustu leikjatölvu Microsoft, Xbox Series, sem kemur í verslanir síðar á þessu ár. Fyrri leikurinn, Hellblade: Senua’s Sacrifice, hlaut mikið lof fyrir framúrskarandi leikjahönnun þar sem söguþráður leiksins tengist norrænni goðafræði þar sem spilarinn fær meðal annars að berjast við Surt og Fenrir sem fólk ætti að þekkja úr Snorra Eddu. Það sem gerir leikinn þó einstakan eru þau andlegu veikindi sem aðalpersóna leiksins glímir við í gegnum leikinn þar sem hún upplifir ofskynjanir og heyrir raddir.

Enginn útgáfudagur hefur verið gefinn út fyrir Senua’s Saga: Hellblade II.

Fyrri leikurinn, Hellblade: Senua’s Sacrifice, lenti á lista Nörd Norðursins yfir bestu leiki ársins 2017. Daníel Rósinkrans gagnrýndi leikinn einnig hér á Nörd Norðursins og heimsótti Óla Jóels í GameTíví.

Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:Efst upp ↑