Leikjarýni

Birt þann 2. apríl, 2019 | Höfundur: Steinar Logi

0

Sekiro: Shadows Die Twice er skyldukaup fyrir Souls aðdáendur

Sekiro: Shadows Die Twice er skyldukaup fyrir Souls aðdáendur Steinar Logi

Samantekt: FromSoftware svíkur aldrei. Hönnun leiksins er til fyrirmyndar og allt niður í smæstu smáatriði er vel úthugsað.

4.5

Ninja Souls


Í nótt dreymdi mig um „Mikiri counters“, „overhead jumps“ og „Ichimonji“ og gaura eins og Seven Ashina Spears – Shikibu Toshikatsu Yamauchi. Heilinn minn hélt áfram að spila Sekiro: Shadows Die Twice þegar ég var sofandi. FromSoftware hefur snúið til baka með enn einn leikinn sem heltekur mann.

En þetta er það sem manni langaði í. Um daginn spilaði ég Assassin’s Creed Origins sem er fínn leikur og með flottan og stóran heim. En miðað við Souls leiki þá vantaði manni alvöru tengingu við þessa staði. Maður náði sínum útsýnispalli og fór svo. Síðan barðist ég við tvo fíla í einu sem tók mig nokkrar tilraunir og þá virkilega saknaði ég FromSoftware leikjanna. Masókistinn fékk sína ósk og hér erum við.


FromSoftware hefur snúið til baka með enn einn leikinn sem heltekur mann

Nú er ég ekki að leggja AC Origins í einelti enda fínasti leikur en ef við berum saman heiminn þá er eins og Sekiro hafi aukavídd og sé eitthvað meira en bara þessar þrjár víddir. Ástæðan er að FromSoftware setur mikla áherslu á að byggja heiminn lóðrétt, skáhallt og hreinlega í allar áttir. Þetta á líka að mynda eina heild þannig að það getur vel verið að þú sjáir nokkra staði sem þú annað hvort átt eftir að fara á eða hefur verið á ef þú nærð góðu sjónarhorni. Það er erfitt að lýsa þessu og andrúmsloftinu í þessum leikjum nema að spila þá. Bloodborne gerði þetta mjög vel (eins og flestir Dark Souls leikirnir) og þetta er jafnvel betur gert í Sekiro. Síðan bætirðu við hreyfanleika sem hefur aldrei verið áður í svona leik þar sem þú getur skotist milli staða með því að nota tilgert tól (grapple).

Mikið hefur verið talað um hversu erfiður Sekiro er og hvernig hann er í samanburði við fyrri titla FromSoftware. Fyrir mig þá var Bloodborne erfiðari leikur í heildina því að hann var hraðari og meira kaótískur, meira tilviljunarkenndur. En þetta er ekki svo einfalt.


Það er erfitt að lýsa þessu og andrúmsloftinu í þessum leikjum nema að spila þá

Það að ferðast um í heiminum sjálfum og berjast við venjulega óvini er ekki það erfitt eftir að maður hefur lært undirstöðuatriðin, því að mikið af venjulegum bardögum byggist á því að læðast um og stinga óvinina í bakið. Sekiro er að miklu leyti læðast-um leikur (stealth) sem jafnvel hjálpar til með stóru óvinina. Maður drepst t.d. ekki samstundis við fall ofan af kletti ef maður hefur nóg líf.

Margir stórbardagarnir leyna yfirleitt á sér en eins og í fyrri leikjum þá kemst maður í gegnum þá með þrautseigju þegar maður lærir á andstæðinginn. Í örfáum tilfellum þá getur myndavélasjónarmiðið truflað eins og vill vera í þessum leikjum. En ég verð að kvarta yfir endabardaganum. Þarna hefur FromSoftware ákveðið að gera hann virkilega erfiðan til að klára og sameina allt sem spilarinn hefur lært í einn epískan bardaga (það eru að vísu þrír til fjórir mismunandi lokabardagar en þeir eru samt álíka að þessu leyti). Vandamálið við bardaga í mörgum fösum er að tíminn til að læra næsta fasa er mjög lítill því að maður þarf alltaf að sigra fyrsta til að ná honum. Þetta stigmagnast  þegar maður þarf að fara í gegnum t.d. fjóra fasa, hver með sín sérkenni, og allt í einu þarf maður að eyða heilum dögum í að klára leikinn. Undirritaður náði honum loksins og það var mikill léttir en í endabardögunum finnst mér FromSoftware hafa farið aðeins yfir strikið (sama gildir um einn aukastórbardaga sem maður getur sleppt sem virkar mjög á mis við restina af leiknum). Ég er samt ekki sammála því að þessir leikir þurfi eitthvað „easy mode“ því að það myndi draga úr aðaleinkenni og reyndar tilgangi þessara leikja. Þeir eiga að vera erfiðir.


í endabardögunum finnst mér FromSoftware hafa farið aðeins yfir strikið hvað varðar erfiðleikastig

Það eru margir möguleikar við að nota mismunandi taktík því að þú hefur nokkurs konar vélmennahönd sem hægt er að setja á alls konar framlengingar til varnar eða sóknar. T.d. er hægt að nota regnhlíf til varnar göldrum eða fest á hann spjót eða exi. Af einhverjum ástæðum þá er þetta tengt gjaldmiðli sem kallast „spirit emblems“ væntanlega til að spilarar stóli ekki um of á þetta. En það er sumt sem þú verður að læra því að annars kemst ekki áfram í leiknum. Sem gamall Souls spilari þá notaði ég mikið það að rúlla mér frá árásum (dodge). Í langflestum tilfellum þá er þetta ekki besta leiðin og því þurfti ég að læra bardagakerfi Sekiro sem byggist á að verjast (deflection). Þetta er líka burthvarf frá öllum hinum Souls leikjunum og því er Sekiro öðruvísi leikur þrátt fyrir að halda mörgum öðrum einkennum FromSoftware leikja.

Þú og óvinirnir í leiknum hafa heilsu og eitthvað sem kallast „posture“ sem er í raun vörnin þín. Það er hægt að brjóta niður vörn óvina stundum hraðar en lífið þeirra og þegar þú nærð að gera það þá opnast möguleiki á að klára bardagann með einni stungu svokallað „deathblow“. Þetta gerirðu t.d. með því að „deflecta“ og þá þarftu að ýta á hnapp í hvert sinn sem andstæðingur gerir árás. Þess vegna, eins og í Bloodborne, þá borgar sig að vera í sókn en samt kunna hreyfingar andstæðinga.

Sagan er aðeins skýrari en áður en samt er mörgum spurningum ósvarað í lokin eins og er venjan með þessa leikina. Lofar góðu með bakgrunnssögupælingar í framtíðinni (lore) og ég sé fram á mikið af YouTube vídeóum með fullt af kenningum. Strax er þessi leikur orðinn vinsæll á Twitch eins og búist var við.


Þú og óvinirnir í leiknum hafa heilsu og eitthvað sem kallast „posture“ sem er í raun vörnin þín

Það er auðveldara að fylgja verkefnum og vita hvers er óskað af manni hverju sinni. Þú ert Shinobi eða ninja sem kallast Wolf og þitt hlutverk er að vernda kóngasoninn. Það rennur drekablóð í æðum þessa stráks sem margir girnast því að það gefur notandanum möguleikann á að endurlífgast. Sem er einmitt eitt af því nýja í Sekiro, því maður getur fengið annað tækifæri (eða fleiri) eftir að maður drepst. Samt sem áður endurnýjast ekki heilsudrykkirnir þín en stundum dugir þetta til að klára erfiðan bardaga.

En það er refsing fyrir að drepast of oft (og nota þ.a.l. þetta drekablóð) því að allir aðrir sem eru á þínu bandi í heiminum eiga á hættu að fá svokallað „dragonrot“ og verða því algerlega ósamstarfshæfir þangað til þeir eru læknaðir með lyfi sem er í takmörkuðu upplagi. Þetta þýðir að verkefni (quests) stoppa og allar nytsamlegar samræður. Aumingja fólkið liggur bara í hrúgu og hóstar.


Fyrir Souls unnendur þá eru þetta skyldukaup

Fyrir Souls unnendur þá eru þetta skyldukaup en fyrir suma þá er hann hugsanlega of erfiður, alla vega ætti fólk að gefa sér tíma í hann. Það er hægt að líta á hann sem leik sem endist því að hann er ekki kláraður einn, tveir og þrír (og við bætist „New Game Plus“ sem er alltaf gaman að tækla í þessum leikjum). En þetta er algerlega frábær leikjasmíð. Uppbygging heimsins og öll hönnun í honum er til fyrirmyndar og allt niður í smæstu smáatriði er vel úthugsað.


Deila efni

Tögg: , , ,


Upplýsingar um höfund:Comments are closed.

Efst upp ↑